Atvinnu- og menningarmálanefnd - 114. fundur - 16. maí 2012

Dagskrá fundarins:

 

1. Stefnumótun í atvinnumálum. 2010-08-0057

Shiran Þórisson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða, mætir til fundar við nefndina og kynnir drög að nýrri stefnu Ísafjarðarbæjar í atvinnumálum.

Samþykkt að leggja drögin fyrir bæjarráð að lokinni frekari yfirferð AtVest og atvinnumálanefndar.

 

2. Könnun meðal atvinnurekenda. 2011-01-0013

Upplýsingafulltrúa falið að leggja könnunina fyrir forsvarsmenn atvinnulífsins í samræmi við umræður á fundinum.

                                                                                         

3. Önnur mál

  • Staða atvinnulífs og sjávarútvegs á Vestfjörðum

Rætt um stöðu mála í atvinnulífi á Vestfjörðum.

  • Umsögn atvinnumálanefndar á frumvarpi til laga, 657. mál. 2012-04-0001

Benedikt Bjarnason lagði fram eftirfarandi bókun í tilefni af umsögn atvinnumálanefndar á frumvarpi til laga, 657. mál.

 

„Undirritaður vill koma á framfæri leiðréttingum við umsögn atvinnumálanefndar um frumvörp ríkisstjórnarinnar um stjórn fiskveiða og veiðigjöld.

 

Atvinnumálanefnd, sem fagnefnd Ísafjarðarbæjar, hefur það að markmiði að vanda vinnubrögð, en undirritaður gerir athugasemdir við umsögn nefndarinnar á frumvarpi til laga sem fram kom á 113. fundi hennar 13. apríl 2012.

 

Frumvarp það sem nú liggur fyrir Alþingi um stjórn fiskveiða byggir í flestum atriðum á niðurstöðu svokallaðrar sáttanefndar, sem starfaði undir forystu Guðbjarts Hannessonar á árunum 2009-2010, með aðild allra hagsmunaaðila í sjávarútvegi og allra stjórnmálaflokka. Niðurstaða nefndarinnar byggði á aflamarkskerfi með nýtingarsamningum við útgerðina og hliðarráðstöfunum til að styðja byggðir og nýliðun. Auk þess var niðurstaða nefndarinnar sú að ráðstöfunarréttur fiskveiðiauðlindarinnar væri í höndum þjóðarinnar. Öll þessi atriði er að finna í frumvarpi ríkisstjórnarinnar.

 

Því er haldið fram að upptaka veiðigjalds, auðlindagjalds fyrir nýtingu fiskistofnanna, muni líklega lækka laun sjómanna og verkafólks og þannig minnka tekjur sveitarfélaga. Þvert á móti gerir frumvarp um veiðigjöld ráð fyrir að allur rekstrarkostnaður, þar með talin laun, dragist frá þeim stofni sem notaður er til að reikna út sérstaka veiðigjaldið. Þess vegna má halda því fram að frumvarpið auðveldi útgerðinni að hækka laun sjómanna og verkafólks, án þess að það skerði rekstrarhæfni þeirra.

 

Undirritaður er sammála þeirri grundvallarreglu að þeir sem nýti auðlindir þjóðarinnar greiði fyrir það sanngjarnt auðlindagjald. Frumvarp um veiðigjöld gerir ráð fyrir að tengja gjaldið við afkomu sjávarútvegsins. Það er eðlilegra að hluti af þeim arði sem skapast í sjávarútvegi renni í sameiginlega sjóði landsmanna, heldur en að hann lendi í vösum örfárra einstaklinga. Með þeim hætti er meiri von til þess að þeir fjármunir skili sér í mikilvæg samfélagsleg verkefni, svo sem samgönguframkvæmdir.

 

Með þessari bókun vill undirritaður leggja sitt af mörkum til hlutlausrar og upplýstrar umræðu um sjávarútvegsmál.“

  • Auglýsingar á vegum Ísafjarðarbæjar. 2012-05-0046.

Benedikt Bjarnason lagði fram eftirfarandi spurningar varðandi auglýsingar á vegum Ísafjarðarbæjar:

 

„1. Hver hefur kostnaður Ísafjarðarbæjar verið vegna birtinga á auglýsingum, sundurliðað vegna einstakra fjölmiðla.

       a. árið 2010

       b. árið 2011

       c. janúar til apríl 2012

 

Hér er átt við allar auglýsingar og kynningar í fjölmiðlum, vegna útboða, atvinnuumsókna, viðburða eða annarra birtinga.

 

2. Hefur verið mótuð stefna um það hvernig birtingum er hagað á auglýsingum bæjarins og hvaða miðlar eru valdir til að birta ákveðnar tegundir auglýsinga og í hvers eða hverra höndum er að taka ákvarðanir um birtingu auglýsinga og kynninga á vegum Ísafjarðarbæjar?“

 

Fleira ekki gert. Fundargerð lesin upp og fundi slitið klukkan 17.45.

 

Ingólfur Þorleifsson, formaður.

Steinþór Auðunn Ólafsson.                                                 

Benedikt Bjarnason.

Hálfdán Bjarki Hálfdánsson, upplýsingafulltrúi.                                                 

Shiran Þórisson.

Er hægt að bæta efnið á síðunni?