Atvinnu- og menningarmálanefnd - 87. fundur - 9. september 2008

Mætt voru: Kristján G. Jóhannsson, formaður, Áslaug J. Jensdóttir, varaformaður, Sigurður Hreinsson, Kári Þór Jóhannsson , Guðmundur Þór Kristjánsson.


Neil Shiran Þórisson frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða ritaði fundargerð.



Dagskrá fundarins:



1. Staðan hjá Alsýn. 2008-05-0023


Umræðum var frestað.



2. Greining iðnaðarkosta. 2008-06-0031


Framkvæmdarstjóri Vaxtarsamnings Vestfjarða, Neil Shiran Þórisson fór yfir þær hugmyndir sem hafa komið fram í greiningarvinnu unninni á vegum samningsins.  Þeirri frumgreiningu lauk í lok ágústmánaðar og verið er að undirbúa frekari markaðsgreiningu og aðrar rannsóknir til að hægt sé að vinna viðskiptaáætlanir og finna fjárfesta í verkefnin.


 


3. Raforkumál. 2008-09-0039


Atvinnumálanefnd Ísafjarðarbæjar telur mjög mikilvægt að afhendingaröryggi á raforku á Vestfjörðum verði tryggt með sambærilegum hætti og er í öðrum landshlutum.  Þetta er forsenda þess að hér þrífist stóriðnaður, sem krefst mikillar orku, og getur veitt mikla atvinnu hér á svæðinu.  Nauðsynlegt er í því sambandi að kanna alla virkjanakosti á Vestfjörðum og eflingu flutningskerfis.


Nefndin fagnar því að iðnaðarráðherra skuli hafa gert það að algeru forgangsverkefni í orkumálum í iðnaðarráðuneytinu að lyfta raforkumálum Vestfirðinga í sama gæðaflokk og er annars staðar á landinu. 


Greinargerð:


Atvinnumálanefnd hefur að undanförnu kynnt sér stöðu orkumála og fengið á sinn fund sérfræðinga á því sviði.  Ljóst er að miðað við ákveðnar forsendur getur Orkubú Vestfjarða afhent orku innan tveggja ára upp á 10-20 MW á ákveðnum stöðum á norðanverðum Vestfjörðum.   Með hliðsjón af þessu hefur atvinnumálanefnd í samstarfi við Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða og Vaxtarsamning Vestfjarða hafið vinnu við greiningu iðnaðartækifæra með tilliti til afhendingaraðstæðna á raforku.  Ljóst er hins vegar að afhendingaröryggi er lakara á Vestfjörðum, en annars staðar á landinu og því nauðsynlegt að það verði bætt. 



4. Hvatningarverðlaun Virðisauki.


Umræður um hvatningarverðlaun.



5. Önnur mál.


Kári Þór Jóhannsson og Guðmundur Þór Kristjánsson vildu láta bóka sérstaklega í sínu nafni:  Við fögnum áskorun Fjórðungssambands Vestfirðinga til sjávarútvegsráðherra um að breyta reglum þannig að kvóti línuívilnunar nýtist að fullu. Skorað er á ráðherrann að auka löndunarprósentu línuívilnunar úr 16% í 30% svo unnt verði að nýta heimildir línuívilnunar sem eru til staðar.  Vegna niðurskurðar í aflaheimildum mun sú línuívilnun sem nú er til staðar ekki nýtast og má benda á að á síðasta fiskveiðiári nýttust ekki 2.115.041 kg af aflaheimildum vegna lágrar löndunarprósentu.


Sigurður Hreinsson tók undir þessi sjónarmið og bendir á að friðunarstefna síðustu 24 ára hefur engu skilað.  Óeðlilegt er því að hafa reglur sem miða að því að aflamark falli niður óveitt.


Rætt var um stöðu viljayfirlýsingar um samskipti við A-Grænland og óskar Atvinnumálanefnd Ísafjarðabæjar eftir að Þorgeir Pálsson framkvæmdarstjóri Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða mæti á næsta fund til að fara yfir stöðu verkefnisins og almennt um verkefnastöðu félagsins. 2008-07-0001


Fleira ekki gert, fundargerðin upp lesin og samþykkt, fundi slitið kl. 17.30.


Kristján G. Jóhannsson, formaður.


Kári Þór Jóhannsson.


Áslaug J. Jensdóttir.


Sigurður Hreinsson.


Shiran Þórisson.



Er hægt að bæta efnið á síðunni?