Bæjarstjórn

443. fundur 16. október 2019 kl. 17:00 - 18:38 í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði
Nefndarmenn
 • Gunnhildur Björk Elíasdóttir varamaður
 • Arna Lára Jónsdóttir aðalmaður
 • Jónas Þór Birgisson varamaður
 • Marzellíus Sveinbjörnsson aðalmaður
 • Sigurður Jón Hreinsson aðalmaður
 • Hafdís Gunnarsdóttir forseti
 • Sif Huld Albertsdóttir aðalmaður
 • Kristján Þór Kristjánsson forseti
 • Þórir Guðmundsson aðalmaður
Starfsmenn
 • Þórdís Sif Sigurðardóttir bæjarritari
 • Guðmundur Gunnarsson bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Þórdís Sif Sigurðardóttir bæjarritari
Dagskrá
Forseti leggur til að samþykkt verði að taka með afbrigðum inn skýrslu minnihluta nefndar um byggingu fjölnota knattspyrnuhúss, sem 2. fundarlið.

Tillagan samþykkt 9-0.

Forseti leggur til að fundarliður 1. og 2. verði til umræðu samtímis undir 1. fundarlið.


Kristján Þór Kristjánsson, forseti, sem jafnframt er formaður nefndar um byggingu fjölnota knattspyrnuhúss, felur Hafdísi Gunnarsdóttur, varaforseta, fundarstjórn á fyrst þrem fundarliðum.

Tillagan samþykkt 9-0.

1.Uppbygging knattspyrnumannvirkja á Torfnesi - 2017010066

Á 15. fundi nefndar um byggingu fjölnota knattspyrnuhúss sem haldinn var 9. október, vísaði meirihluti nefndarinnar lokaskýrslu nefndarinnar til kynningar í bæjarstjórn.
Umræður um fundarlið 1 og 2 fóru fram saman undir 2. fundarlið bæjarstjórnar.

2.Álit minnihluta nefndar um byggingu fjölnota knattspyrnuhúss - 2017010066

Kynnt er álit minnihluta nefndar um byggingu fjölnota knattspyrnuhúss, ritað af Sigurði J. Hreinssyni, bæjarfulltrúa, dagsett 14. október 2019, ásamt tölvupósti Sigurðar J. Hreinssonar, þriðjudaginn 15. október 2019.
Til máls tók: Kristján Þór Kristjánsson, forseti, Hafdís Gunnarsdóttir, varaforseti, Sigurður J. Hreinsson, Arna Lára Jónsdóttir, Þórir Guðmundsson, Jónas Þór Birgisson, Sif Huld Albertsdóttir, Gunnhildur B. Elíasdóttir og Marzellíus Sveinbjörnsson.

Forseti leggur lokaskýrslu nefndar um byggingu fjölnota knattspyrnuhúss og álit minnihluta nefndar um byggingu fjölnota knattspyrnuhúss fram til kynningar.

3.Uppbygging knattspyrnumannvirkja á Torfnesi - 2017010066

Á 15. fundi nefndar um byggingu fjölnota knattspyrnuhúss sem haldinn var 9. október, lagði meirihluti nefndarinnar til við bæjarstjórn að verkið yrði boðið út í samræmi við fyrirliggjandi útboðsgögn.
Til máls tóku: Hafdís Gunnarsdóttir, varaforseti, Arna Lára Jónsdóttir og Jónas Þór Birgisson.

Arna Lára Jónsdóttir leggur fram eftirfarandi bókun fyrir hönd bæjarfulltrúa Í-listans:
„Bæjarfulltrúar Í-lista telja að betur hefði mátt vanda til vinnunnar vegna undirbúnings við byggingu knattspyrnuhúss. Fjölmörgum spurningum er enn ósvarað og skýrsla meirihluta byggingarnefndarinnar vart boðleg fyrir jafn stóra framkvæmd sem veltur á hundruðum milljóna.

Fulltrúar meirihlutans hafa ekki svarað því hvaða áhrif þessi stóra framkvæmd hefur á skuldastöðu, afkomu og rekstur bæjarsjóðs. Slíkar spurningar ættu að vera í forgrunni og eru í raun forsenda ákvarðanatöku. Fulltrúi Í-lista í byggingarnefndinni reyndi margoft að fá svör við hinum ýmsum lykilspurningum. Fulltrúi Í-listans í nefndinni óskaði ítrekað eftir því skoða betur staðarval og skipulag á Torfnesi, en ekki var orðið við því. Því hefur ekki verið svarað hver rekstrarkostnaður á húsinu muni vera, hvort starfsfólk verði í húsinu eða myndavélakerfi. Forsenda upplýstrar ákvarðanatöku er að allar upplýsingar komi fram.

Fulltrúi Í-lista í byggingarnefndinni sá sig tilknúinn að skila séráliti á störfum byggingarnefndarinnar þegar skýrsla meirihlutans var til umræðu á nefndarfundi þar sem hann taldi margt vera ábótavant í þeirri skýrslu.

Bygging knattspyrnuhúss er stór framkvæmd og mun hafa veruleg áhrif á framkvæmdagetu bæjarsjóðs. Ekki hefur verið skoðað ofan í kjölinn hvaða áhrif framkvæmdin mun hafa á aðrar framkvæmdir og hversu mikil áhrif framkvæmdin hefur á rekstur bæjarsjóðs. Í umsögn Enor vegna byggingar knatthúss sem var kynnt í bæjarráði 6.maí sl. segir á bls. 2 að mikil óvissa fylgir kostnaðaráætlunum og í mörgum tilvikum endar kostnaður langt umfram áætlanir. Í því samhengi má benda á mikil umsvif í samfélaginu og viðvarandi skort á iðnaðarmönnum sem hefur leitt til þess að tilboðsverk eru í sí auknum mæli að fara töluvert framúr kostnaðaráætlunum. Enor bendir jafnframt á að fjárhagsstaða sveitarfélagsins sé ágæt en sveitarfélagið mun þó á næstu árum auka skuldir sínar verulega eða úr kr. 5,3 milljörðum í kr. 6,8 milljarða ef áætlanir ganga eftir sem þýðir að breytt skuldaviðmið skv. sveitarstjórnarlögum mun fara hækkandi. Sveitarfélagið mun taka ný lán upp á kr. 2.400 millj. á tímabilinu 2019 - 2022 sem meðal annars fara í afborganir eldri lána en greiðslubyrði vegna afborgana og vaxta mun þyngjast verulega á þessum tíma. Fjármögnun er ekki frágengin og óvíst hvort hún fengist öll frá Lánasjóði sveitarfélaga. Þessar viðvaranir sérfræðinga Enors verðum við að taka alvarlega.

Umræða um framúrkeyrslu opinberra framkvæmda hefur verið áberandi síðastliðna mánuði. Skýringar á framúrkeyrslu opinberra framkvæmda eru bjartsýnar kostnaðaráætlanir og að ekki hefur verið vandað til undirbúningsvinnu, auk ónógs eftirlits með verkum. Af því skulum við læra.

Í-listinn hefur mikinn vilja til að bæta aðstöðu knattspyrnumanna og barna og það er brýnt, en þarf að vanda betur til verka og skoða málið út frá öllum hliðum og þá sérstaklega út frá stöðu bæjarsjóðs.“

Forseti ber tillöguna upp til atkvæða.

Tillagan samþykkt 5-4.

Gunnhildur B. Elíasdóttir, Sigurður J. Hreinsson og Jónas Þór Birgisson gera grein fyrir atkvæði sínu.

4.Ráðning sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs - 2019080061

Tillaga 1078. fundar bæjarráðs frá 14. október sl., um að taka tillögu að ráðningu sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs til afgreiðslu. Óskað er eftir því að afgreiðslan fari fram fyrir luktum dyrum.
Kristján Þór Kristjánsson tekur aftur við stjórn fundarins kl. 18:33.

Til máls tóku: Kristján Þór Kristjánsson, forseti, Marzellíus Sveinbjörnsson, Hafdís Gunnarsdóttir, Arna Lára Jónsdóttir og Sigurður J. Hreinsson.

Marzellíus Sveinbjörnsson yfirgefur fundinn undir þessum lið þar sem hann telur sig vanhæfan. Elísabet Samúelsdóttir mætir til fundarins sem varamaður Marzellíusar Sveinbjörnssonar.

Forseti ber tillöguna upp til atkvæða.

Tillagan samþykkt 9-0 og bæjarstjóra falið að ganga frá ráðningu og upplýsa umsækjendur um ákvörðun bæjarstjórnar.

Fundi slitið - kl. 18:38.

Er hægt að bæta efnið á síðunni?