Bæjarráð - 793. fundur - 29. apríl 2013

Þetta var gert:

1.         Fundargerð nefndar.

            Starfshópur um framtíðarskipan Pollsins á Ísafirði  26/4. 8. fundur.

            Fundargerðin er í einum lið.

            Bæjarráð þakkar fyrir skýrslu starfshópsins og vísar henni til umhverfis- og eignasviðs Ísafjarðarbæjar, til að kostnaðarmeta einstaka þætti hennar.

            Bæjarráð vísar skýrslunni einnig til umhverfisnefndar og hafnarstjórnar Ísafjarðarbæjar,  til skoðunar.           

            Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

2.         Bréf Byggðasafns Vestfjarða. - Safn Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri við Arnarfjörð.  2012-05-0001.

            Lagt fram bréf frá Byggðasafni Vestfjarða, Jóni Sigurpálssyni, forstöðumanni, dagsett 4. apríl sl., er varðar kynningu á hugmynd stjórnar Byggðasafns Vestfjarða, um yfirtöku á safni Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri við Arnarfjörð.  Bréfið var áður á dagskrá 791. fundar bæjarráðs þann 15. apríl sl.

            Bæjarráð samþykkir að fresta afgreiðslu málsins og óskar eftir við stjórn Byggðasafns Vestfjarða, að hún eigi viðræður við væntanlegan mennta- og menningarmálaráðherra, um framtíð ,,Safns Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri“.

 

3.         Minnisblað sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs. - Fjölgun tíma fyrir starfsmannafundi í leikskólum.   2013-04-0027.

            Lagt fram minnisblað Margrétar Halldórsdóttur, sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs Ísafjarðarbæjar, dagsett 19. apríl sl., er varðar umsókn um fleiri klukkustundir fyrir starfsmannafundi í leikskólum Ísafjarðarbæjar.  Erindi var áður tekið fyrir á 792. fundi bæjarráðs þann 22. apríl sl.

            Bæjarráð telur sér ekki fært að verða við erindinu að svo stöddu og vísar því til gerðar fjárhagsáætlunar fyrir starfsárið 2014.  

 

4.         Minnisblað sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs. - Niðurgreiðsla vegna leikskólagjalda.  2013-03-0002.

            Lagt fram minnisblað Margrétar Halldórsdóttur, sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs Ísafjarðarbæjar, dagsett 15. apríl sl., er varðar beiðni um niðurgreiðslu vegna barns, sem er á biðlista eftir leikskólaplássi á Ísafirði, en nýtir leikskólapláss í nágrannabyggðarlagi á meðan.  Erindið var áður tekið fyrir á 792. fundi bæjarráðs þann 22. apríl sl.

 

            Bæjarráð samþykkir að leggja til við bæjarstjórn að veita aukinn afslátt á leikskólagjöldum til foreldra barna 18 mánaða og eldri, sem eiga þess ekki kost að koma barni að í heimaleikskóla, en vilja nýta sér laus pláss í öðrum skóla.  Afsláttur nemi       kr. 20.000.-. 

 

5.         Bréf Sparisjóðs Bolungarvíkur. - Boðun aðalfundar 8. maí 2013. 2012-05-0011.

            Lagt fram bréf frá Sparisjóði Bolungarvíkur dagsett 23. apríl sl., þar sem boðað er til aðalfundar sjóðsins þann 8. maí n.k. og verður fundurinn haldinn í Félagsheimili Bolungarvíkur og hefst kl. 18:00.  Fundurinn er boðaður með dagskrá og fylgja jafnframt tillögur stjórnar um breytingar á samþykktum.

            Bæjarráð felur Eiríki Finni Greipssyni, formanni bæjarráðs, að mæta á aðalfund Sparisjóðs Bolungarvíkur, fyrir hönd Ísafjarðarbæjar. 

 

6.         Bréf Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. - Framlög til tónlistarnáms, jöfnun á aðstöðumun nemenda.  2011-10-0075.

            Lagt fram bréf frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga dagsett 18. apríl sl., er fjallar um umsóknir um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, til eflingar tónlistarnáms og jöfnunar á aðstöðu nemenda vegna skólaársins 2013-2014.

            Bæjarráð vísar bréfi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til skóla- og tómstundasviðs Ísafjarðarbæjar til frekari vinnslu.

           

7.         Bréf frá Skólahreysti. - Beiðni um styrk.  2013-04-0047.

            Lagt fram bréf frá Skólahreysti dagsett í apríl, þar sem verið er að óska eftir stuðningi við verkefnið á þessu ári.  Heildar kostnaðaráætlun 2013 er upp á kr. 26 milljónir.  Óskað er eftir styrk að fjárhæð kr. 50.000.- frá Ísafjarðarbæ.

            Bæjarráð telur sér ekki fært að verða við erindinu.

 

8.         Fasteignir Ísafjarðarbæjar ehf. - Boðun aðalfundar 8. maí 2013.  2012-07-0028.

            Lagt fram aðalfundarboð frá Fasteignum Ísafjarðarbæjar ehf., dagsett 24. apríl sl., þar sem fram kemur að fundurinn verður haldinn þann 8. maí n.k. og hefst kl. 12:00.  Fundurinn er í fundarsal bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði og er boðaður með dagskrá.

            Lagt fram til kynningar í bæjarráði. 

 

9.         Samb. ísl. sveitarf. - Fundargerð 805. stjórnarfundar.

            Lögð fram fundargerð 805. stjórnarfundar Samb. ísl. sveitarf., er haldinn var þann 19. apríl sl., í Allsherjarbúð, Borgartúni 30 í Reykjavík.

            Lagt fram til kynningar í bæjarráði.

 

10.       Bréf sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs. - Tilboð í gatnagerð í Hnífsdal. 2012-10-0058.

            Lagt fram bréf Jóhanns Birkis Helgasonar, sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs Ísafjarðarbæjar, dagsett 19. apríl sl., þar sem hann greinir frá tilboðum er borist hafa í verkið ,,Gatnagerð í Hnífsdal“.  Eftirfarandi tilboð bárust.

 

            Vesturfell ehf., Ísafirði.                                     kr. 31.268.000.-

            Gröfuþjónusta Bjarna ehf., Suðureyri.          kr. 65.615.400.-

            Gámaþjónusta Vestfjarða ehf., Ísafirði.       kr. 62.797.282.-

                                   Kostnaðaráætlun                       kr. 48.320.100.-

 

            Í bréfinu kemur fram, að eftir athugun á fjárhagsstöðu og reynslu Vesturfells ehf., í samræmi við ÍST30 og innkaupareglur Ísafjarðarbæjar, er lagt til að tilboði Vesturfells ehf., Ísafirði, verði tekið.

            Bæjarráð samþykkir að gengið verði til samninga við Vesturfell ehf., á grundvelli tilboðs fyrirtækisins, enda uppfylli fyrirtækið innkaupareglur Ísafjarðarbæjar og fjárhagslega stöðu í samræmi við ÍST30.

        

                                   

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt.  Fundi slitið kl. 8:45.

 

Þorleifur Pálsson, bæjarritari.

Eiríkur Finnur Greipsson, formaður bæjarráðs.

Marzellíus Sveinbjörnsson.                                                 

Arna Lára Jónsdóttir.

Daníel Jakobsson, bæjarstjóri.

Er hægt að bæta efnið á síðunni?