Vinnslutillaga nýs deiliskipulags vegna Eyrarkláfs
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar birtir til kynningar vinnslutillögu á nýju deiliskipulagi Eyrarkláfs, skv. II. mgr. 40. gr. skipulagslaga 123/2010.
Deiliskipulagstillagan nær til afþreyingar- og ferðamannasvæðis við rætur Eyrarfjalls sem teygir sig upp fjallshlíðina og á topp fjallsins. Eyrarkláfur ehf. áformar að byggja upp kláf en framkvæmdin felst í að útbúa bílastæði fyrir farþega kláfsins, upphafsstöð kláfsins í hlíð Eyrarfjalls og endastöð á toppi fjallsins með einu millimastri á Gleiðarhjalla. Fyrirhugað er að kláfar verði á sitthvorum enda og gangi á móti hvorum öðrum. Á toppi Eyrarfjalls verður gert ráð fyrir þjónustubyggingu og hóteli á seinni stigum uppbyggingar.
Gerð verður breyting á gildandi deiliskipulagi fyrir hlíðina neðan Gleiðarhjalla – ytri hluta frá árinu 2010 og hluti þess felldur inn í nýtt deiliskipulag Eyrarkláfs.
Markmið deiliskipulags er að útfæra nánari stefnu og ákvæði fyrir Eyrarkláf svo framkvæmdin og rekstur kláfsins valdi eins lítilli röskun á umhverfinu eins og kostur er, bæði til lengri og skemmri tíma. Tilgangur framkvæmdarinnar er að skapa möguleika fyrir fólk til að njóta útsýnis frá toppi Eyrarfjalls og þróa svæðið sem útivistar- og afþreyingarsvæði.
Samhliða deiliskipulagi þessu er unnin breyting á aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar þar sem skilgreindir verða nýir landnotkunarreitir afþreyingar- og ferðamannasvæðis (AF1) og verslunar og þjónustu (V8) í stað óbyggðra og opinna svæða.
Líkleg áhrif af stefnu deiliskipulagsins á umhverfið eru metin skv. lögum um umhverfismat fram-kvæmda og áætlana nr. 111/2021 og eru sett fram í umhverfismatsskýrslu í kafla 4.
Umsagnir og athugasemdir í skipulagsferlinu eru aðgengilegar í gegnum Skipulagsgátt, mál nr. 173/2025. Hægt er að skila ábendingum við tillögugerðina, rafrænt um skipulagsgáttina eða til skipulagsfulltrúa Ísafjarðarbæjar, skipulag@isafjordur.is, til og með 10. febrúar 2026, þar sem einnig er hægt að fá nánari upplýsingar og leiðbeiningar. Vinnslutillagan verður einnig aðgengileg á uppdrætti og greinargerð með forsendum breytinga ásamt umhverfismati, á bæjarskrifstofum Hlíf 1, Torfnesi og hér á vefnum.
Opið hús verður haldið á Edinborgarhúsinu á Ísafirði, mánudaginn 26. janúar 2026 kl. 17:00 til 19:00.
Vakin er athygli á því að aðeins er um að ræða vinnslutillögu á nýju deiliskipulagi en ekki formlega auglýsingu.
Skipulagsfulltrúi Ísafjarðarbæjar