Bæjarráð - 805. fundur - 12. ágúst 2013

Þetta var gert:

 

1.      Málefni tónlistardeildar Listaskóla Rögnvaldar Ólafssonar. 2013-01-0067.

Margrét Gunnarsdóttir og Sigríður Kristjánsdóttir eru mættar á fund bæjarráðs, að eigin ósk, til að ræða málefni LRÓ. Rætt um rekstur skólans og mögulega aðkomu Ísafjarðarbæjar að honum.

 

2.      Bréf Ásthildar Cesil Þórðardóttur. – Seljalandsvegur 100, Ísafirði. 2011-10-0068.

Lagt fram bréf Ásthildar Cesil Þórðardóttur, dagsett 6. ágúst sl., þar sem hún mótmælir því ferli sem uppkaup húss hennar er í, og leggur jafnframt til að hún fái áfram að eiga hús sitt og búa í því, gegn því að rýma það þegar hætta er á ferðum.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að svara bréfritara. Ljóst er að ef ekki er vilji til að semja, er bæjarstjórn nauðugur einn kostur að fara í eignarnám á húsinu.

 

3.      Kæra vegna framkvæmda við skólalóð á Austurvegi. 2012-03-0090.

Lagt fram bréf Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dagsett 7. ágúst sl. Með bréfinu fylgir kæra og afrit af fylgigögnum hennar, þar sem kærðar eru framkvæmdir Ísafjarðarbæjar vegna skólalóðar fyrir Grunnskólann á Austurvegi. Ísafjarðarbæ er gefinn er 30 daga frestur til þess að leggja fram gögn og tjá sig um kæruna.

Bæjarráð felur bæjarlögmanni að skoða málið í samstarfi við sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs.

 

4.      Bréf Rebekkustúku nr. 6 Þóreyjar. – Bókun bæjarráðs Ísafjarðarbæjar 16. júlí sl. 2012-12-0024.

Lagt fram bréf Rebekkustúku nr. 6 Þóreyjar, ódagsett, móttekið 9. ágúst sl., þar sem bókun bæjarráðs 23. júlí sl., vegna bréfa Oddfellowstúknanna á Ísafirði er mótmælt. Auk þess eru ítrekuð mótmæli vegna breytinga á Austurvegi og þrengingar á aðkomu að húsnæði Oddfellowreglunnar við Aðalstræti.

Bæjarráði þykir miður að óskir um samráð hafi ekki borist til Rb.st.nr.6 Þóreyjar. Slíkar umleitanir virðast eingöngu hafa borist einum fulltrúa Oddfellow stúknanna í tölvupósti og munnlega, auk þess sem haldinn var kynningarfundur með hönnuðinum. Engin bréf voru send. Svo er að sjá sem Ísafjarðarbær hefði mátt gera betur í að ná fundi með fulltrúum Oddfellow stúknanna.

 

5.      Bréf bæjarstjóra. – Þjóðvegur nr. 2 og samgönguáætlun. 2011-06-0058.

Lögð fram drög af bréfi Daníels Jakobssonar, bæjarstjóra, til Innanríkisráðuneytisins. Í bréfinu hvetur bæjarstjóri innanríkisráðherra til að hvika hvergi frá þeirri stefnu sem lögð hefur verið í samgönguáætlun, samgöngum á Vestfjörðum til bóta. Jafnframt er hvatt til þess að skoðað verði hvort ekki sé mögulegt að gera þjóðveginn um Vestfirði að þjóðvegi númer tvö, en með því væri aðalleiðin um Vestfirði komin á sama stall og hringvegur eitt, sem ekki liggur um þennan landshluta. Telur bæjarstjóri það vera öfluga stuðningsyfirlýsingu við samgöngumál á Vestfjörðum.

Lagt fram til kynningar.

 

6.      Bréf bæjarstjóra. – Byggðakvóti til Lotnu ehf. 2012-09-0043.

Lagt fram afrit af bréfi Daníels Jakobssonar, bæjarstjóra, dagsettu 31. júlí sl., til Lotnu ehf. á Flateyri. Í bréfinu er vísað er í bréf Fiskistofu til Lotnu ehf., sem einnig barst Ísafjarðarbæ, þar sem fram kemur sterk vísbending um að afli, sem landað hefur verið á Flateyri, og lagður hafi verið til grundvallar við úthlutun byggðakvóta, hafi ekki verið unninn á Flateyri. Fiskistofa hefur afturkallað úthlutun á byggðakvóta til Margrétar ÍS á meðan málið er í skoðun. Skv. reglugerð um byggðakvóta var gerður samningur við Lotnu ehf., sem Ísafjarðarbær staðfesti, um vinnslu aflans á Flateyri. Ísafjarðarbær mun fylgjast með framgangi rannsóknar Fiskistofu og áskilur sér rétt til hverra þeirra ráðstafana sem sveitarfélaginu eru færar til að bregðast við vanefndum á samningum og brotum á lögum um stjórn fiskveiða og tilvísaðri reglugerð, reynist umræddar ásakanir á rökum reistar.

Lagt fram til kynningar.

 

7.      Bréf Birgit og Stefan Abrecht. – Afnot af landspildu í eigu Ísafjarðarbæjar. 2013-08-0010.

Lagt fram bréf frá Birgit og Stefan Abrecht, eigendum Stekkjargötu 29, dagsett 31. júlí sl., þar sem þau sækja um afnot af landspildu í eigu Ísafjarðarbæjar í Stekkjargötu í Hnífsdal. Landspildan sem um ræðir er milli Stekkjargötu 29 og Stekkjargötu 21.

Bæjarráð vísar erindinu til vinnslu í umhverfisnefnd.

 

8.      Bréf Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. – Uppgjör á framlagi vegna lækkaðra fasteignaskattstekna 2013. 2012-09-0035.

Lagt fram bréf frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, dagsett 31. júlí sl., um uppgjör á framlagi vegna lækkaðra fasteignaskattstekna sveitarfélaga í kjölfar breytinga á álagningarstofni fasteignaskatts.

Lagt fram til kynningar.

 

9.      Bréf Varplands hf. – Þyrluflug með skíða- og snjóbrettafólk. 2013-08-0013.

Lagt fram bréf Varplands hf., dagsett 7. ágúst sl., þar sem óskað er eftir leyfi til þyrluflugs innan umráðasvæðis sveitarfélagsins. Fyrirtækið Varpland hf. hefur keypt jarðir á Vestfjörðum í þeim tilgangi að byggja upp ferðaþjónustu á svæðinu, tengda stangveiði og þjónustu við skíða- og snjóbrettafólk.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við bréfritara og afla frekari upplýsinga um málið.

 

10.  Bréf Sýslumannsins á Ísafirði. – Fjarðargata 8, Þingeyri, umsögn um rekstrarleyfi. 2013-08-0006.

Lagt fram bréf frá Sýslumanninum á Ísafirði, dagsett 31. júlí sl., þar sem óskað er umsagnar Ísafjarðarbæjar á umsókn Svölu Pitt Lárusdóttur um rekstrarleyfi til heimagistingar að Fjarðargötu 8 á Þingeyri.

Bæjarráð gerir ekki athugasemd við umsókn um rekstrarleyfi, að uppfylltum þeim skilyrðum sem um slík leyfi gilda.

 

11.  Bréf umhverfis- og auðlindaráðuneytis. – Lagafrumvarp um breytingar á skipulagslögum nr. 123/2010. 2013-08-0008.

Lagt fram bréf frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, dagsett 6. ágúst sl., þar sem óskað er umsagnar Ísafjarðarbæjar um lagafrumvarp um breytingar á skipulagslögum nr. 123/2010.  Um er að ræða bótaákvæði laganna auk ýmissa annarra ákvæða sem breyta þarf í ljósi reynslu af framkvæmd þeirra.

Bæjarráð vísar erindinu til vinnslu í umhverfisnefnd.

 

12.  Starfsmannamál á bæjarskrifstofu. – Símafundur með Capacent. 2013-06-0038.

Gísli H. Halldórsson vék af fundi undir þessum lið.

Helga Jónsdóttir hjá Capacent ræðir við bæjarráð í síma um þær umsóknir sem borist hafa um stöðu sviðsstjóra stjórnsýslusviðs.

 

13.  Tillaga Örnu Láru Jónsdóttur um málefni Flateyrar. 2011-07-0075.

Arna Lára Jónsdóttir leggur til að Ísafjarðarbær óski eftir samstarfi við Byggðastofnun um að koma að málefnum Flateyrar með það að markmiði að styrkja stoðir samfélags og atvinnulífs. Viðvarandi fólksfækkun og ótryggt atvinnuástand til margra ára hefur veikt samfélagið og það er nauðsynlegt að grípa inn í þessa þróun. Mikilvægt er að tryggja virkt samráð við íbúa og hagsmunasamtök þeirra við þá vinnu sem framundan er.

Bæjarráð samþykkir tillöguna.

 

Fleira ekki gert. Fundargerð upp lesin og samþykkt, fundi slitið kl. 10:03.

 

Hjördís Þráinsdóttir, skjalastjóri.

Gísli H. Halldórsson, formaður.

Albertína Elíasdóttir.                                               

Arna Lára Jónsdóttir.

Guðfinna Hreiðarsdóttir.

Er hægt að bæta efnið á síðunni?