Bæjarráð - 783. fundur - 4. febrúar 2013

Þetta var gert:

1.         Þriggja ára áætlun Ísafjarðarbæjar og stofnana 2014/2016. 2012-09-0006.

            Daníel Jakobsson, bæjarstjóri, gerði bæjarráði grein fyrir vinnu við þriggja ára áætlun Ísafjarðarbæjar og stofnana hans fyrir starfsárin 2014/2016.     

            Bæjarráð vísar þriggja ára áætlun Ísafjarðarbæjar og stofnana hans fyrir starfsárin 2014/2016 til síðari umræðu í bæjarstjórn þann 7. febrúar n.k.

 

2.         Fundargerðir nefndar.

            Atvinnumálanefnd 30/1.  115. fundur.

            Fundargerðin er í þremur liðum.

            1. liður.  Bæjarráð samþykkir að fresta því að þessi dagskrárliður verði lagður fyrir bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar og felur bæjarstjóra að skoða málið frekar.

            Fundargerðin lögð fram til kynningar.         

 

            Nefnd um byggingu hjúkrunarheimilis á Ísafirði 31/1.  25. fundur.

            Fundargerðin er í tveimur liðum.

            1. liður.  Bæjarráð samþykkir að með tillögu nefndarinnar til bæjarstjórnar fylgi minnisblað til frekari útskýringa.

            Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

3.         Minnisblað bæjarstjóra. - Samningar um sjúkraflutninga á svæði Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.  2009-02-0008.

            Lagt fram minnisblað Daníels Jakobssonar, bæjarstjóra, dagsett 1. febrúar sl., þar sem hann gerir grein fyrir stöðunni varðandi samningaviðræður við fulltrúa Heilbrigðis- stofnunar Vestfjarða, um sjúkraflutninga í umdæmi stofnunarinnar.

            Bæjarráð samþykkir að uppsögn á samningi um sjúkraflutninga verði dregin til baka.

            Bæjarráð samþykkir að auglýst verði staða brunavarðar við Slökkvilið Ísafjarðarbæjar.   

 

4.         Húseignin Seljaland við Skógarbraut á Ísafirði.  2006-11-0053.

            Lagt fram minnisblað frá Jóhanni Birki Helgasyni, sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs og Marzellíusi Sveinbjörnssyni, umsjónamanni eigna, þar sem gerð er grein fyrir ástandi húseignarinnar Seljalands við Skógarbraut á Ísafirði.  Í minnisblaðinu kemur m.a. fram að fyrir liggur verulegt viðhald á eigninni.  Seljaland stendur á snjóflóðahættu- svæði og er búseta í húsinu óheimil frá 1. nóvember til 30. apríl ár hvert.

            Bæjarráð samþykkir að húseignin Seljaland við Skógarbraut á Ísafirði, verði auglýst til sölu.

 

5.         Uppkaup húseignanna Seljalandsvegar 100 og 102, Ísafirði. 2011-10-0068.

            Lögð fram gögn er varða væntanleg uppkaup húseignanna Seljalandsvegar 100 og 102, Ísafirði, en þessar húseignir lenda utan varnargarðs, sem reistur verður undir Gleiðarhjalla á Ísafirði.

            Bæjarráð samþykkir að mati á húseignunum Seljalandi 100 og 102, Ísafirði, verði vísað til matsnefndar eignarnámsbóta.

 

 6.        Minnisblað formanns bæjarráðs. - Bætt þjónustustig þjóðvegar 61. 2013-01-0078.

            Lagt fram minnisblað Eiríks Finns Greipssonar, formanns bæjarráðs, dagsett þann 30. janúar sl., er  varðar kröfu um að þjónustustig þjóðvegar númer 61, verði hækkað úr 3. stigi í 2. stig til að tryggja betur samgöngur við norðanverða Vestfirði.

            Lágmarkskrafan er að Vegagerðin taki tillit til atvinnulífs á svæðinu við stöðlun á þjónustu fyrir svæðið, bæti umferðaröryggi og jafni rekstrarskilyrði Vestfirðinga.

 

Mikið ófremdarástand hefur ítrekað skapast í samgöngumálum á norðanverðum Vestfjörðum í vetur vegna gífurlegrar hálku og ófærðar. Saman hefur farið mikill vindhraði og hitastig nálægt frostmarki, sem veldur mikilli ísmyndun á vegum. Á sama tíma hefur flug legið niðri og því engar samgöngur við aðra landshluta þegar vegir eru lokaðir.  Það þarf varla að taka það fram að samgöngur eru undirstaða byggðar á svæðum eins og Vestfjörðum, þar sem bæði atvinnulíf og öryggi íbúa eru háð tengingu við höfuðborgina.

Vegagerðin setur Vestfirði undir 3ja þjónustustig, sem er skör lægri en t.d. þjóðvegurinn norður í land, en þjónustustigið ræður t.d. fjölda mokstursdaga og lengd þjónustu fram á kvöld.

Bætt þjónusta við þjóðveginn til norðanverðra Vestfjarða er undirstaða uppbyggingar á svæðinu, þar sem nauðsynlegt er að tryggja samgöngur eins og best verður á kosið. Þjónusta við þjóðveginn er ráðandi þáttur um samkeppnishæfni svæðisins og því ein af megin kröfum íbúa um að hún verði bætt. Í því samhengi er rétt að benda á að umferðarþungi vegarins er mestur seinnipart daga og á kvöldin, en þá eru starfsmenn Vegagerðarinnar hættir störfum og því engin þjónusta í boði.  Það er eðlilegt að Vegagerðin aðlagi sig að þörfum íbúa, atvinnulífs og ferðamanna, en ekki öfugt.

 

            Bæjarráð vísar minnisblaði formanns bæjarráðs til frekari umræðu í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar.

 

7.         Minnisblað bæjarstjóra. - Sameinaðar almannavarnanefndir á norðanverðum Vestfjörðum.  2013-01-0081.

            Lagt fram minnisblað Daníels Jakobssonar, bæjarstjóra, dagsett 30. janúar sl., þar sem hann fjallar um hugsanlega sameiningu almannavarnanefnda á norðanverðum Vestfjörðum og vísar til bókunar sameinaðra almannavarnanefnda Súðavíkurhrepps og Ísafjarðarbæjar á fundi þann 12. janúar 2012.  Nefnd fundargerð fylgir minnisblaðinu.

            Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að unnið verði að sameiningu þessara nefnda á grundvelli minnisblaðs bæjarstjóra.

 

8.         Bréf mennta- og menningarmálaráðuneytis. - Ytra mat á leik- og grunnskólum á vegum Námsmatsstofnunar.  2013-01-0068.

            Lagt fram bréf frá mennta- og menningarmálaráðuneyti dagsett 22. janúar sl., þar sem tilkynnt er að Námsmatsstofnun hafi umsjón með framkvæmd ytra mats á leik- og grunnskólum.

            Lagt fram til kynningar í bæjarráði og vísað til skóla- og tómstundasviðs Ísafjarðarbæjar.

 

9.         Bréf Samb. ísl. sveitarf. - Viðmiðunarreglur vegna grunnskólanemenda er stunda nám utan lögheimilissveitarfélags.  2012-07-0029.

            Lagt fram bréf frá Samb. ísl. sveitarf. er barst með tölvupósti 28. janúar sl., og varðar viðmiðunarreglur vegna grunnskólanemenda er stunda nám utan lögheimilis-sveitarfélags.

            Lagt fram til kynningar í bæjarráði og vísað til fræðslunefndar Ísafjarðarbæjar.

 

10.       Bréf atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis. - Styrkur úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.  2010-01-0028.

            Lagt fram bréf frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða dagsett 25. janúar sl., þar sem fram kemur að samþykkt hafi verið að veita Ísafjarðarbæ styrk að upphæð kr. 750.000.- vegna verkefnisins ,,Göngustígakerfi Ísafjarðarbæjar - Hönnun og skipulag“.

            Lagt fram til kynningar.

 

11.       Bréf Samb. ísl. sveitarf. - Samráðsfundur um upplýsingasamfélög. 2012-07-0029.

            Lagt fram bréf frá Samb. ísl. sveitarf. móttekið 29. janúar sl., er fjallar um upplýsingasamfélagið og samráðsfund er haldinn verður þann 4. febrúar n.k. kl. 13:00 til 16:15 á 7. hæð á Hótel Cabin, Borgartúni 32, Reykjavík.  Þátttakendur skrái sig hjá Samb. ísl. sveitarf.

            Lagt fram til kynningar.

 

12.       Bréf Félags opinberra starfsmanna á Vestfjörðum. - Trúnaðarmenn.  2011-03-0006.

            Lagt fram bréf frá Félagi opinberra starfsmanna á Vestfjörðum dagsett 29. janúar sl., þar sem fram kemur að kjör trúnaðarmanna á vinnustöðum skuli fara fram fyrir         1. apríl ár hvert.  Því er beint til vinnustaða og félagsmanna FOS-Vest, að kjörnir verði trúnaðarmenn á vinnustöðum þar sem starfa þrír eða fleiri starfsmenn og það tilkynnt félaginu.

            Lagt fram til kynningar.

 

13.       Bréf SAMAN-hópsins. - Beiðni um fjárstuðning.  2009-01-0048.

            Lagt fram bréf frá SAMAN-hópnum dagsett 25. janúar sl., þar sem vænst er til að sveitarfélagið sjái sér fært að stykja forvarnarstarf hópsins.

            Bæjarráð telur sér ekki fært að verða við beiðninni.

 

14.       Samb. ísl. sveitarf. - Fundargerð 803. stjórnarfundar.

            Lögð fram fundargerð frá 803. stjórnarfundi Samb. ísl. sveitarf., er haldinn var þann 25. janúar sl., í Allsherjarbúð, Borgartúni 30, Reykjavík.

            Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

15.       Minnisblað bæjarstjóra. - Úrskurður innanríkisráðuneytis vegna kæru á ráðningu sviðsstjóra hjá Ísafjarðarbæ. 2011-04-0100.

            Lagt fram minnisblað frá Daníel Jakobssyni, bæjarstjóra, dagsett 31. janúar sl., þar sem hann gerir grein fyrir niðurstöðum úr kærumálum vegna ráðningar sviðsstjóra hjá Ísafjarðarbæ á árinu 2011.

            Lagt fram til kynningar.

 

16.       Minnisblað bæjarstjóra. - Greiðslur fyrir setu í bæjarstjórn, bæjarráði og nefndum á vegum Ísafjarðarbæjar. 2013-02-0002.

            Lagt fram minnisblað Daníels Jakobssonar, bæjarstjóra, dagsett 31. janúar sl., þar sem hann gerir grein fyrir greiðslum til bæjarfulltrúa og nefndarmanna fyrir fundarsetur í bæjarstjórn, bæjarráði og nefndum sveitarfélagsins. Jafnframt er minnst á aðrar greiðslur, t.d. ferðakostnað til bæjarfulltrúa, er þeir fara út fyrir sveitarfélagið á vegum þess.

            Bæjarráð felur bæjarstjóra að móta tillögu, í samræmi við umræður í bæjarráði,  er lögð verði fyrir næsta fund bæjarstjórnar.

 

17.       Minnisblað. - Byggðakvóti fiskveiðiársins 2012/2013.  2012-09-0043.

            Lagt fram minnisblað Daníels Jakobssonar, bæjarstjóra, dagsett 1. febrúar sl., er varðar tillögu til breytinga á reglum um úthlutun byggðakvóta fiskveiðiársins 2012/2013.

 

            Jafnframt er lagt fram bréf frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti dagsett þann 31. janúar sl., er varðar úrskurði ráðuneytisins á umbeðnum breytingum Ísafjarðarbæjar á úthlutunarreglum byggðakvóta fiskveiðiárið 2012/2013.

 

            Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að tillaga í minnisblaði um breytingar á 4. gr. reglugerðar nr. 628 frá 13. júlí 2012, um úthlutun byggðakvóta fiskveiðiársins 2012/2013 verði samþykkt.

 

            Með tilvísun til bréfs atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis frá 31. janúar sl., leggur bæjarráð til við bæjarstjórn að niðurstaða ráðuneytisins verði samþykkt. 

            Bæjarráð telur þó að niðurstaða ráðuneytisins varðandi tillögu Ísafjarðarbæjar í   c-lið, um breytingar á úthlutunarreglum sé enn órökstudd, en telur að nauðsynlegt sé að málið verði afgreitt án frekari tafa svo hægt verði að hefja úthlutun byggðakvótans.  

 

Eiríkur Finnur Greiðsson vék af fundi undir þessum lið dagskrár.

 

18.       Erindi frá bæjarstjóra. - Samþykktir Náttúrustofu Vestfjarða. 2012-06-0085.

            Lögð fram drög að samþykktum fyrir Náttúrustofu Vestfjarða, sem unnin eru af Daníel Jakobssyni, bæjarstjóra.  Jafnframt eru lagðir fram úrdrættir úr lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur nr. 60/1992.

            Bæjarráð samþykkir að vísa málinu til bæjarstjórnar í samræmi við umræður á fundinum og felur bæjarstjóra að móta tillögu er lögð verði fyrir næsta fund bæjarstjórnar.

 

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt.  Fundi slitið kl. 9:40.

 

Þorleifur Pálsson, ritari.

Eiríkur Finnur Greipsson, formaður bæjarráðs.

Albertína F. Elíasdóttir.                                                                   

Arna Lára Jónsdóttir.

Daníel Jakobsson, bæjarstjóri.

Er hægt að bæta efnið á síðunni?