Vika 9: Dagbók bæjarstjóra 2023

Guðmundur Ari, bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi, Hildur Rós, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði, og Arna Lára…
Guðmundur Ari, bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi, Hildur Rós, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði, og Arna Lára á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar.

Dagbók bæjarstjóra dagana 27. febrúar-5. mars 2023.

Vikan einkenndist af miklum akstri, fjórar ferðir milli Ísafjarðar og Reykjavíkur. Góðir ferðafélagar á öllum leggjum og sumarfæri gerðu þetta bærilegt.

Vikan hefst í bæjarráði og þar ræddum við hin ýmsu mál að venju. Fastur liður á dagskrá bæjarráðs síðustu vikna hafa verið umræður um gervigras á Torfnesvelli. Þar erum við að safna saman í sarpinn nægjanlega miklum upplýsingum til að geta tekið upplýsta ákvörðun um ráðstöfun fjármagns í þessa framkvæmd. Þessa vikuna ræddum við minnisblað Axels Överby, sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs, um upphitun vallarins, og þá möguleika sem við höfum í þeim efnum. Þessar upplýsingar þurfa að liggja fyrir svo við getum ákveðið hvað á að fara í útboðið.

Þær ánægjulegu fréttir bárust okkur að forsætisráðuneytið hefur orðið við beiðni Ísafjarðarbæjar að framlengja Flateyrarverkefnið um eitt ár. Á þessum tímamótum ákvað verkefnisstjórinn okkar, Hjörleifur Finnsson, að kominn væri tími að annar einstaklingur tæki við keflinu. Hann er þó ekki að fara alveg strax og við njótum starfskrafta hans næstu vikurnar en þegar er búið að auglýsa starfið laust til umsóknar.


Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra.

Snemma á þriðjudagsmorgun keyrði ég til Reykjavíkur ásamt Sirrý og Aðalsteini, starfsmönnum Vestfjarðastofu, þar sem útséð var að yrði flogið. Tilefnið var meðal annars að sitja kynningarfund matvælaráðuneytisins á nýrri skýrslu sem alþjóðlega ráðgjafafyrirtækið Boston Consulting Group gerði um stöðu og framtíð lagareldis á Íslandi. Skýrslan er 284 blaðsíður en mjög vel framsett og áhugaverð. Niðurstaðan er sú að eldið geti orðið að nýrri efnahagslegri stoð á Íslandi. Það kemur einnig fram að mikil tækifæri geti falist í að byggja upp lagareldi á Íslandi en gera þurfi breytingar á stjórnsýslu og regluverki til að styðja við vöxt greinarinnar svo hún geti orðið sjálfbær. Ég var sérstaklega ánægð með að BCG skuli taka undir málflutning fiskeldissveitarfélaga að tekjur af greininni verði að renna beint til sveitarfélaganna. Það væri gert til auka fyrirsjáanleika og efla fjárfestingargetu sveitarfélaga í innviðum fyrir greinina. Þetta myndi skipta sköpum fyrir sveitarfélögin.

Ólafur Þór, Aðalsteinn, Þórdís, Sirrý, Jón Páll og Arna Lára á Austurvelli.
Ólafur Þór, Aðalsteinn, Þórdís, Sirrý, Jón Páll og Arna Lára á Austurvelli.

Það var vestfirsk sveit sem var kölluð fyrir stjórnsýslu- og eftirlitsnefnd Alþingis i vikunni til að ræða skýrslu ríkisendurskoðanda um stjórnsýslu fiskeldis. Auk mín voru það Þórdís Sif bæjarstjóri Vesturbyggðar, Ólafur Þór sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps og Jón Páll bæjarstjóri Bolungarvíkur, ásamt starfsmönnum Vestfjarðastofu. Það var gott að eiga hreinskiptið samtal við nefndina um viðfangsefni skýrslunnar en öll fiskeldissveitarfélög á Vestfjörðum hafa ályktað um efni hennar, og þarna gafst kærkomið tækifæri til að koma því til skila.

Arna Lára, Jón Árnason, forseti bæjarstjórnar í Vesturbyggð, og Einar Kristinn Guðfinnsson.
Arna Lára, Jón Árnason, forseti bæjarstjórnar í Vesturbyggð, og Einar Kristinn Guðfinnsson

Eftir skottúr til Reykjavíkur var komið að fundarherferð starfshóps um orkumál og þjóðgarð á Vestfjörðum. Við funduðum með fulltrúum sveitarfélaga á norðanverðum Vestfjörðum; Bolungarvík, Súðavíkurhreppi og Ísafjarðarbæ og fórum yfir þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir í orkumálum og hvernig við getum látið þjóðgarð á Vestfjörðum verða að veruleika. Afar gagnlegir fundir og gott að finna samhljóm sveitastjórnarmanna. Við Einar Kristinn og Jón ásamt Kjartani starfsmanni frá umhverfis-, orku- og auðlindaráðuneytinu munum svo eiga fundi með öðrum sveitarstjórnum í næstu viku.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar fundaði líka í vikunni. Þar ræddum við lánsumsókn til Lánasjóðs sveitarfélaga. Það er tekið til að fjármagna framkvæmdir ársins og afborganir lána. Við erum með háar afborganir á lánum næsta árið sem hefðu átt að léttast eftir það, því miður er verðbólgan og óvissa í efnahagsmálum ekki að hjálpa til í rekstri skuldsetts sveitarfélags.

Afsal af Gramsverslun á Þingeyri til Fasteignafélags Þingeyrar var samþykkt í bæjarstjórn. Við bindum miklar vonir við að húsið verði endurbyggt og verði bæjarprýði.

Ég átti fund með Samúel frá Eflu vegna rakavandamála í Grunnskólanum á Suðureyri, ásamt Hrönn skólastjóra, Axel og Hafdísi, sviðsstjórum bæjarins. Því miður er enn að finnast mygla í skólanum. Boðað hefur verið til upplýsinga- og samráðsfundar með grunnskólaforeldrum á Suðureyri síðdegis 6. mars. Þetta er nú meiri plágan, þessi mygla, sem herjar helst á skóla landsins.

Vikunni lauk ég svo með því að sitja kröftugan flokksstjórnarfund Samfylkingarinnar sem haldinn var í Hafnarfirði. Þar var ég einn af starfsmönnum fundarins ásamt þeim Guðmundi Ara bæjarfulltrúa á Seltjarnarnesi og Hildi Rós bæjarfulltrúa í Hafnarfirði auk Alexöndru Ýrar. Þar var afhjúpað nýtt merki Samfylkingarinnar sem er rós í anda systurflokka Samfylkingarinnar á Norðurlöndunum. Fundurinn fór vel fram, góðar og málefnalegar umræður og almenn gleði.