Bæjarráð - 806. fundur - 27. ágúst 2013

 

Þetta var gert:

 

1.      Fundargerð fræðslunefndar.

Fræðslunefnd 13/8. 334. fundur.

  1. liður. 2013-05-0012. – Bæjarráð frestar erindinu og óskar eftir upplýsingum um kostnað og viðauka við fjárhagsáætlun.

 

2.      Fundargerð umhverfisnefndar.

Umhverfisnefnd 21/8. 398. fundur.

  1. liður. 2012-03-0090. – Bæjarráð samþykkir tillögu umhverfisnefndar.

Arna Lára Jónsdóttir, fulltrúi Í-listans í bæjarráði vill láta bóka eftirfarandi vegna framkvæmda við skólalóð Grunnskólans á Ísafirði.

 

Mikið skipulagsklúður er í uppsiglingu vegna breytinga á skólalóð við Grunnskólann á Ísafirði. Hönnun skólalóðarinnar kemur alltof seint fram og undirbúningi er verulega ábótavant. Í úttektarskýrslu Mennta-og menningarmálaráðuneytisins á starfsemi GÍ sem kom út fyrir ári síðan fékk skólalóðin falleinkunn. Í skýrslunni kemur fram að veikasti þátturinn í aðstöðu skólans varði skólalóð og það sé brýnt að hún verði endurskipulögð því segja má að ófremdarástand ríki að þessu leyti. Nú ári seinna er ástandið mun verra þar sem skólalóðin hefur verið minnkuð verulega, jafn fá leiktæki eru á skólalóðinni en heilum árgangi leikskólabarna bætt við þann fjölda sem nú þegar nýtir skólalóðina. Það hefur því legið lengi fyrir að breytinga væri þörf á skólalóðinni eða allt frá því að Austurvegur 2 var seldur í apríl árið 2012 undir hótel og hluti skólalóðarinnar var settur undir bílastæði.

 

Framkvæmdin er breyting á deiliskipulagi en ekki hefur verið farið eftir formlegum stjórnsýslureglum varðandi kynningu svo hlutaðeigandi aðilar hafi möguleika á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Nú er svo komið að framkvæmdirnar við skólalóðina eru langt á veg komnar án þess að hafa verið kynntar formlega.

 

Ljóst má vera að aðgengi að stofnunum, heimilum og fyrirtækjum í kringum skólann hefur verið skert verulega og einsýnt að umferðaröngþveiti verði við skólann á álagspunktum.

 

Óskað er sérstaklega eftir því að hugað verði að öryggi og vellíðun þeirra barna sem vistuð verða á Eyrarsól, nýrri leikskóladeild fyrir 5 ára börn sem staðsett er á annarri hæð Sundhallar Ísafjarðar. Hætta er á klórgufum vegna nálægðarinnar við sundlaugina sem getur reynst astmasjúkum mjög erfið. Því er það skylda bæjaryfirvalda að tryggja að börnum og starfsmönnum stafi engin hætta af veru sinni á Eyrarsól.

 

Gísli H. Halldórsson lætur bóka að Ísafjarðarbær hefur aldrei gefið neinn afslátt af öryggi barnanna, þrátt fyrir að einhver mistök hafi átt sér stað í auglýsingu breytinganna.

Albertína Elíasdóttir tekur undir bókun Gísla H. Halldórssonar.

 

2.   liður. 2013-07-0060. – Bæjarráð samþykkir tillögu umhverfisnefndar.

 

3.      Bréf sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs. – Gatnagerð á Mávagarði, viðauki við fjárhagsáætlun. 2013-01-0042.

Lagt fram bréf Jóhanns Birkis Helgasonar, sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs, dagsett 12. ágúst sl., um aukinn kostnað við uppfyllingu á Mávagarði. Lóð Olíudreifingar og höfnin á Mávagarði eru mun hærri en núverandi vegur niður á Mávagarð og nauðsynlegt er að fylla í götuna svo hægt sé að taka þessi mannvirki í notkun. Viðauki við fjárhagsáætlun fylgir erindinu.

Bæjarráð frestar erindinu.

 

4.      Trúnaðarmál. – Skólalóð við Austurveg. 2012-03-0090.

Trúnaðarmál rætt og fært til bókar í trúnaðarmálamöppu bæjarráðs Ísafjarðarbæjar.

 

5.      Bréf húseigenda við Smiðjugötu. – Hellulagning á Smiðjugötu. 2013-02-0060.

Lagt fram bréf, undirritað af húseigendum við Smiðjugötu, dagsett 15. ágúst sl., þar sem lýst er yfir óánægju með hvernig staðið var að framkvæmdum við götuna. Íbúarnir telja götuna nú víða vera orðna of háa og niðurföll því hærri en yfirborð lóða. Viðbúið sé því að vatn liggi inni á lóðunum og leiti jafnvel inn í kjallara húsa. Óskað er eftir viðbrögðum bæjaryfirvalda.

Sviðsstjóri umhverfis- og eignasviðs hefur hitt viðkomandi aðila og telur að hann hafi fundið viðeigandi lausn á þessum málum. Bæjarráð felur sviðsstjóra að svara erindinu.

 

6.      Bréf Rnes ehf. – Deiliskipulag og uppbygging í Reykjanesi. 2009-12-0026.

Lagt fram bréf Jóns Heiðars Guðjónssonar f.h. Rnes ehf., dagsett 21. ágúst sl., þar sem óskað er svara um fyrirætlanir bæjaryfirvalda hvað varðar deiliskipulag í Reykjanesi.

Bæjarráð óskar eftir greinargerð frá sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs, en ítrekar að Ísafjarðarbær kemur að þessu máli sem landeigandi.

 

7.      Bréf Orkustofnunar. – Breyting á afmörkun leyfissvæða fyrir hið Íslenska kalkþörungafélag hf. í Arnarfirði. 2012-09-0004.

Lagt fram afrit bréfs Orkustofnunar til Íslenska kalkþörungafélagsins ehf., dagsett 14. ágúst sl. um breytingar á afmörkun leyfissvæða til töku og nýtingar kalkþörungasets í Arnarfirði.

Lagt fram til kynningar.

 

8.      Bréf Minjasjóðs Önundarfjarðar. – Ársreikningar og ársskýrsla stjórnar 2012. 2013-08-0025.

Lagt fram bréf Minjasjóðs Önundarfjarðar, dagsett 17. ágúst sl. Bréfinu fylgja ársreikningar sjálfseignarstofnunarinnar Minjasjóðs Önundarfjarðar fyrir árið 2012 og ársskýrsla stjórnar.

Lagt fram til kynningar.

 

9.      Ráðning sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs. 2013-06-0038.

Gísli H. Halldórsson vék af fundi undir þessum lið dagskrár.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar samþykkir að ráða Þórdísi Sif Sigurðardóttur í starf sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs Ísafjarðarbæjar og felur bæjarstjóra að ganga frá ráðningarsamningi við Þórdísi.

 

10.      Hjartað í Vatnsmýrinni. – Staðsetning Reykjavíkurflugvallar.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar fagnar framtaki félagsins Hjartað í Vatnsmýrinni sem stendur fyrir undirskriftarsöfnun, á www.lending.is , til stuðnings þess að flugsamgöngur við Reykjavík verði óbreyttar. Slíkt er alger forsenda fyrir íbúa þessa lands hvort sem litið er til sjúkraflugs, stjórnsýslu eða annarrar þjónustu sem í boði er í höfuðborg landsins alls.

Sveitarfélagið Ísafjarðarbær hefur áður bent á nauðsyn þess að flugsamgöngur við Reykjavík séu óbreyttar, meðal annars með samstarfi við önnur sveitarfélög, með gerð skýrslu KPMG þar sem fram komu greinilega þau neikvæðu áhrif sem það hefði á landsbyggðina ef miðstöð innanlandsflugs yrði flutt úr Reykjavík.

Einnig hvetur bæjarráð Ísafjarðarbæjar íbúa sína, sem og landsmenn alla, til að kynna sér þessi mál og leggja áðurnefndri undirskriftarsöfnun lið sitt.

 

Fleira ekki gert. Fundargerð upp lesin og samþykkt, fundi slitið kl. 09:05

 

Hjördís Þráinsdóttir, skjalastjóri.

Gísli Halldór Halldórsson, formaður.

Albertína Elíasdóttir.                                                           

Arna Lára Jónsdóttir.

Daníel Jakobsson, bæjarstjóri.

Er hægt að bæta efnið á síðunni?