Bæjarráð - 728. fundur - 7. desember 2011

Þetta var gert:

1.         Fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar, stofnana hans og fyrirtækja fyrir árið 2012. 2011-08-0013.

            Daníel Jakobsson, bæjarstjóri, gerði bæjarráði grein fyrir stöðu vinnu við gerð fjárhagsáætlunar Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2012. 

  

2.         Fundargerðir nefnda.

            Nefnd um byggingu hjúkrunarheimilis á Ísafirði 1/12.  9. fundur

            Fundargerðin er í fimm liðum.

            Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

            Umhverfisnefnd 30/11.  364. fundur.

            Fundargerðin er í þrettán liðum.

            Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

3.         Bréf frá Umhverfisstofnun. - Kvíaeldisstöð Fjarðalax ehf., í Fossfirði í Arnarfirði.  2011-06-0045.

            Lagt fram bréf frá Umhverfisstofnun dagsett 29. nóvember sl., er varðar kynningu á tillögu að starfsleyfi fyrir kvíaeldisstöð Fjarðalax ehf. í Fossfirði í Arnarfirði.  Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna er til 30. janúar 2012.

            Bæjarráð vísar erindinu til umhverfisnefndar til umsagnar.

 

4.         Bréf Foreldrafélags Grunnskólans á Ísafirði. - Skólalóð GÍ.  2011-03-0042.

            Lagt fram bréf frá Foreldrafélagi Grunnskólans á Ísafirði, dagsett 30. nóvember sl. er fjallar um skólalóð GÍ.  Í bréfinu er rætt um skerðingu skólalóðar við Kaupfélagshúsið vegna sölu eignarhluta Ísafjarðarbæjar í því húsi, sem og þarflegar endurbætur almennt á skólalóð Grunnskólans á Ísafirði.

            Bæjarráð þakkar fyrir erindi Foreldrafélags Grunnskólans á Ísafirði og það boð er í erindinu fellst. Bæjarráð vísar erindinu til umhverfis- og eignasviðs, sem hafi samráð við skólastjórnendur og foreldrafélög grunnskólanna í Ísafjarðarbæ, um umbætur á skólalóðum grunnskóla.

 

5.         Bréf velferðarráðuneytis. - Samningur um byggingu hjúkrunarheimilis á Ísafirði.  2008-06-0016.

            Lagt fram bréf frá velferðarráðuneyti dagsett 23. nóvember sl., ásamt undirrituðum samningi ráðuneytisins og Ísafjarðarbæjar, um byggingu hjúkrunarheimilis á Ísafirði.  Samningurinn var undirritaður þann 10. nóvember sl. hér á Ísafirði.

            Lagt fram til kynningar.

 

6.         Fréttatilkynning. - Frumvarp um jöfnun flutningskostnaðar, frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti. 2011-12-0015.

            Lögð fram fréttatilkynning frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti dagsett 29. nóvember sl., þar sem kynnt er frumvarp um svæðisbundna jöfnun flutningskostnaðar.  Markmið frumvarpsins er að styðja við framleiðsluiðnað og atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni með því að jafna flutningskostnað til framleiðenda, sem staðsettir eru fjarri innanlandsmarkaði eða útflutningshöfn og búa við skerta samkeppnisstöðu vegna hærri flutningskostnaðar en framleiðendur staðsettir nær markaði.

            Bæjarráð samþykkir svohljóðandi bókun undir þessum lið dagskrár.

,,Bæjarráð Ísafjarðarbæjar fagnar framkomnu frumvarpi efnahags- og viðskiptaráðherra um jöfnun flutningskostnaðar.  Verði umrætt frumvarp að veruleika, mun það hafa veruleg jákvæð áhrif á samkeppnisstöðu fyrirtækja og einstaklinga á Vestfjörðum.

            Jöfnun flutningskostnaðar hefur verið eitt helsta baráttumál atvinnulífs og sveitarstjórna á landsbyggðinni um árabil. Það er því sérstakt ánægjuefni að frumvarpið sé nú komið fram.“

 

7.         Frétt frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. - Skerðing jöfnunarframlaga       tekjuhárra sveitarfélaga. 2011-09-0079.

            Lögð fram frétt frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, þar sem fram kemur að ráðgert er að skerða jöfnunarframlag til tekjuhárra sveitarfélaga.  Þeir sem þess óska geta sent athugasemdir og umsagnir sínar vegna breytingarinnar á netfangið postur@irr.is, fram til 9. desember n.k.

            Lagt fram til kynningar.

 

8.         Bréf Vegagerðarinnar. - Samningur um veghald á þjóðvegum innan þéttbýlismarka.  2011-11-0075.

            Lagt fram bréf Vegagerðarinnar undirritað af Sigurði Mar Óskarssyni, dagsett 24. nóvember sl., þar sem hann gerir grein fyrir samningi um veghald á þjóðvegum innan þéttbýlismarka í Ísafjarðarbæ.

            Bæjarráð vísar bréfinu til umhverfis- og eignasviðs Ísafjarðarbæjar og felur sviðsstjóra að ganga frá samningi.

 

9.         Bréf Ungmennafélags Íslands.-Tillögur frá 47. sambandsþingi. 2011-12-0001.

            Lagt fram bréf frá Ungmennafélagi Íslands dagsett 29. nóvember sl., þar sem kynntar eru samþykktar tillögur frá 47. sambandsþingi Ungmennafélags Íslands, sem haldið var í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri, dagana 15. og 16. október 2011.

            Bæjarráð vísar bréfinu til íþrótta- og tómstundanefndar Ísafjarðarbæjar.


10.       Bréf sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs. - Rekstur tjaldsvæðis í Tungudal, Skutulsfirði 2012.  2011-09-0011.

            Lagt fram bréf frá Jóhanni Birki Helgasyni, sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs Ísafjarðarbæjar dagsett 1. desember sl., þar sem hann reifar rekstur tjaldsvæðisins í Tungudal í Skutulsfirði undanfarin ár.  Í bréfinu er óskað eftir heimild til að bjóða út rekstur tjaldsvæðisins til eins árs og hugsanlega með framlengingarákvæði til þriggja ára.

            Bæjarráð felur sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs að útbúa útboðstögn, er síðan verði lögð fyrir bæjarráð.

 

11.       Lánasjóður sveitarfélaga. - Lántaka til endurfjármögnunar á erlendu láni. 2011-02-0021.

            Lagður fram lánssamningur Ísafjarðarbæjar nr.41/2011, sem lántaka við Lánasjóð sveitarfélaga, sem lánveitanda.  Samningurinn er vegna lántöku Ísafjarðarbæjar hjá sjónum upp á kr. 178.000.000.- til 15. ára.  Lánið er tekið til endurfjármögnunar á erlendu láni Ísafjarðarbæjar hjá Lánasjóðnum.  Svohljóðandi bókun þarf að vera samþykkt á fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar.

 

Ákvörðun um að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga sem tryggt er með veði í tekjum sveitarfélagsins:

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkir hér með að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga ohf. að fjárhæð 178.000.000 kr. til 13 ára, í samræmi við samþykkta skilmála lánveitingarinnar sem liggja fyrir fundinum. Til tryggingar láninu standa tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 3. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Er lánið tekið til að endurfjármagna erlent lán sveitarfélagsins hjá lánasjóðnum, sem var með endurskoðunarávæði í desember 2011, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.

Jafnframt er Daníel Jakobssyni, bæjarstjóra, kt. 170873-4249, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Ísafjarðarbæjar, að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga ohf. sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari.

            Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, að erindið verði samþykkt.

 

12.       Minnisblað bæjarstjóra. - Breytingar á hafnarlögum.  2011-11-0065.

            Lagt fram minnisblað Daníels Jakobssonar, bæjarstjóra, dagsett 5. desember sl., er varðar frumvarp til laga um breytingar á hafnarlögum og umsögn Ísafjarðarbæjar.  Bæjarstjóri gerir tillögu að eftirfarandi svari, hvað varðar umsögn Ísafjarðarbæjar.

            ,,Bæjarráð leggst gegn því að bætt sé við almenn hafnalög sérstöku ákvæði varðandi einstakar hafnir.  Standi vilji löggjafans til sérstakra aðgerða gagnvart Helguvíkurhöfn, er eðlilegra að gera það í sér lögum þar að lútandi, en bent er á að óskir um sams konar aðgerðir munu eflaust koma frá öðrum höfnum, sem kalla eftir fjárhagslegum úrbótum og aðstoð.“

            Bæjarráð samþykkir framlagða tillögu bæjarstjóra að bókun.

 

13.       Kaupsamningur vegna sölu Silfurgötu 5, Ísafirði.  2011-10-0004.

            Lögð fram drög að kaupsamningi frá Fasteignasölu Vestfjarða, vegna kaupa Gistingar ehf., á húseigninni Silfurgötu 5, Ísafirði.  Söluverð húseignarinnar er kr. 1.000.000.- og greiðist það að fullu við undirritun kaupsamnings.

            Bæjarráð frestar afgreiðslu til næsta fundar

 

14.       Gjaldskrá Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða 2012. 2011-12-0017.

            Lagt fram minnisblað bæjarritara dagsett 5. desember sl., er varðar gjaldskrá Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða fyrir árið 2012.  Fram kemur að hækkun hefur orðið bæði á tímagjaldi sem og á gjaldi vegna rannsóknar pr. sýni.  Við hækkun var tekið tillit til gjaldskráa hjá öðrum heilbrigðiseftirlitum.

            Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn, að tillaga að gjaldskrá Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða fyrir árið 2012 verði samþykkt.

 

 Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt.  Fundi slitið kl. 14:30.

 

Þorleifur Pálsson, ritari.

Eiríkur Finnur Greipsson, formaður bæjarráðs.

Albertína Elíasdóttir.                                                             

Arna Lára Jónsdóttir.

Daníel Jakobsson, bæjarstjóri.

Er hægt að bæta efnið á síðunni?