Bæjarráð

Fundargerðir hverfisráða Ísafjarðarbæjar, auk fundargerða fastanefnda, starfshópa og annarra nefnda sveitarfélagsins af fundum sem haldnir voru til og með ársins 2017 má finna undir aðrar fundargerðir
1200. fundur 13. júní 2022 kl. 08:10 - 09:45 í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði
Nefndarmenn
  • Gylfi Ólafsson formaður
  • Nanný Arna Guðmundsdóttir varaformaður
  • Kristján Þór Kristjánsson aðalmaður
  • Jóhann Birkir Helgason áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Bryndís Ósk Jónsdóttir bæjarritari
  • Arna Lára Jónsdóttir bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Bryndís Ósk Jónsdóttir bæjarritari
Dagskrá

1.Heildræn árangursstjórnun í fjármálum - 2022060019

Lagður fram tölvupóstur Magnúsar Kristjánssonar f.h. KPMG, dagsettur 11. maí 2022, ásamt verkefnatillögu KPMG um árangursstjórnun í fjármálum Ísafjarðarbæjar til samþykktar, auk draga að samningi um verkefnið.

Róbert Reynisson og Svanbjörn Thoroddsen mættu til fundar við bæjarráð í gegnum fjarfundabúnað til umræðu um verkefnistillöguna.
Bæjarráð telur að mikilvægt sé að endurskipuleggja og bæta fjárhag sveitarfélagsins, og leggur til við bæjarstjórn að samþykkja að ganga til samninga við KPMG um árangursstjórnun í fjármálum Ísafjarðarbæjar, í samræmi við verkefnatillögu KPMG, og á grundvelli framlagðs samnings, með þeim breytingum sem ræddar voru á fundinum, en bæjarstjóra var falið að vinna þær frekar.
Gestir yfirgáfu fund kl. 8:30.

Gestir

  • Róbert Ragnarsson, f.h. KPMG - mæting: 08:10
  • Svanbjörn Thoroddsen, f.h. KPMG - mæting: 08:10

2.Viðaukar við fjárhagsáætlun 2022 - viðauki 7 - 2022040056

Lagður fram til samþykktar viðauki 7 við fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar 2022 vegna biðlauna fyrrverandi bæjarstjóra, samstarfsverkefnis við KPMG um heildræna árangursstjórnun í fjármálum, tekjubreytingar í samræmi við nýja áætlun Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, svo og smærri tilfærslur.

Áhrif viðaukans á rekstrarniðurstöðu samstæðu Ísafjarðarbæjar er 0,- kr.
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að samþykkja viðauka 7 við fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar 2022, vegna breytinga áætlun Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, samstarfsverkefnis við KPMG um heildræna árangursstjórnun í fjármálum og biðlauna fyrrverandi bæjarstjóra.

3.Viðaukar við fjárhagsáætlun 2022 - viðauki 8 - 2022040056

Lagður fram til samþykktar viðauki 8 við fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar 2022 vegna snjómoksturs ársins 2022.

Áhrif viðaukans á rekstrarniðurstöðu samstæðu Ísafjarðarbæjar er aukning kostnaðar um kr. 40 m.kr.,-
Áhrif viðaukans á sveitasjóð A hluta er aukinn kostnaður kr. 40.000.000,- og er því rekstrarhalli að hækka úr 355.522.602 í kr. 395.522.602,-.
Áhrif viðaukans á samantekin A og B hluta er aukinn kostnaður kr. 40.000.000,- eða lækkun rekstrarafgangs úr kr. 22.672.659 í rekstrarhalla kr. 17.327.341,
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að samþykkja viðauka 8 við fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar 2022, vegna snjómoksturs ársins 2022.

4.Dagvist aldraðra - samstarf Bolungarvikur og Velferðarsviðs Ísafjarðarbæjar - 2022010038

Lagður fram til samþykktar þjónustusamningur Ísafjarðarbæjar við Bolungarvíkurkaupstað þess efnis að allt að fjórum einstaklingum með lögheimili í Bolungarvík verði úthlutað dagdvalarplássi á dagdeild Hlífar í Ísafjarðarbæ, dags. 31. mars 2022, en gildistími er 1. mars 2022 til 31. desember 2022.
Bæjarráð samþykkir þjónustusamning Ísafjarðarbæjar við Bolungarvíkurkaupstað varðandi dagdvöl á Hlíf.

5.Aðstaða fyrir ferðamenn - 2021070009

Á 1162. fundi bæjarráðs, þann 19. júlí 2021, var lagt fram minnisblað Bryndísar Óskar Jónsdóttur, sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs, dags. 16. júlí 2021, vegna aðstöðu fyrir ferðamenn á Ísafirði. Bæjarráð fól bæjarstjóra að ganga til samninga við Edinborgarhúsið á þeim forsendum sem fram koma í minnisblaði bæjarritara, dags. 16. júlí 2021. Hefur verið unnið að málinu veturinn 2021-2022.

Er nú lagður fram til kynningar undirritaður samningur um salernisaðstöðu fyrir ferðamenn og almenning í Edinborgarhúsinu við Aðalstræti 7 á Ísafirði, dags. 27. maí 2022, en samningurinn gildir frá 1. maí 2022 til 31. október 2022.
Bæjarráð samþykkir samning Ísafjarðarbæjar um salernisaðstöðu fyrir ferðamenn og almenning í Edinborgarhúsinu við Aðalstræti 7 á Ísafirði.
Nanný Arna Guðmundsdóttir vék af fundi undir þessum lið kl. 9:00.

6.Styrkbeiðni vegna keppnishalds - Cycling Westfjords - 2022060006

Lagður fram tölvupóstur frá Cycling Westfjords, dagsettur 25. maí 2022, þar sem óskað er eftir styrk til keppnishalds í sumar, auk minnisblaðs Bryndísar Óskar Jónsdóttur, dags. 10. júní 2022, vegna málsins.
Bæjarráð samþykkir styrkveitingu til Cyckling Westfjords, á þann hátt að lánaðar verði níu fánastangir á keppnistíma, en hafnar styrkveitingu vegna starfsmannakostnaðar.
Nanný Arna kom aftur til fundar kl. 9:02
Axel R. Överby og Smári Karlsson komu til fundar kl. 9:02.

7.Tjöruhúsið leigusamningur 2022-2027 - 2022060056

Á 1185. fundi bæjarráðs, þann 31. janúar 2022, var lagður fram tölvupóstur Hauks Sigurbjörns Magnússonar f.h. Tjöruhússins, dagsettur 26. janúar 2022, þar sem óskað var eftir endurnýjun leigusamnings milli Ísafjarðarbæjar og rekstraraðila Tjöruhússins. Leigusamningur milli Ísafjarðarbæjar og Tjöruhússins ehf., dags. 1. apríl 2018, jafnframt lagður fram til kynningar. Bæjarráð fól bæjarstjóra að vinna að endurskoðun leigusamningsins og leggja aftur fyrir bæjarráð.

Er nú lagður fram til samþykktar samningur Ísafjarðarbæjar við Tjöruhúsið ehf. um leigu á Tjöruhúsinu í Neðstakaupstað á Ísafirði undir veitingarekstur, en gildistími samningsins er 1. júní 2022 til og með 31. maí 2027.
Bæjarráð frestar afgreiðslu málsins og felur bæjarstjóra að vinna málið áfram.

Gestir

  • Smári Karlsson, verkefnastjóri á umhverfis- og eignasviði - mæting: 09:02
  • Axel R. Överby, sviðsstjóri umhverfis- og eignasviðs - mæting: 09:02

8.Brimbrjótur, Suðureyri - umsókn um lóð fyrir atvinnuhúsnæði - 2019120040

Lagður fram til samþykktar viðauki við afnotsamning Ísafjarðarbæjar og Fisherman ehf. um afnot af landi til uppbyggingar við Brjótinn á Suðureyri, ásamt minnisblaði Smára Karlssonar, verkefnastjóra á umhverfis- og eignasviði, dags. 10. júní 2022, vegna málsins. Í viðaukanum eru ákvæði um að lengja í framkvæmdatíma um eitt ár og samþykkt landeiganda á ósk verktaka um framsal réttinda og skyldna til dótturfélags.
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að samþykkja viðauka við afnotasamning Ísafjarðarbæjar og Fisherman ehf. um afnot af landi til uppbyggingar við Brjótinn á Suðureyri.

9.Aðgengisfulltrúi Ísafjarðarbæjar - 2022060065

Lagður fram tölvupóstur Guðjóns Sigurðssonar, verkefnastjóra Örykjabandalags Íslands, dags. 7. júní 2022, auk fylgigagna, þar sem óskað er eftir að Ísafjarðarbær tilnefni aðgengisfulltrúa sveitarfélagsins.
Bæjarráð tilnefnir Þóru Marý Arnórsdóttur, deildarstjóra málefna fatlaðra, sem aðgengisfulltrúa sveitarfélagsins.
Axel og Smári yfirgáfu fund kl. 9:20.

10.Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga 2022 - 2022020099

Lagður fram til kynningar tölvupóstur Vals Rafns Halldórssonar, dags. 10. júní 2022, þar sem upplýst er um að landsþing Sambandsins verði haldið á Akureyri 28.-30. september 2022. Nauðsynlegt er að skrá gistingu fulltrúa við fyrsta tækifæri.

Á 1199. fundi bæjarráðs þann 9. júní 2022 var lagt fyrir bæjarstjórn að kjósa landsþingsfulltrúa fyrir hönd Ísafjarðarbæjar, og er fyrirhugað að það verði gert 16. júní 2022.
Lagt fram til kynningar.

11.Stjórn Nave 2022-2026 - 2022060066

Lagt fram erindi Smára Haraldssonar, stjórnarformanns Náttúrustofu Vestfjarða, dags. 3. júní 2022, þar sem óskað er eftir að sveitarfélög tilnefni fulltrúa á samráðsfund Nave sem haldinn er í september nk. og tilnefna fulltrúa í stjórn Nave, sem kosinn verður á samráðsfundinum.
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að tilnefna fulltrúa á samráðsfund Náttúrustofu Vestfjarða og fulltrúa í stjórn Stofunnar, og felur bæjarstjóra að mæta sem fulltrúa Ísafjarðarbæjar á samráðsfund Nave.

12.Fundargerðir og ýmis mál 2022 - Náttúrustofa Vestfjarða - 2022060016

Lagður fram til kynningar ársreikningur Náttúrustofu Vestfjarða fyrir árið 2021.
Lagt fram til kynningar.

13.Fundargerðir heilbrigðisnefndar og ýmis erindi 2022 - 2022020094

Lagður fram til kynningar tölvupóstur Antons Helgasonar f.h. Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða, dagsettur 13. maí 2022, ásamt fundargerð 138. fundar heilbrigðisnefndar Vestfjarðasvæðis frá 11. maí og bréfi Fjórðungssambands Vestfjarða frá 13. maí þar sem áréttað er að kjósa þurfi nýja heilbrigðisnefnd á næsta Fjórðungsþingi.
Lagt fram til kynningar.

14.67. Fjórðungsþing Vestfirðinga 2022 - 2022030119

Lagt fram erindi Fjórðungssambands Vestfirðinga, dags. 2. júní 2022, þar sem lagt er fyrir Ísafjarðarbæ að kjósa tvo fulltrúa í fjárhagsnefnd Fjórðungssambandsins, og tvo fulltrúa til vara, svo og einn fulltrúa í kjörnefnd Fjórðungssambandsins.
Bæjarráð, að höfðu samráði við alla stjórnmálaflokka bæjarstjórnar, tilnefnir Jóhann Birki Helgason og Elísabetu Samúelsdóttur sem fulltrúa Ísafjarðarbæjar í fjárhagsnefnd Fjórðungssambands Vestfirðinga, og að Gylfi Ólafsson og Nanný Arna Guðmundsdóttir verði varafulltrúar þeirra. Þá tilnefnir bæjarráð Örnu Láru Jónsdóttur sem fulltrúa í kjörnefnd Fjórðungssambandsins.

15.Frumvörp og þingsályktunartillögur til umsagnar 2022 - 2022010031

Lagður fram tölvupóstur Ástríðar Jóhannesdóttur, framkvæmdastjóra Landskjörstjórnar, dagsettur 30. maí 2022, þar sem vakin er athygli á að dómsmálaráðuneyti hefur birt á samráðsgátt stjórnvalda áform um breytingu á kosningalögum. Frestur til að senda inn ábendingar og athugasemdir er til 1. júlí n.k.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að yfirfara frumvarp um breytingar á kosningalögum og kanna hvort tilefni sé til að veita umsögn f.h. Ísafjarðarbæjar, og leggja þá fyrir bæjarráð til samþykktar.

16.Ályktun stjórnar Félags atvinnurekenda vegna fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði - 2022060017

Lagt fram bréf Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, dagsett 31. maí 2022, með ályktun stjórnar FA vegna fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði.
Lagt fram til kynningar. Bæjarráð þakkar brýninguna.

17.Lánsumsókn til Ofanflóðasjóðs 2022 v. 2019-2021 - 2022030101

Lagt fram til kynningar erindi Sigríðar Auðar Arnardóttur og Hafsteins Pálssonar, f.h. umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra, dags. 9. júní 2022, þar sem tilkynnt er að Ofanflóðanefnd hafi fjallað um erindi Ísafjarðarbæjar, dags. 22. mars 2022, þar sem óskað er láns úr Ofanflóðasjóði, vegna framkvæmda við ofanflóðavarnir í Ísafjarðarbæ árin 2019-2021, en um er að ræða lán vegna áfallins kostnaðarhluts sveitarfélagsins að fjárhæð 30 m.kr. Upplýst er að nefndin hefur samþykkt að verða við ósk um lán, með fyrirvara um upphæð láns þar til bókhaldsgögn hafa verið yfirfarin.
Lagt fram til kynningar.

18.Fundargerðir og ýmis erindi - BsVest 2022 - 2022030071

Lagður fram tölvupóstur Jóns Hróa Finnssonar, starfandi framkvæmdastjóra Byggðasamlags Vestfjarða um málefni fatlaðs fólks, dags. 7. júní 2022, ásamt fundarboði á aðalfund byggðasamlagsins sem haldinn verður 5. júlí 2022, og samþykktum byggðasamlagsins frá árinu 2018.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að mæta til fundarins f.h. Ísafjarðarbæjar. Bæjarráð hvetur jafnframt bæjarfulltrúa til að mæta til fundarins.

19.Úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 1077/2022 - 2020070013

Lagður fram til kynningar úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 1077/2022, vegna afgreiðslu Ísafjarðarbæjar á beiðni um gögn vegna jarðarinnar Látra í Aðalvík.

Málið var kært til nefndarinnar í ágúst 2021 á grundvelli þess að afgreiðsla Ísafjarðarbæjar væri ófullnægjandi, en í febrúar 2019 óskaði kærandi eftir tilteknum gögnum frá Ísafjarðarbæ, í átta viðaukum. Var erindinu svarað í maí 2019 og tiltekin gögn afhent. Í júní 2019 óskaði kærandi að nýju eftir gögnum vegna sama máls, í átta töluliðum, en erindið var ítrekað í júlí 2019. Var erindinu svarað í maí 2020.

Úrskurðarnefndin taldi að skort hefði verulega á að tekin hafi verið rökstudd afstaða til gagnabeiðni kæranda. Þá hefði beiðni kæranda ekki fengið efnislega meðferð og var hin kærða ákvörðun þannig haldin efnislegum annmörkum sem eru að mati nefndarinnar svo verulegir að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi og leggja fyrir Ísafjarðarbæ að taka málið til nýrrar og lögmætar meðferðar.

Úrskurðaði nefndin því að beiðni A, f.h. Miðvíkur ehf., dags. 23. júní 2019, væri vísað til Ísafjarðarbæjar til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.

https://www.stjornarradid.is/gogn/urskurdir-og-alit-/stakur-urskurdur/2022/06/09/1077-2022.-Urskurdur-fra-1.-juni-2022/
Lagt fram til kynningar.


20.Úrskurður yfirfasteignamatsnefndar nr. 2/2022 - 2022030064

Lagður fram til kynningar úrskurður yfirfasteignamatsnefndar nr. 2/2022, vegna álagningar fasteignaskatts á fasteignina Y, Ísafjarðarbæ, fyrir árið 2022, auk kröfu um að nefndin upplýsti um meðeigendur jarðarinnar.

Í úrskurði yfirfasteignamatsnefndar segir að af gögnum málsins virðist það óumdeilt að kærandi sé þinglýstur eigandi að 50% eignarhluta í jörðinni Y, Ísafjarðarbæ, en 50% eignarhluti jarðarinnar sé þinglýst eign dánarbús. Þó virðast ekki liggja fyrir upplýsingar um skipti á umræddu dánarbúi né í hlut hvaða erfingja helmingur jarðarinnar kom. Í lögum nr. 4/1995 er ekki kveðið á um hver réttarstaða sveitarfélaga er gagnvart hverjum og einum eiganda sem eiga fasteign í sérstakri sameign þegar kemur að innheimtu fasteignaskatts. Það er álit yfirfasteignamatsnefndar að við þessar aðstæður gildi sú almenna regla eignarréttar, að hafi með löglegum hætti verið stofnað til skuldbindinga vegna sameignar gagnvart þriðja manni, sé ábyrgð sameigenda gagnvart honum óskipt. Af því leiðir að þótt hver og einn sameigandi beri réttindi og skyldur í samræmi við eignarhlutföll sín geti hann eigi að síður borið fulla ábyrgð á skuldbindingum vegna sameignarinnar, en sameigandi sem greiði kröfu í heild eða að hluta geti eftir atvikum átt endurkröfu á hendur öðrum sameigendum í samræmi við eignarhlutföll þeirra í sameigninni. Sameigendur, sem eigi fasteign í sérstakri sameign, beri þannig óskipta ábyrgð á greiðslu fasteignaskatts sem lagður sé á fasteignina.

Með hliðsjón af þessu er það álit yfirfasteignamatsnefndar að sveitarfélaginu hafi verið heimilt að krefja kæranda um greiðslu álagðs fasteignaskatts vegna fasteignarinnar að Y, Ísafjarðarbæ, og sú ákvörðun staðfest. Kröfu kæranda, X, um að yfirfasteignamatsnefnd geri sitt ýtrasta til að upplýsa hvaða lögpersónur séu meðeigendur kæranda að jörðinni Y, Ísafjarðarbæ, er vísað frá nefndinni.

21.Ársreikningur Stjórnsýsluhúss 2021 - 2022050029

Lagður fram ársreikningur Stjórnsýsluhússins á Ísafirði fyrir árið 2021.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 09:45.

Er hægt að bæta efnið á síðunni?