Atvinnu- og menningarmálanefnd - 113. fundur - 13. apríl 2012

Dagskrá fundarins:

 

1. Frumvarp til laga um stjórn fiskveiða – Beiðni um umsögn á frumvarpi til laga, 657. mál. 2012-04-0001

Lögð fram áætlun Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða á veiðigjaldi útgerða á Vestfjörðum miðað við áhrif frumvarpsins. Áætlunin er flokkuð annars vegar eftir skipum og hins vegar eftir höfnum.

 

Nefndin leggur til eftirfarandi umsögn um frumvarpið:

 

„Atvinnumálanefnd Ísafjarðarbæjar telur að verulegir annmarkar séu á frumvarpi því sem er til umsagnar.

Um 87 prósent af aflaheimildum sem úthlutað var 1. september 2011 eru á landsbyggðinni og því má ætla að þessar breytingar munu koma harðast niður þar.

Þær greinar þessa frumvarps er varða nýtingarsamninga og pottafyrirkomulag eru greinar sem væntanlega verður hægt að ná einhverri sátt um innan sjávarútvegsins. Með nýtingarsamningum til 20 ára, og möguleika á framlengingu, ættu fyrirtæki að geta skipulagt sig til framtíðar.

Skerðing á aflaheimildum núverandi handhafa til að mynda potta fyrir nýliða er þó eitthvað sem ekki er sátt um. Þar er í einhverjum tilfellum verið að hygla áhugamönnum á kostnað atvinnumanna. Illskárri kostur væri að  hluti fyrirsjáanlegrar aukningar á aflamarki á næstu árum færi í þá potta sem kerfið kveður á um.

Fjöldi umsagnaraðila hefur nú þegar lýst efasemdum sínum við þennan kafla frumvarpsins. Endurskoðunarfyrirtækið Deloitte&Touche hefur sent frá sér greinargerð þar sem fram kemur hvaða áhrif þetta veiðigjald mun hafa.

Bankar, samtök fiskvinnslustöðva, Landsamband íslenskra útvegsmanna, Landssamband smábátaeigenda og fjölmargir aðrir hafa sagt að þess háttar gjaldtaka muni hafa verulega neikvæð áhrif á þau fyrirtæki sem nú starfa innan greinarinnar.

Líklegt er að störfum muni fækka enn frekar en orðið er og laun lækka hjá sjómönnum og fiskvinnslufólki, sem hafa mun áhrif á útsvar sveitarfélaga. Þá mun draga verulega úr fjárfestingu fyrirtækja í greininni með tilheyrandi afleiðingum fyrir minni þjónustufyrirtæki.

Á Vestfjörðum var auðlindagjaldið á síðasta ári 255 milljónir. Með nýja frumvarpinu verður það hins vegar um 1,4 milljarðar, þar af 1,2 milljarðar á norðanverðum Vestfjörðum, samkvæmt útreikningum Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða. Nefndin getur ekki samþykkt svo mikla aukningu á skattheimtu af burðarfyrirtækjum á svæðinu, sérstaklega ekki meðan ótryggt er að nokkuð af þeim tekjum skili sér aftur til uppbyggingar í Ísafjarðarbæ. Eins er engin vissa fyrir því að það sem skilar sér vegi upp það tap sem sveitarfélög verða fyrir vegna þess útsvars sem tapast.

Til þess að einhver sátt megi nást um fiskveiðar og  nýtingu úr þjóðareign Íslendinga þarf að huga að samráði við alla hagsmunaaðila og breiðri sátt alls Alþingis. Með þessum athugasemdum nefndarinnar er ekki verið að lýsa stuðningi við óbreytt kerfi heldur verið að kalla eftir nánari skoðun á afleiðingum breytinganna og meiri sátt allra sem að málinu koma.

Sáttarnefnd allra flokka á Alþingi náði niðurstöðu  þar sem allir nefndarmenn voru sammála um ákveðnar leiðir til breytinga á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Í þessari stjórnartillögu er á engan hátt litið til þeirrar vinnu sem þar var unnin. Ekkert samráð var haft við hagsmunaaðila innan útgerðar eða fiskvinnslu við gerð frumvarpsins. Það  sýnir að stjórnvöld ætla sér að ná fram breytingum á kerfinu án þess að kynna sér til fulls þær alvarlegu afleiðingar sem það mun hafa í för með sér fyrir landsbyggðina.“

 

2. Könnun meðal atvinnurekenda. 2011-01-0013

Rætt um fyrirkomulag könnunarinnar. Upplýsingafulltrúa falið að vinna áfram að málinu.

 

3. Önnur mál

  • Stefnumótun í atvinnumálum. 2010-08-0057

Rætt um þá vinnu sem er í gangi varðandi stefnumótun í atvinnumálum.

 

Fleira ekki gert. Fundargerð lesin upp og fundi slitið klukkan 09.30.

 

Ingólfur Þorleifsson, formaður.

Steinþór Auðunn Ólafsson.                                                        

Sigríður Ó Kristjánsdóttir.

Hálfdán Bjarki Hálfdánsson, upplýsingafulltrúi.                     

Er hægt að bæta efnið á síðunni?