Bæjarráð - 463. fundur - 2. janúar 2006


Þetta var gert:


1. Fundargerðir nefnda.



Almannavarnanefnd 27/12. 59. fundur.


Fundargerðin er í þremur liðum.


Fundargerðin lögð fram til kynningar.


Íþrótta- og tómstundanefnd 14/12. 54. fundur.


Fundargerðin er í sjö liðum.


2. liður. Bæjarráð samþykkir tillögu íþrótta- og tómstundanefndar.


4. liður. Afgreiðslu á tillögu nefndarinnar frestað í bæjarráði.


5. liður. Bæjarráð óskar eftir tillögu frá íþrótta- og tómstundanefnd um skipan nefndar til endurskoðunar á þjónustu Skíðasvæðis.


Aðrir liðir lagðir fram til kynningar.


Landbúnaðarnefnd 29/12. 70. fundur.


Fundargerðin er í þremur liðum.


Jóhann B. Helgason, bæjartæknifræðingur, sat fund bæjarráðs undir þessum lið dagskrár og gaf skýringar á töf vegna uppsetningar fjárréttar í Tröð, Önundarfirði. Jafnframt greindi Jóhann frá vinnuferli við gerð fjárhagsáætlunar fyrir landbúnaðarnefnd 2006.


1. liður. Bæjarráð leggur til við bæjarstórn að tillagan verði samþykkt.


Fundargerðin lögð fram til kynningar.


Menningarmálanefnd 27/12. 119. fundur.


Fundargerðin er í fjórum liðum.


Fundargerðin lögð fram til kynningar.



2. Bréf Olíudreifingar ehf. - Uppbygging olíubirgðastöðvar á Ísafirði. 2002-08-0027.



Lagt fram bréf frá Olíudreifingu ehf., Reykjavík, dagsett 27. desember 2005, er varðar uppbyggingu olíubirgðastöðvar við Suðurgötu á Ísafirði. Í bréfinu óskar Olíudreifung ehf., fyrir hönd Skeljungs hf. og Olíudreifingar ehf., eftir því að Ísafjarðarbær heimili framangreindum félögum uppbyggingu á birgðastöð þeirra við Suðurgötu á Ísafirði, samkvæmt meðfylgjandi teikningu verkfræðistofunnar Bjargs ehf. Í beiðninni felst einnig ósk félaganna um stækkun á núverandi lóð um 1.130 m2, eða úr 2.190 m2 í 3.320 m2.


Í bréfinu kemur og fram, að ef bæjaryfirvöld telja sér fært að verða við ofangreindri beiðni félaganna lýsa þau því yfir, að núverandi lóðaleigusamningur, sem gerður var 12. október 1950 til 99 ára, komi til endurskoðunar að kröfu Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, þar sem m.a. verði fellt úr nýjum samningi 5. gr. í gildandi samningi, sem kveður á um uppkaup eigna verði ekki um endurnýjun leigusamninga að ræða.



Tillaga Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, lögð fram á 463. fundi bæjarráðs undir 2. lið dagskrár.



Bæjarráð gerir þá tillögu til bæjarstjórnar að fallist verði á beiðni Olíudreifingar og Skeljungs dags. 27. desember 2005, um heimild til endurbóta á núverandi birgðastöð við Suðurgötu á Ísafirði, með eftirfarandi skilyrðum:



  1. Gerður verði nýr lóðarleigusamningur sem nái til þeirrar lóðar sem olíufélögin hafa og viðbótarlóðar sem samningur er runninn út á. Samningurinn verði ekki til lengri tíma en núverandi samningur, þ.e. til 45 ára.
  2. Ákvæði verði í nýjum lóðarleigusamningi að þrátt fyrir ákvæði skipulags- og byggingarlaga um uppkaup eigna eftir að lóðarleigusamningur rennur út, muni það ekki eiga við í tilfelli lóðar við Suðurgötu.
  3. Olíufélögin uppfylli öll skilyrði laga og reglugerða um olíubirgðastöð og frágangur verði þannig að sem minnst fari fyrir stöðinni í umhverfinu. Sökum þéttrar byggðar á Ísafirði er krafa um frágang og umgengni mjög ströng.
  4. Olíufélögin láti vinna hættumat vegna staðsetningarinnar við Suðurgötu og samanburðarmat við aðra staði sem nefndir hafa verið sem valkostir á eyrinni. Tekið verði tillit til löndunar á olíu og bensíni í því hættumati þar sem metið sé hvort meiri hætta sé af löndun olíu og bensíns innan eyrarinnar en í Sundahöfn.
  5. Eftir að mannvirki hafa verið fjarlægð við Mjósund gangi olíufélögin frá svæðinu þannig að til fyrirmyndar sé og tryggi með mælingum að ekki sé mengun í jarðvegi. Mælist mengun geri olíufélögin ráðstafanir til að ráða bót á því.

Gera þarf breytingar á skipulagi þannig að gert verði ráð fyrir olíubirgðastöð við Suðurgötu en ekki á Suðurtanga.



Greinargerð:


Staðsetning olíubirgðastöðvar á eyrinni á Ísafirði verður alltaf í nálægð við íbúðar- og iðnaðarhúsnæði. Á síðustu 15 árum hafa komið fram tillögur um olíubirgðastöð á Mávagarði en frá því var fallið vegna nálægðar við íbúðabyggð og atvinnufyrirtæki. Þá var ákveðið að fara neðst á Suðurtanga og staðfest í deiliskipulagi. Fyrir 3-4 árum kemur svo tillaga um að staðsetja olíubirgðastöð í Sundahöfn og samþykkt bæjarstjórnar liggur fyrir um að hætta við framtíðarstaðsetningu á Suðurtanga þó skipulagi hafi enn ekki verið breytt nema að hluta.


Allir þessir staðir hafa þann annmarka að byggingar eru nálægt og í tilfelli Sundahafnar og Suðurtanga færast þær nær með tímanum. Í framtíðinni mun íbúðabyggð verða meðfram safnasvæðinu í Neðstakaupstað og teygja sig með fjörunni niður í Suðurtanga. Í Sundahöfn er óbyggt svæði þar sem hugmynd er um staðsetningu olíubirgðastöðvar en gert ráð fyrir að á því svæði verði byggt iðnaðarhúsnæði m.a. undir matvælaframleiðslu.


Núverandi olíubirgðastöð við Suðurgötu er staðsett við höfnina. Við hliðina er kyndistöð Orkubús Vestfjarða og fyrir neðan er iðnaðarstarfsemi. Mat Hollustuverndar, Vinnueftirlits, byggingarfulltrúa og slökkviliðsstjóra frá árinu 2000 er að ekkert mæli gegn áframhaldandi rekstri birgðastöðvar á þessum stað. Sé málið einnig skoðað út frá næstu húsum, hugsanlegri þróun byggðar á öðrum svæðum sem nefnd hafa verið fyrir olíubirgðastöð og kostnaði sem fellur á Ísafjarðarbæ, má sjá að staðsetning við Suðurgötu er ekki síðri hinum stöðunum.


Að beiðni bæjarstjóra vann Ólöf Guðný Valdimarsdóttir arkitekt úttekt á fjórum staðsetningum fyrir olíubirgðastöð. Skýrsla Ólafar er frá nóvember 2004. Þar kemur fram að enginn fjögurra staða sem skoðaðir voru sé upplagður sem framtíðarsvæði. Í skýrslunni er því velt upp hvort annar þéttbýliskjarni í nágrenni við Ísafjörð sé ekki heppilegri fyrir olíubirgðastöð.


Vegna þjónustu hafnarinnar á Ísafirði þar sem stærstu skipin koma er nauðsynlegt að hafa olíubirgðastöð við hafnarsvæðið. Staðsetning olíubirgðastöðvar utan eyrarinnar á Ísafirði hefur í för með sér flutninga á allri olíu í gegnum bæinn.


Að setja allt á sama stað við Suðurgötu og fjarlægja mannvirkin við Mjósund er heilleg lausn sem bætir stöðuna verulega frá því sem nú er. Þar með færist olíubirgðastöð frá íbúðabyggðinni við Aðalstræti og Wardstún sem nú er í uppbyggingu. Íbúðarhúsin við Aðalstræti voru komin langt á undan olíubirgðastöð við Mjósund, þannig að sú byggð hefur ekki færst nær olíubirgðastöð heldur var stöðin sett nálægt byggðinni á sínum tíma og með færslu þeirra mannvirkja er nú loksins bætt úr því.



Ísafirði 2. janúar 2006


Halldór Halldórsson


- bæjarstjóri -


Formaður bæjarráðs gerir það að tillögu sinni að tillögu bæjarstjóra verði vísað til bæjarstjórnar til samþykktar.


Tillaga formanns bæjarráðs samþykkt 2-1.


Lárus G. Valdimarsson lét bóka mótatkvæði sitt.



3. Bréf Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. 2005-12-0036.



Lagt fram bréf frá Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna dagsett þann 16. desember 2005, er varðar nýja félaga í LSS úr Slökkviliði Ísafjarðar. Jafnframt er lagt fram minnisblað bæjarritara er varðar fyrirkomulag á launagreiðslum til félaga í Félagi slökkviliðsmanna í Ísafjarðarbæ, sem og samkomulag um greiðslur Ísafjarðarbæjar í fræðslusjóð félagsins.


Bæjarráð felur bæjarstjóra að skoða frekar málefni Félags slökkviliðsmanna í Ísafjarðarbæ.



4. Minnisblað bæjarritara. - Fjarðargata 5, Þingeyri. 2005-03-0104.



Lagt fram minnisblað bæjarritara dagsett 23. desember 2005, varðandi hugsanlega sölu á Fjarðargötu 5 á Þingeyri og þá aðila er óska eftir kaupum á húsinu. Í minnisblaði bæjarritara kemur fram að hann mælir með, að Wouter Van Hoeymissen frá Belgíu verði selt húsið Fjarðargata 5, Þingeyri.


Bæjarráð samþykkir að Fjarðargata 5 á Þingeyri, verði seld Wouter Van Hoeymissen. Drög að kaupsamningi verði lögð fyrir bæjarráð.



5. Bréf fjármálastjóra. - Mánaðarskýrsla um rekstur og fjárfestingar. 2005-06-0027.



Lagt fram bréf Þóris Sveinssonar, fjármálastjóra, dagsett 22. desember 2005, mánaðarskýrsla um rekstur og fjárfestingar tímabilið janúar - nóvember 2005. Fjármála- stjóri mætti á fund bæjarráðs undir þessum lið dagskrár.


Lagt fram til kynningar.



6. Bréf félagsmálaráðuneytis. - Reglugerð um fasteignaskatt. 2005-12-0062.



Lagt fram bréf frá félagsmálaráðuneyti dagsett 27. desember 2005, þar sem vakin er athygli sveitarstjórna á því að í kjölfar breytinga á II. kafla laga um tekjustofna sveitarfélaga hefur félagsmálaráðuneytið, í samstarfi við Samb. ísl. sveitarf. og Fasteignamat ríkisins, endurútgefið reglugerð um fasteignaskatt. Bréfinu fylgir reglugerð um fasteignaskatt.


Bæjarráð vísar reglugerðinni til fjármálastjóra og byggingarfulltrúa.


Bæjarráð bendir á að heppilegt sé, að Landskrá fasteigna verði staðsett í Ísafjarðarbæ og felur bæjarstjóra að fylgja málinu eftir.



7. Bréf Samb. ísl. sveitarf. - Nám og skiptinámsdvöl fyrir stjórnendur í norrænum sveitarfélögum. 2005-12-0052.



Lagt fram bréf frá Samb. ísl. sveitarf. dagsett 22. desember 2005, er varðar nám og skiptinámsdvöl fyrir stjórnendur í norrænum sveitarfélögum á vegum Norræna sveitarfélagasambandsins.


Lagt fram til kynningar.



8. Bréf Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. - Framlög úr Jöfnunarsjóði. 2005-05-0042.



Lagt fram bréf frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga dagsett 21. desember 2005. Við setningu fjáraukalaga fyrir árið 2005, voru Jöfnunarsjóði markaðar viðbótartekjur vegna uppreiknings á framlagi ríkissjóðs fyrir árið 2005. Með tilvísun til þessa samþykkti ráðgjafanefnd Jöfnunarsjóðs á fundi þann 9. desember s.l., að leggja til hækkun á úthlutun útgjaldajöfnunarframlaga og framlaga til jöfnunar á tekjutapi sveitarfélaga vegna lækkunar tekna af fasteignaskatti. Jafnframt er fjallað um áætlanir um úthlutun framlaga á árinu 2006. Bréfinu fylgja yfirlit um útreikninga.


Lagt fram til kynningar.



9. Bréf bæjartæknifræðings. - Samningar vegna brotajárns, urðunar sorps og orkusölu. 2005-12-0048.



Lagt fram bréf Jóhanns B. Helgasonar, bæjartæknifræðings, dagsett 28. desember 2005, er varðar fyrirspurn bréfritara til bæjarráðs um, hvort segja ætti upp gildandi verksamning, a. um flutning og eyðingu brotajárns frá Funa, samningur við Gámaþjónustu Vestfjarða, b. verksamningi um urðun sorps á Klofningi, utan Flateyrar, verksamningur við Heiðarfell ehf. og c. samstarfssamningi um orkuviðskipti við Orkubú Vestfjarða. Bæjarráð samþykkir beiðni bæjartæknifræðings.



10. Bréf félagsmálaráðuneytis. - Fjárhagsáætlanir sveitarfélaga. 2005-04-0035.



Lagt fram bréf félagsmálaráðuneytis dagsett 14. desember 2005, þar sem sveitarstjórnir eru minntar á að skv. 61. og 66. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, með síðari breytingum, ber sveitarfélögum að ljúka gerð fjárhagsáætlunar ársins 2006 fyrir lok desembermánaðar 2005. Samkvæmt 63. gr. sömu laga skal sveitarstjórn afgreiða þriggja ára áætlun innan tveggja mánaða frá gerð fjárhagsáætlunar. Fjárhagsáætlun og þriggja ára áætlun ber að senda félagsmálaráðuneytinu strax að loknum afgreiðslum sveitarstjórnar.


Bæjarráð vísar bréfinu til fjármálastjóra.



11. Bréf Vinnumálastofnunar. - Atvinnuleysisskráning. 2005-12-0064.



Lagt fram bréf Vinnumálastofnunar dagsett 28. desember 2005, er varðar samning stofnunarinnar við Ísafjarðarbæ um skráningu atvinnuleysis, en samningurinn rann út þann 31. desember 2005. Í bréfinu er farið fram á framlengingu fyrri samnings til 1. júlí 2006.


Bæjarráð vísar erindinu til bæjarritara.



12. Samb. ísl sveitarf. - Fundargerð 730. stjórnarfundar.



Lögð fram fundargerð stjórnar Samb. ísl. sveitarf. frá 730. fundi er haldinn var þann 12. desember 2005, að Borgartúni 30 í Reykjavík.


Fundargerðin lögð fram til kynningar.


Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 19:15.


Þorleifur Pálsson, ritari.


Birna Lárusdóttir, formaður bæjarráðs.


Svanlaug Guðnadóttir. Lárus G. Valdimarsson.


Magnús Reynir Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi.


Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.



Er hægt að bæta efnið á síðunni?