Bæjarráð - 794. fundur - 13. maí 2013

Þetta var gert:

1.         Fulltrúar Mýrarboltamótsins 2013 mæta á fund bæjarráðs. 2013-05-0014.

            Mættir eru til fundar við bæjarráð þeir Jón Páll Hreinsson og Jóhann Bæring Gunnarsson, fulltrúar Mýrarboltamótsins 2013.  Jafnframt er mættur undir þessum lið Jóhann Birkir Helgason, sviðsstjóri umhverfis- og eignasviðs Ísafjarðarbæjar.

            Jón Páll gerði bæjarráði stuttlega grein fyrir þeim áætlunum er nú liggja fyrir varðandi mótið á komandi sumri. Jafnframt greindi hann frá hve vel mótið á síðasta ári hafi gengið og hversu fjölmennt það var.

            Forsvarsmenn Mýrarboltamótsins óska eftir frekara samstarfi við Ísafjarðarbæ um aðstöðusköpun o.fl.  fyrir mótið.

            Bæjarráð felur bæjarstjóra að eiga frekari viðræður við forsvarsmenn Mýrarbolta með það að markmiði að gera samstarfssamning um aðkomu Ísafjarðarbæjar að mótinu.

           

2.         Minnisblað sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs Ísafjarðarbæjar. Refaveiðar í Ísafjarðarbæ 2013.  2013-02-0007.

            Lagt fram minnisblað Jóhanns B. Helgasonar, sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs Ísafjarðarbæjar dagsett 7. maí sl., þar sem stuttlega er greint frá erindum er borist hafa vegna refa- og minkaveiða í Ísafjarðarbæ 2013 og beiðni umhverfisnefndar um álit bæjarráðs á framhaldi þessara veiða. Jóhann Birkir sat fund bæjarráðs undir þessum lið dagskrár.

            Bæjarráð felur sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs að semja við Félag refaveiðimanna í Ísafjarðarbæ um hliðstætt fyrirkomulag og verið hefur undanfarin ár á refaveiðum í sveitarfélaginu. 

 

3.         Erindi frá Leikhópnum Lottu. - Styrkumsókn o.fl. 2011-02-0084.

            Lagt fram erindi frá Leikhópnum Lottu er barst til upplýsingafulltrúa í tölvupósti þann 2. maí sl.  Óskað er eftir heimild til að vera með leiksýningu á Sjúkrahústúninu laugardaginn 1. júní n.k. kl. 16:00.  Jafnframt er óskað eftir styrk að upphæð kr. 40.000.- vegna ferðakostnaðar og póstdreifingar.  Leikhópurinn hefur sótt Ísafjarðarbæ heim undanfarin ár.

            Bæjarráð heimilar Leikhópnum Lottu afnot af Sjúkrahústúninu, en telur sér ekki fært að veita styrk. 

 

4.         Bréf Eiríks Finns Greipssonar. - Beiðni um leyfi frá störfum í bæjarstjórn    Ísafjarðarbæjar.  2013-01-0048.

            Lagt fram bréf frá Eiríki Finni Greipssyni, bæjarfulltrúa, dagsett þann 10. maí sl., þar sem hann óskar eftir ótímabundnu leyfi frá störfum bæjarfulltrúa Ísafjarðarbæjar frá og með 1. júní 2013. 

            Lagt fram til kynningar í bæjarráði.

 

5.         Minnisblað bæjarritara. - Aðalfundur Háskólaseturs Vestfjarða. 2013-05-0010. 

            Lagt fram minnisblað bæjarritara dagsett 8. maí sl., ásamt dagskrá aðalfundar Háskólaseturs Vestfjarða, er haldinn verður þann 17. maí n.k.  Fundurinn fer fram í Háskólasetri Vestfjarða, Suðurgötu 2, Ísafirði, klukkan 13:00.  Bæjarráð þarf að tilnefna fulltrúa í stjórnarkjör, sem og fulltrúa í Stofnaðilaskrá HV.

            Bæjarráð samþykkir að Halldór Halldórsson verði áfram í stjórn Háskólaseturs f.h. Ísafjarðarbæjar.

            Bæjarráð samþykkir jafnframt að Gísli H. Halldórsson, verði aðalfulltrúi Ísafjarðarbæjar í Stofnaðilaskrá og Rannveig Þorvaldsdóttir, varafulltrúi.

 

6.         Bréf Sparisjóðs Bolungarvíkur. - Breyttur fundartími aðalfundar. 2012-05-0011.

            Lagt fram bréf frá Sparisjóði Bolungarvíkur dagsett 6. maí sl., þar sem  fram kemur að aðalfundurinn sem vera átti 8. maí sl., var felldur niður og boðað hefur verið til aðalfundar þann 22. maí n.k. í staðinn.

            Lagt fram til kynningar.

           

7.         Fjórðungssamband Vestfirðinga. - Fundargerð stjórnar.

            Lögð fram fundargerð stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga frá fundi er haldinn var þann 30. apríl sl.  Fundurinn var haldinn með fjarfundabúnaði.

            Lagt fram til kynningar.

 

8.         Bréf Fossadals ehf., Ísafirði. - Umsókn um frumkvöðlastyrk.  2013-03-0020. 

            Lagt fram tölvubréf frá Steingrími Einarssyni f.h. Fossadals ehf., Ísafirði, dagsett þann 10. maí sl., þar sem fyrirtækið óskar eftir frumkvöðlastyrk.  Fyrirtækið er í leiguhúsnæði að Sindragötu 11, Ísafirði.

            Áður hafa borist umsóknir frá eftirtöldum aðilum.

Klæðakoti, Halldóru B. Norðdal og Önnu J. Hinriksdóttur, Ísafirði.

Elíasi Guðmundssyni, Suðureyri.

Kerecis ehf., Ísafirði.

            Bæjarráð vísar erindi Fossadals ehf., til skoðunar í atvinnumálanefnd.

 

9.         Erindi Héraðssambands Vestfirðinga. - Uppbygging knattspyrnumannvirkja á Torfnesi, Ísafirði. 2013-02-0058.

            Lagt fram erindi frá Héraðssambandi Vestfirðinga dagsett 30. apríl sl., er varðar uppbyggingu knattspyrnumannvirkja á Torfnesi, Ísafirði.  Gert er ráð fyrir að uppbyggingin standi yfir á árabilinu 2013-2016.  Með erindinu fylgja nokkrir tölvupóstar til upplýsinga fyrir fulltrúa í bæjarráði.

            Bæjarráð óskar eftir að bæjarstjóri og sviðsstjóri umhverfis- og eignasviðs, að höfðu samráði við forsvarsmenn HSV, leggi fyrir næsta fund bæjarráðs  mótaðar tillögur hvað varðar framkvæmdaáætlun og fjármögnun á Torfnessvæði á árabilinu 2013-2016. 

 

10.       Trúnaðarmál.

            Trúnaðarmál rætt og fært til bókar í trúnaðarmálabók bæjarráðs.

                                  

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt.  Fundi slitið kl. 9:35.

 

Þorleifur Pálsson, bæjarritari.

Eiríkur Finnur Greipsson, formaður bæjarráðs.

Albertína F. Elíasdóttir.                                                      

Arna Lára Jónsdóttir.

Er hægt að bæta efnið á síðunni?