Bæjarráð - 777. fundur - 10. desember 2012

Þetta var gert:

1.         Minnisblað bæjarstjóra. - Leiðir í upplýsingatæknimálum Ísafjarðarbæjar. 2012-10-0042.

            Lagt fram minnisblað Daníels Jakobssonar, bæjarstjóra, dagsett 30. nóvember sl., þar sem hann greinir frá leiðum í upplýsingatæknimálum Ísafjarðarbæjar og ber saman nokkra valkosti.  Niðurstaða bæjarstjóra er sú að ganga eigi til samninga við fyrirtækið Nýherja á grundvelli þeirra upplýsinga er fram koma í minnisblaðinu.

            Bæjarráð frestar afgreiðslu um ákvarðanatöku til næsta fundar bæjarráðs.               

                                                                                                                                                                

2.         Minnisblað bæjarstjóra. - Árskort í sund gildi gagnkvæmt í Ísafjarðarbæ og Bolungarvíkurkaupstað. 2012-12-0017.

            Lagt fram minnisblað Daníels Jakobssonar, bæjarstjóra, dagsett 7. desember sl., þar sem hann gerir grein fyrir viðræðum sínum við bæjarstjóra Bolungarvíkurkaupstaðar, um samnýtingu árskorta sundstaða Ísafjarðarbæjar og Bolungarvíkurkaupstaðar.

            Bæjarstjóri leggur til að bæjarráð samþykki að árskort í sundlaug Bolungarvíkur gildi á sundstöðum Ísafjarðarbæjar, gegn því að árskort gefin út af sundlaugum Ísafjarðarbæjar gildi einnig í Bolungarvíkurkaupstað.

            Bæjarráð staðfestir ofangreint samkomulag um árskort í sund.

 

3.         Bréf Fjórðungssambands Vestfirðinga. - Beiðni um tilnefningu í samráðshóp um Sóknaráætlun Vestfjarða.  2011-07-0029.

            Lagt fram bréf frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga dagsett 5. desember sl., þar sem óskað er eftir tilnefningu Ísafjarðarbæjar í samráðshóp um Sóknaráætlun Vestfjarða.

            Óskað er tilnefningar eins fulltrúa eða fleiri og varamanna.  Óskað er að gætt verði að kynjahlutfalli við tilnefningar.

            Áætlað er að fyrsti fundur samráðsvettvangsins verði haldinn þann 17. desember n.k. í Háskólasetri Vestfjarða á Ísafirði, kl. 11-16.

            Bæjarráð frestar ákvörðun um tilnefningu til næsta fundar bæjarráðs.

 

4.         Fjórðungssamband Vestfirðinga. - Fundargerð stjórnarfundar FV.

            Lögð fram fundargerð stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga, frá fundi er haldinn var þann 26. nóvember sl., á skrifstofu Fjórðungssambandsins á Ísafirði.

            Fundargerðin lögð fram til kynningar.

           

5.         Fundargerð Byggðasamlags Vestfjarða um málefni fatlaðs fólks.

            Lögð fram fundargerð stjórnar Byggðasamlags Vestfjarða frá fundi er haldinn var þann 26. nóvember sl., á skrifstofu Fjórðungssambands Vestfirðinga.

            Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

6.         Ársskýrsla Félags refa- og minkaveiðimanna í Ísafjarðarbæ fyrir árið 2012.  2012-02-0066.

            Lögð fram ársskýrsla frá Félagi refa- og minkaveiðimanna í Ísafjarðarbæ fyrir árið 2012. Í skýrslunni er yfirlit um starfsemi félagsins á líðandi ári og hugleiðingar veiðimanna um ástandið og úrbætur.

            Bæjarráð þakkar skýrslu Félags refa- og minkaveiðimanna og vísar henni til umhverfisnefndar.

 

7.         Bréf Íbúasamtaka Önundarfjarðar. - Minnispunktar vegna verkefna. 2009-12-0031.

            Lagt fram bréf frá Íbúasamtökum Önundarfjarðar dagsett 29. nóvember sl.  Í bréfinu er greint frá fundi stjórnar íbúasamtakanna er haldinn var þann 30. október sl. Bréfið er í einum átta liðum er fjalla um aðkallandi verkefni og úrbætur á Flateyri.

            Bæjarráð þakkar bréf Íbúasamtaka Önundarfjarðar og óskar eftir að bæjarstjóri og sviðsstjóri umhverfis- og eignasviðs svari bréfinu.

 

8.         Afrit af bréfi skólastjóra Grunnskólans á Ísafirði, til umhverfis- og     eignasviðs Ísafjarðarbæjar. - Skólalóð GÍ. 2012-03-0090.

            Lagt fram afrit af bréfi Sveinfríðar Olgu Veturliðadóttur, skólastjóra Grunnskólans á Ísafirði, dagsett 6. desember sl., þar sem fjallað eru um skólalóð GÍ, ástand hennar og þörf á útbótum og framtíðarskipan.

            Lagt fram til kynningar í bæjarráði.

 

9.         Bréf Samb. ísl. sveitarf. - Umsögn um frumvarp til nýrra upplýsingalaga. 2012-07-0029.

             Lagt fram bréf frá Samb. ísl. sveitarf. dagsett 21. nóvember sl., er fjallar um umsögn Sambandsins um frumvarp til nýrra upplýsingalaga, 215. mál 141. lþ.

            Lagt fram til kynningar.

 

10.       Minnisblað bæjarritara. - Fjórðungssamband Vestfirðinga, árgjald vegna umhverfisvottunar.  2011-07-0061.

            Lagt fram minnisblað bæjarritara dagsett 7. desember sl., er varðar erindi Fjórðungssambands Vestfirðinga, um þátttöku og greiðslu árgjalds vegna umhverfisvottunar.  Erindið var áður á dagskrá 776. fundar bæjarráðs og var afgreiðslu þá frestað.

            Bæjarráð samþykkir þátttöku Ísafjarðarbæjar og kostnaður kr. 270.000.- færist á lið 21-71-9911 í bókhaldi..

            Bæjarráð samþykkir jafnframt, að fulltrúi Ísafjarðarbæjar í framkvæmdaráði verði Daníel Jakobsson, bæjarstjóri.

 

11.       Svar við fyrirspurn Örnu Láru Jónsdóttur, um sölu fasteigna

Ísafjarðarbæjar og Fasteigna Ísafjarðarbæjar ehf., á tímabilinu 2008/2012. 2012-10-0013.

            Lagt fram minnisblað bæjarritara dagsett 7. desember sl., þar sem fram koma svör við fyrirspurn Örnu Láru Jónsdóttur, bæjarfulltrúa, um sölu fasteigna í eigu Ísafjarðarbæjar og Fasteigna Ísafjarðarbæjar ehf. á tímabilinu 2008 - 2012.

            Lagt fram til kynningar.

 

12.       Bæjarmálasamþykkt Ísafjarðarbæjar. - Endurskoðun með tilvísun til auglýsingar frá innanríkisráðuneyti, um fyrirmynd að samþykkt um stjórn sveitarfélaga. 2012-12-0018.

            Lögð fram gögn frá Hálfdáni Bjarka Hálfdánssyni, upplýsingafulltrúa og innanríkisráðuneyti, er varða bæjarmálasamþykktir. Endurskoðun þeirra með tilvísun til auglýsingar frá innanríkisráðuneyti um fyrirmynd að samþykkt um stjórn sveitarfélaga.

Jafnframt er lögð fram auglýsing frá innanríkisráðuneyti, leiðbeiningar um ritun fundargerða sveitarstjórna.

            Bæjarráð felur bæjarstjóra að hefja vinnslu við endurskoðun á bæjarmála-samþykkt Ísafjarðarbæjar í samráði við forseta og varaforseta bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar.

 

 Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt.  Fundi slitið kl. 9:05.

 

Þorleifur Pálsson, ritari.

Eiríkur Finnur Greipsson, formaður bæjarráðs.

Albertína F. Elíasdóttir.                                                                   

Arna Lára Jónsdóttir.

Daníel Jakobsson, bæjarstjóri.

Er hægt að bæta efnið á síðunni?