Atvinnu- og menningarmálanefnd - 106. fundur - 10. febrúar 2011

Mættir: Ingólfur Þorleifsson, formaður, Benedikt Bjarnason, Sigurður Hreinsson og Hálfdán Bjarki Hálfdánsson, upplýsingafulltrúi Ísafjarðarbæjar, sem jafnframt ritaði fundargerð.

 

Dagskrá fundarins:

 

1. Fundir með forsvarsmönnum atvinnufyrirtækja í Ísafjarðarbæ 2011-02-0031

Nefndin felur starfsmanni sínum að ákveða tímasetningu og fyrirkomulag fundarins í viku 8. Þetta verður gert í samstarfi við Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða og vinnuhóp um Sóknaráætlun Ísafjarðarbæjar 2020.

 

2. Reglur um frumkvöðlastyrki 2011-02-0032

Lögð fram fyrstu drög að reglum um styrki til frumkvöðla og fyrirtækja sem vilja auka starfsemi sína.

 

3. Skoðanakönnun meðal atvinnurekenda 2011-01-0013

Lagður fram listi yfir spurningar síðustu tveggja atvinnulífskannana. Þá gerði upplýsingafulltrúi grein fyrir viðræðum sínum við starfsmann Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða varðandi málið.

Nefndin felur starfsmanni sínum að koma með tillögu að stuttum spurningalista sem lagður verður fyrir atvinnurekendur. Niðurstöður verða notaðar sem vísbending um þróun á starfsemi fyrirtækja og væntingar.

 

4. Atvinnumál á Flateyri 2010-11-0076 

Upplýsingafulltrúi kynnti aðkomu Ísafjarðarbæjar að rekstri félagsmiðstöðvar í Félagsbæ, og upplýsti um þróun mála.

 

5. Stefnumótun í atvinnumálum 2010-08-0057

Nefndin felur starfsmanni sínum að ræða við starfsmann Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða um framhald mála.

Stefnt er að því að leggja fram drög að nýrri atvinnumálastefnu Ísafjarðarbæjar í síðasta lagi á 108. fundi nefndarinnar.

 

6. Staða eignarhaldsfélagsins Hvetjanda 2011-02-0033

Rætt um stöðu eignarhaldsfélagsins Hvetjanda og möguleika félagsins til að koma að fjármögnun. Lagt fram minnisblað upplýsingafulltrúa og síðasti ársreikningur félagsins.

 

7. Önnur mál

  • Benedikt Bjarnason bar upp eftirfarandi ályktun: „Atvinnumálanefnd hvetur stjórnendur grunnskóla Ísafjarðarbæjar til að standa að nýsköpunarkeppni meðal grunnskólabarna og annarri fræðslu í tengslum við nýsköpun.“

Tillagan er samþykkt.

  • Sigurður Hreinsson lét bóka eftirfarandi: „Vegna áskorunar bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra frá 291. fundi bæjarstjórnar, vill undirritaður láta bóka eftirfarandi:

Undirritaður skorar á sjávarútvegsráðherra að taka til baka þá ákvörðun að flokka sjóstangveiðibáta með atvinnuveiðum.

Afleiðingin er sú að hefðbundnir fiskibátar og sjóstangveiðibátar eru að bítast um sama kvótann á sama tíma og aldrei hefur verið minni kvóti til skiptanna.  Útkoman er því sú að kvótaverð ríkur upp úr öllu valdi og setur rekstur minni sjávarútvegsfyrirtækja í mikla hættu.  Einnig getur komið upp sú staða að sjóstangveiðiútgerðir verði að hætta vegna kvótaskorts.

Fullyrða má að leitun sé að jafn miklum hagsmunaárekstrum milli atvinnugreina eins og hér um ræðir.

Sama má segja um að fara að úthluta mjög takmörkuðu magni af byggðarkvóta, í þessu skyni.

Engin líffræðileg rök eru fyrir þessari kvótasetningu, heldur er óhætt að fullyrða að hugsunin á bak við hana hafi einmitt verið að skapa ákveðna viðskiptahindrun.

Sé virkileg nauðsyn að takmarka hagnað fyrirtækja í sjóstangveiðinni eða takmarka fjölda þeirra með öðrum hætti, má vel hugsa sér að aflaverðmætið eða hluti þess, renni til þeirra sveitarfélaga sem að málinu koma, og/eða ríkisins, með svipuðum hætti og verðmæti svokallaðs Hafróafla.“

 

Fleira ekki gert og fundi slitið klukkan 17.45.

 

Ingólfur Þorleifsson, formaður

Sigurður Hreinsson

Benedikt Bjarnason

Hálfdán Bjarki Hálfdánsson, upplýsingafulltrúi.

Er hægt að bæta efnið á síðunni?