Bæjarstjórn

421. fundur 30. ágúst 2018 kl. 17:00 - 17:38 í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði
Nefndarmenn
 • Nanný Arna Guðmundsdóttir aðalmaður
 • Arna Lára Jónsdóttir aðalmaður
 • Daníel Jakobsson aðalmaður
 • Marzellíus Sveinbjörnsson aðalmaður
 • Sigurður Jón Hreinsson aðalmaður
 • Aron Guðmundsson aðalmaður
 • Jónas Þór Birgisson varamaður
 • Sif Huld Albertsdóttir aðalmaður
 • Kristján Þór Kristjánsson forseti
Starfsmenn
 • Þórdís Sif Sigurðardóttir bæjarstjóri
 • Hjördís Þráinsdóttir skjalastjóri
Fundargerð ritaði: Hjördís Þráinsdóttir skjalastjóri
Dagskrá

1.Umhverfis- og framkvæmdanefnd - 69 - 1808012F

Lögð er fram fundargerð 69. fundar umhverfis- og framkvæmdanefndar sem haldinn var 28. ágúst sl., fundargerðin er í 3 liðum.
Til máls tóku: Kristján Þór Kristjánsson, forseti, Marzellíus Sveinbjörnsson, Nanný Arna Guðmundsdóttir og Daníel Jakobsson.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2.Tillaga um niðurfellingu bæjarstjórnarfundar 6. september - 2018060018

Tillaga bæjarstjóra um niðurfellingu bæjarstjórnarfundar sem áætlaður er 6. september n.k.
Til máls tóku: Kristján Þór Kristjánsson, forseti og Þórdís Sif Sigurðardóttir, starfandi bæjarstjóri.

Forseti ber tillöguna upp til atkvæða.

Tillagan samþykkt 8-0.

Sigurður Jón Hreinsson sat hjá við atkvæðagreiðsluna.

3.Tillaga að dagsetningum bæjarstjórnarfunda - 2018060018

Tillögur bæjarstjóra að dagsetningum bæjarstjórnarfunda september 2018 til og með júní 2019.
Til máls tóku: Kristján Þór Kristjánsson, forseti, Nanný Arna Guðmundsdóttir, Þórdís Sif Sigurðardóttir, starfandi bæjarstjóri og Sigurður Jón Hreinsson.

Nanný Arna Guðmundsdóttir leggur fram eftirfarandi breytingatillögu.
„Dagsetning bæjarstjórnarfunda 2018-2019 verði eins og upp var gefið að undanskilinni einni breytingu. Fundir verði haldnir 10. janúar og 24. janúar í stað 18. janúar.“

Forseti ber breytingatillöguna upp til atkvæða.

Breytingatillagan samþykkt 9-0.
Þórdís Sif Sigurðardóttir víkur af fundi fyrir afgreiðslu þessa fundarliðar, kl. 17:09.

4.Ráðning bæjarstjóra - 2018060019

Lögð fram samþykkt meirihluta bæjarráðs um ráðningu Guðmundar Gunnarssonar sem bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar. Einnig lagður fram til samþykktar ráðningarsamningur.
Til máls tóku: Kristján Þór Kristjánsson, forseti, Þórdís Sif Sigurðardóttir, starfandi bæjarstjóri, Marzellíus Sveinbjörnsson, Daníel Jakobsson, Arna Lára Jónsdóttir, Jónas Þór Birgisson, Sigurður Jón Hreinsson og Aron Guðmundsson.

Daníel Jakobsson leggur fram eftirfarandi bókun.
„Starf bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar var auglýst þann 23. júní sl. í Fréttablaðinu og á vef Capacent, capacent.is. Ragnheiður S. Dagsdóttir, ráðgjafi vann málið að hálfu Capacent en auglýsingin var samin af henni í samráði við starfandi bæjarstjóra, mannauðsstjóra og meðlimi bæjarráðs. Umsóknarfrestur var til 9. júlí. 16 sóttu um starfið, 3 drógu umsókn sína til baka.

Áður en umsóknarfrestur hafði runnið út hafði ráðgjafi sett upp hæfnismat (matrixu) með matsviðmiðum og sent mannauðstjóra Ísafjarðarbæjar til skoðunar sem og formanni bæjarráðs, sem var í framhaldi samþykkt.

Eftir úrvinnslu gagna gaf ráðgjafi Capacent öllum umsækjendum einkunn á grundvelli þeirra gagna sem fram komu í umsóknum. Á grundvelli þessa mats voru sex aðilar teknir í símaviðtöl af ráðgjafa Capacent. Niðurstaða þeirra var kynnt bæjarráði og á grundvelli þeirra var ákveðið af bæjarráði að kalla þrjá aðila til viðtals með allri bæjarstjórn á Ísafirði föstudaginn 27. júlí.

Viðtölin fóru svo fram á Ísafirði 27. júlí. Sex bæjarfulltrúar, þau Arna Lára Jónsdóttir, Daníel Jakobsson, Marzellíus Sveinbjörnsson, Hafdís Gunnarsdóttir, Kristján Þór Kristjánsson og Sif Huld Albertsdóttir sátu þau ásamt ráðgjafa Capacent. Aðrir sáu sér ekki fært að mæta.“

Arna Lára Jónsdóttir leggur fram eftirfarandi bókun fyrir hönd Í-lista.
„Fulltrúar B og D lista í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar ákváðu í upphafi þessa kjörtímabils að auglýsa stöðu bæjarstjóra og fá ráðgjafafyrirtækið Capacent til að halda utan um ferlið gegn umtalsverðri þóknun. Þessi ákvörðun felur í sér fyrirheit um að staðið sé faglega að ráðningunni. Í auglýsingu um starfið var krafist ákveðinnar þekkingar og reynslu sem nýtist í störfum bæjarstjóra, og má þar nefna þekkingu og reynslu af opinberri stjórnsýslu, reynsla af farsælli stjórnun og stefnumótun. Capacent fór yfir allar umsóknir og raðaði umsækjendum eftir menntun þeirra og reynslu, auk þess að taka viðtöl við sex umsækjendur.

Á síðasta stigi ráðningarferilsins virðist sem svo að oddvitar meirihlutaflokkanna hafi stytt sér leið með töluverðum ágöllum á málsmeðferð.

Fulltrúi Í-listans í bæjarráði óskaði eftir rökstuðningi frá Capacent í tölvupósti til oddvita Framsóknarflokksins og oddvita Sjálfstæðisflokksins þann 8.ágúst sl.. Einnig var oddvitunum gerð grein fyrir því fulltrúi Í-listans gæti ekki samþykkt þessa ráðningu miðað við þær upplýsingar sem fyrir lágu. Fyrir því voru tvær ástæður. Í fyrsta lagi var niðurstaða ráðningarinnar ekki í samræmi við niðurstöðu hæfismats sem Capacent vann og byggði á menntun og reynslu umsækjenda. Í öðru lagi, eftir að hafa ráðfært okkur við Jafnréttisstofu, að líkur væru á að ráðningin væri brot á jafnréttislögum.

Fyrri greinargerð Capacent vegna ráðningarinnar barst fulltrúa Í-listans í bæjarráði aðfararnótt 13. ágúst en tillaga um ráðningu lá fyrir bæjarráðsfundi 13. ágúst. Málinu var frestað þar sem fulltrúi Í-listans taldi sig ekki geta samþykkt tillöguna í ljósi þeirra ágalla sem þegar höfðu komið fram. Þar að auki hefur bæjarráð ekki heimild til að afgreiða mál í ágreiningi í sumarleyfi bæjarstjórnar og var það álit staðfest af Andra Árnasyni bæjarlögmanni.

Seinni útgáfa greinargerðar Capacents um ráðninguna, barst fulltrúum í bæjarráði að kvöldi 19. ágúst. Greinargerðin er í reynd einungis fullyrðing um að viðkomandi teljist hæfastur í starfið. Enginn rökstuðningur eða samanburður er á umsækjendum og skjalið allt er ekki til þess fallið að auka traust á því fyrirtæki. Athygli vekur að í þessari nýju greinargerð er hæfismati breytt til þess að falla betur að ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar. Capacent hafði ekki samband við meðmælendur allra umsækjenda sem komust í lokaviðtalið og ekki er gerð nein tilraun til að svara þeim áhyggjum fulltrúa Í-listans, um að hér sé mögulega verið að brjóta gegn jafnréttislögum, eins og óskað var eftir í tölvupósti til oddvita meirihlutaflokkanna. Greinargerðin ber öll merki þess að vera skrifuð til að verja ákvörðun meirihlutans. Skjöl sem sýna fram á hver af þessum þremur umsækjendum sé sannarlega hæfastur, hafa enn ekki verið birt bæjarfulltrúum Í-listans.

Það fylgir því ábyrgð og skyldur að taka þátt í sveitarstjórn, þær skyldur eru meðal annars að vinna af heilindum fyrir Ísafjarðarbæ og íbúa hans. Þessi vinnubrögð nýs meirihluta í þessu máli, boða ekki gott fyrir kjörtímabilið. Mikilvægt er að bæjarfulltrúar allir temji sér agaðri og vandaðri vinnubrögð en þau sem hér má sjá dæmi um. Gera verður þá kröfu að vandað verði til verka í málsmeðferð hjá bænum og farið verði að lögum í hvívetna.
Guðmund Gunnarsson bjóðum við velkominn til starfa fyrir Ísafjarðarbæ. Bæjarfulltrúar Í-listans munu leggja sig fram við að eiga við hann gott samstarf í framtíðinni. Óskum við honum velfarnaðar í starfi bæjarstjóra.“

Daníel Jakobsson leggur fram eftirfarandi bókun fyrir hönd meirihluta D og B lista.
„Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn hafna alfarið málflutningi Í-listans varðandi ráðningarferli bæjarstjóra.
Ferlið var unnið algjörlega faglega frá upphafi til enda og farið að ráðleggingu óháðrar ráðningarstofu um val á hæfasta umsækjandanum.
Ef eitthvað á að gagnrýna í þessu ferli þá er það framganga oddvita Í-listans sem bæði hefur farið fram með rangt mál, s.s fullyrðingar um að jafnréttislög hafi verið brotin sem eiga ekki við nein rök að styðjast, sem og veit betur en svo að annar umsækjandi hafi verið hæfari en sá sem tillaga liggur fyrir um að ráða.
Það er líka ljóst í okkar huga að aðeins einn umsækjandi átti raunverulegan möguleika á að fá starfið að mati oddvita Í-listans. Alveg frá því að auglýsingin var birt.“

Forseti ber tillögu um ráðningu bæjarstjóra og ráðningarsamning hans upp til atkvæða.

Tillagan samþykkt. 5-2.

Arna Lára Jónsdóttir og Aron Guðmundsson greiða atkvæði á móti tillögunni. Sigurður Jón Hreinsson og Nanný Arna Guðmundsdóttir sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.
Þórdís Sif kemur aftur inn á fundinn kl 17:35.

5.Bæjarráð - 1027 - 1808014F

Lögð er fram til kynningar fundargerð 1027. fundar bæjarráðs sem haldinn var 27. ágúst sl., fundargerðin er í 5 liðum.
Til máls tók: Kristján Þór Kristjánsson, forseti.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 17:38.

Er hægt að bæta efnið á síðunni?