Atvinnu- og menningarmálanefnd - 83. fundur - 18. apríl 2008

Mætt voru: Kristján G. Jóhannsson, formaður, Áslaug J. Jensdóttir, varaformaður, Sigurður Hreinsson, Kári Þór Jóhannsson og Henry Bæringsson í stað Guðmundar Þórs Kristjánssonar.


Einnig sátu fundinn Steinþór Bragason frá ráðgjafafyrirtækinu Alsýn og Neil Shiran Þórisson frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða, sem ritaði fundargerð.


Dagskrá fundarins:



1. Verkefnatillögur frá Vinnumálastofnun. 


Tillögur frá Vinnumálastofnun voru ræddar, en kominn er fram grunnur að eftirfarandi verkefnum; Gönguleiðir og griðastaðir í víkingabyggð. Fley og fornir gripir í víkingabyggð. Vaðmál og víkingamunir. Vaskir víkingar við víkingamið. Hver bjó hvar. Regla á ritin. Samtímaheimildir.  Fyrir nánari upplýsingar er vísað í verkefnatillögur frá Vinnumálastofnun. Verkefnin eru í umsóknarferli og er Vinnumálastofnun í samtarfi við Alsýn um verkefnið.



2. Stöðuskýrsla frá Alsýn.


Alsýn hefur unnið að verkefnum með Vinnumálastofnun sjá nánar í lið 1.



3. Tillaga frá 241. fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar.


Á 241. fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar þann 2. apríl s.l., lagði Gísli H. Halldórsson, bæjarfulltrúi, fram svohljóðandi tillögu meirihluta að ályktun við 3. lið 81. fundargerðar atvinnumálanefndar. Bæjarstjórn samþykkti að vísa tillögunni til atvinnumálanefndar til skoðunar og var tillagan sem slík því ekki borin upp á fundi bæjarstjórnar að sinni.  


,,Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar lýsir því yfir, að hún er andsnúin því að sveitarfélög úthluti byggðakvótum og óskar eftir því að sjávarútvegsráðuneytið losi sveitarstjórnir við þann kaleik.?


Atvinnumálanefnd ræddi um tillöguna og vísaði til bæjarstjórnar eftirfarandi niðurstöðu: 


Atvinnumálanefnd Ísafjarðarbæjar telur að sveitarstjórn eigi að úthluta byggðakvótanum og setja einfaldar reglur til langs tíma um úthlutunina, þannig að útgerðaraðilar geti skipulagt útgerð sína með tilliti til þess.





Sigurður Hreinsson skilaði inn séráliti:  Sigurður telur að stjórnvöld þurfi nú þegar að fara í endurskoðun fiskveiðistjórnunarlaga, í kjölfar á áliti mannréttindanefndar Sameinuðu Þjóðanna.  Lögð verði áhersla á að byggðir landsins fái notið nálægðar við auðlindir hafsins til jafns við aðrar auðlindir á landi og gagnist þeim sem við hana búa.  Er í þeim efnum  vísað til 1. gr. laga um stjórn fiskveiða.  Með ofangreindum áherslum má losna við það þrætuepli sem byggðakvótinn er, þrátt fyrir góðan ásetning.



4. Raforkumál á Vestfjörðum


Sölvi Sólbergsson, framkvæmdarstjóri orkusviðs OV,  fór yfir mikilvæg atriði hvað varðar flutningskerfi og afhendingarstaði á Vestfjörðum.  Ljóst er að ef á að gera úrbætur á afhendingaröryggi myndu það verða mjög fjárfrekar aðgerðir.   Margir óvissuþættir eru til staðar og hagkvæmnin ekki fyrir hendi enn sem komið er.  Hugmyndir um Glámuvirkjun voru ræddar og eru þær hugmyndir í ákveðinni vinnslu og er verið að skoða áætlanir og uppfæra gögn varðandi hana.  Einnig fór Sölvi yfir fyrirsjáanleg verkefni og möguleg þróunarverkefni.


Henry Bæringsson lagði fram eftirfarandi tillögu: Atvinnumálanefnd gerir þá tillögu til bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar að hún feli bæjarstjóra að hefja viðræður við iðnaðarráðuneyti um að það beiti sér fyrir því að undirbúningur að nýrri virkjun á Glámuhálendinu á vegum Landsvirkjunar sf eða Orkubús Vestfjarða ohf verði hraðað.



Greinargerð með tillögu frá Henry:


Ísafjarðarkaupstaður hafði í upphafi heimskreppunnar miklu 1929 þá forsjálni til að bera að ráðast í byggingu vatnsaflsvirkjunar í botni Skutulsfjarðar, Fossavatnsvirkjunar, sem tekin var í notkun 1937.  Í miðri seinni heimsstyrjöldinni réðst bærinn í stækkun virkjunarinnar með byggingu, Nónvatnsvirkjunar sem tekin var í notkun 1946.  Kjarkur og framsýni þessara manna er aðdáunarvert og skilaði Ísafirði vel fram á veg á þeim tíma. 


Nú er aftur þörf aðgerða og það er vel að Ísafjarðarbær hreyfi því máli af alvöru.  Á lestri skýrslu Landsnets hf um styrkingu rafdreifikerfisins er ljóst að Vestfirðingar búa við verulega skert afhendingaröryggi í raforkumálum.  Allar leiðir til þess að auka öryggið með línubyggingum og/eða strenglögnum inn á Vestfirðina eru dýrar og óhagkvæmar.  Sú lausn sem gagnast mundi Vestfirðingum og þjóðarbúinu best væri að byggja hér virkjun sem dygði fyrir allt svæðið.  Í ritinu Innlendar orkulindir til vinnslu á raforku (Iðnaðarráðuneytið 1994) segir:  ?Glámuvirkjun: Safngöng frá Vatnsdalsá að Fjarðará í Hestfirði. Staðsetning virkjunar í Hestfirði. Fleiri staðsetningar koma til greina. Forathugun (um 450 GWh/a); líklega fremur óhagkvæm.?


Síðan þetta var ritað eru liðin 14 ár, kröfur orkukaupanda, tækni og forsendur hafa breyst mikið á þeim árum sem liðin eru, svo þessi orð eiga kannski ekki við í dag.  Eins hefur bor- og gangnatækni fleygt fram og að öllum líkindum yrði nú virkjað niður að Mjólkárvirkjun og þannig komist í beint samband við stofnlínurnar.  Virkjun af þessari stærðargráðu dyggði öllum Vestfjörðum og rúmlega það.  Því spá Landsnets gerir ráð fyrir 262,5 GWh/a árið 2022.  Og með fyrirhuguðum styrkingum á dreifikerfi Landsnets frá Mjólká um Vestfirði yrði afhendingaröryggi og jafnframt orkuframleiðsla tryggð um ókomna tíð.  Þessi framkvæmd opnaði jafnframt á gjörbreyttar forsendur til fyrirtækjarekstrar af öllu tagi.


Einnig fjallaði atvinnumálanefnd um  eftirfarandi bókun á bæjarstjórnarfundi 17. apríl  s.l. og lagði áherslu á hana. Ingi Þór Ágústsson lagði fram svohljóðandi tillögu að bókun ásamt greinargerð við 9. lið 569. fundargerðar bæjarráðs.


,,Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar óskar eftir skýrum svörum frá iðnaðarráðuneytinu um það hvernig ráðuneytið hyggst byggja upp raforku- og gagnaflutningakerfi til bæjarfélagsins á næstu árum.


Þá telur bæjarstjórn að nú sé lag til að fara í ítarlegar rannsóknir á virkjanakostum á Vestfjörðum, til lengri tíma litið s.s. með þróunar- og rannsóknarverkefnum á sviði sjávarfalla- og sjávarstraumavirkjana á svæðinu.?



Greinargerð:


Niðurstaða áfangaskýrslu Landsnets um flutningskerfi til Vestfjarða er sú, að áreiðanleiki raforkuafhendingar er lægstur á Vestfjörðum. Slíkt ástand er óviðunandi og hafa íbúar Ísafjarðarbæjar fengið að kenna illa á því í vetur.


Fjárfestingarstofa skilaði skýrslu um staðarvalsathuganir fyrir netþjónabú í mars sl. Þar kemur fram að Ísafjarðarbær kemur ekki til greina til uppbyggingar netþjónabús, vegna þess hve áreiðanleiki raforkuafhendingar er lélegur og vegna þess að bæjarfélagið er ekki við ljósleiðarahring. Gera má ráð fyrir að þessir ókostir séu óbærilegir flestum fyrirtækjum í nútímaatvinnuháttum.


Iðnaðarráðherra hefur oftar en einu sinni lýst því, að hann leggur áherslu á úrbætur í þessum málum á Vestfjörðum. Því kallar bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar eftir skýrum svörum frá iðnaðarráðuneytinu um það hvernig það ætli að tryggja afhendingu orku til íbúa í Ísafjarðarbæ og byggja upp gagnaflutningakerfi á næstu árum.





Frekari umræðum var frestað undir þessum lið fram á næsta fund.



5. Aðalskipulag Ísafjarðarbæjar 2008-2020 -  greinargerð og spurningar.


Lagt var fram frá tæknideild Ísafjarðarbæjar greinargerð og spurningar vegna vinnu við Aðalskipulag Ísafjarðarbæjar 2008-2020.


Nefndarmönnum var falið að koma með tillögur að svörum fyrir næsta fund.



6. Skýrsla um netþjónabú


Lögð fram skýrsla Fjárfestingarstofu, dags. í mars 2008. Skýrslan gaf neikvæða niðurstöðu fyrir Ísafjarðarbæ varðandi staðsetningu netþjónabús og voru helstu neikvæðu þættirnir öryggi gagnaflutninga og rafmagnstenginga.   Frekari umræður um þetta  mál fara fram á næsta fundi undir dagskrárliðnum Rafmagnsöryggi.


Fleira ekki gert, fundargerðin upp lesin og samþykkt, fundi slitið kl. 18:30.


Kristján G. Jóhannsson, formaður.


Kári Þór Jóhannsson. 


Áslaug J. Jensdóttir.   


Sigurður Hreinsson.


Henry Bæringsson. 


Shiran Þórisson.



Er hægt að bæta efnið á síðunni?