Bæjarráð

Fundargerðir hverfisráða Ísafjarðarbæjar, auk fundargerða fastanefnda, starfshópa og annarra nefnda sveitarfélagsins af fundum sem haldnir voru til og með ársins 2017 má finna undir aðrar fundargerðir
1090. fundur 21. janúar 2020 kl. 08:05 - 10:16 í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði
Nefndarmenn
  • Arna Lára Jónsdóttir aðalmaður
  • Marzellíus Sveinbjörnsson varaformaður
  • Daníel Jakobsson formaður
Starfsmenn
  • Þórdís Sif Sigurðardóttir bæjarritari
  • Tinna Ólafsdóttir upplýsingafulltrúi
Fundargerð ritaði: Tinna Ólafsdóttir upplýsingafulltrúi
Dagskrá

1.Snjóflóð í Önundarfirði og Súgandafirði 14.1.2020 - 2020010042

Umræður um snjóflóðin í Önundarfirði og Súgandafirði 14.01.2020 og viðbrögð við náttúruhamförunum.
Umræður fóru fram. Bæjarráð færir öllum viðbragðs- og björgunaraðilum þakkir fyrir ómetanlegt starf og þakkar einnig sýndan samhug frá landsmönnum öllum. Sérstök ánægja er með þá fyrirhyggju Landhelgisgæslunnar að staðsetja varðskipið Þór á svæðinu gagngert til að bregðast við.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar leggur til við bæjarstjórn að óskað verði eftir við stjórn Ofanflóðasjóðs að gert verði nýtt hættumat fyrir Flateyri og gerð verði úttekt á möguleikum á endurbótum á varnargörðum ofan Flateyrar. Einnig að skipuð verði hættumatsnefnd fyrir öll hættumöt í Ísafjarðarbæ og þau endurskoðuð. Jafnframt að óskað verði eftir því að Ofanflóðasjóður taki þátt í að verja hafnarmannvirki á Flateyri fyrir snjóflóðum í ljósi mikilvægis mannvirkisins, bæði vegna öryggishlutverks hafnarinnar og að varnarmannvirkin beina snjóflóðum inn á svæðið og auki þar með áhættu þar.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að óskað verði eftir því við Vegagerðina að endurskoða sjóvarnir á Suðureyri.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að fara í öryggisáhættumat fyrir alla byggðarkjarna sveitarfélagsins í samráði við heimafólk og viðbragðsaðila þar sem mögulegar áhættur verði dregnar upp og viðbrögð við þeim kortlögð og skráð.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að óskað verði eftir við samgönguyfirvöld að komið verði upp upplýstum og upphituðum þyrlupalli á Ísafjarðarflugvelli og aðstöðu fyrir þyrlu á vellinum til að mögulegt sé að þyrla verði staðsett á svæðinu til að stytta viðbragðstíma. Einnig óskar bæjarráð eftir því að skoðaður verði möguleiki á því að þyrla sé staðsett á svæðinu þegar spáð er aftakaveðri eins og var í síðustu viku.

Mikið starf er fyrir höndum að byggja upp atvinnulíf á Flateyri og bæjarráð væntir þess að fá stuðning frá stjórnvöldum í því verkefni. Til að mynda þarf að treysta Lýðskólann í sessi með föstum fjárframlögum auk þess sem nauðsynlegt er að byggja upp útgerð á ný á Flateyri.
Harpa og Tómas yfirgefa fundinn kl. 09:20

Gestir

  • Harpa Grímsdóttir, Veðurstofu Íslands, Ofanflóðadeild - mæting: 08:05
  • Tómas Jóhannesson, Veðurstofu Íslands, Ofanflóðadeild - mæting: 08:05

2.Náttúruhamfaratrygging Íslands vegna tjóns á Flateyri 2020 - 2020010059

Lagt fram minnisblað bæjarritara um Náttúruhamfaratryggingu Íslands og tjón á Flateyri.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að skrifa umsögn um málið með hliðsjón af umræðum á fundinum og skipulagsákvæðum.
Bæjarráð vísar málinu til bæjarstjórnar þar sem bæjarstjórn fer með skipulagsvald í sveitarfélaginu og ekki er gefinn tími til að fjalla um málið í skipulagsnefnd.

3.Verkefni Ofanflóðasjóðs í landi Ísafjarðarbæjar - 2019100085

Kynntur er tölvupóstur Sigríðar Kristjánsdóttur, f.h. framkvæmdastjóra Vestfjarðastofu, dags. 15. janúar sl., ásamt drögum að greinargerð til átakshóps ráðuneyta um innviðamál.
Tölvupóstur lagður fram til kynningar.

4.Viðaukar við fjárhagsáætlun 2020 - 2020010031

Lagður fram viðauki 1 við fjárhagsáætlun 2020. Um er að ræða 10 m.kr. aukin kostnað vegna Ísland ljóstengt. Þessum kostnaði er mætt með lækkun á ófyrirséðum kostnaði um 5,5 m.kr og aukningu á tekjum Upplýsingamiðstöðvar um 4,5 m.kr. Áhrif viðaukans á rekstrarniðurstöður samantekins A og B hluta Ísafjarðarbæjar er því kr 0,- eða óbreytt afkoma kr. 168.000.000,-. Áhrifin á sveitasjóð A hluta er einnig kr. 0,- og því óbreytt afkoma kr. 29.000.000,-.
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar að samþykkja viðauka 1 við fjárhagsáætlun 2020.

Gestir

  • Edda María Hagalín, fjármálastjóri - mæting: 10:08

5.Viðaukar við fjárhagsáætlun 2020 - 2020010031

Lagður fram viðauki 2 við fjárhagsáætlun 2020. Um er að ræða 1,1 m.kr. aukinn launakostnað í leikskólanum Grænagarði. Þessum kostnaði er mætt með lækkun á ófyrirséðum kostnaði um 1,1 m.kr. Áhrif viðaukans á rekstrarniðurstöður samantekins A og B hluta Ísafjarðarbæjar er því kr 0,- eða óbreytt afkoma kr. 168.000.000,-. Áhrifin á sveitasjóð A hluta er einnig kr. 0,- og því óbreytt afkoma kr. 29.000.000,-.
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar að samþykkja viðauka 2 við fjárhagsáætlun 2020.
Edda María yfirgefur fundinn kl. 10:12

6.Undanþágur verkfallsheimilda 2020 - 2020010012

Lagt er fram minnisblað Baldurs Inga Jónassonar, mannauðsstjóra dags. 17. janúar 2020, þar sem óskað er eftir staðfestingu bæjarráðs Ísafjarðarbæjar um lista yfir þá starfsmenn sveitarfélagsins sem ekki hafa verkfallsheimild.
Bæjarráð staðfestir framlagðan lista.

7.Ársskýrslur 2017-2020 - Slökkvilið Ísafjarðarbæjar - 2018030014

Lögð er fram til kynningar ársskýrsla slökkviliðs Ísafjarðarbæjar, dags. 31. desember 2019, unnin af Þorbirni J. Sveinssyni, fráfarandi slökkviliðsstjóra.
Ársskýrsla slökkviliðs Ísafjarðarbæjar lögð fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 10:16.

Er hægt að bæta efnið á síðunni?