Vika 37: Dagbók bæjarstjóra 2023

Dagbók bæjarstjóra dagana 11.-17. september 2023.

Líðandi vika bauð upp mjög fjölbreytta dagskrá, góð blanda af fundum, viðburðum og úttektum. Sem fyrr byrjaði vikan í bæjarráði þar sem við ræddum sex mánaða uppgjör bæjarins. Við erum mjög sátt með niðurstöðuna og værum hoppandi kát ef það væri ekki fyrir 133 m.kr. umfram áætlun í verðbætur vegna verðbólgu. Hærri rekstrartekjur, lægri rekstrarkostnaður og lægri launakostnaður en áætlanir gerðu ráð fyrir, allt í rétta átt. Bæjarráð heimilaði útboð á tveimur verkefnum, en setja á leiktæki niður á gamla gæsló á Ísafirði og setja niður hreystitæki á túnið sunnan megin við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Fyrr í sumar voru sett niður hreystitæki við sundlaugina á Þingeyri. Einnig var rætt um aðgerðir til að auka umferðaöryggi við Grunnskólann á Suðureyri.

Bæjarráð óskaði eftir fundi með Stein Ove Tveiten framkvæmdastjóra Arctic Fish sem var auðsótt. Tilefnið var að ræða slysasleppingar sem urðu úr kví fyrirtækisins í Patreksfirði sem er áhyggjuefni. Rætt var um upplýsingagjöf fyrirtækisins, viðbrögð þegar svona atburðir gerast og breytingar á verklagi í framtíðinni til að draga út líkum að svona geti gerst.

Fjölmenni var á fundi velferðarsviðs Ísafjarðarbæjar sem haldinn var á Hlíf.
Fjölmenni var á fundi velferðarsviðs Ísafjarðarbæjar sem haldinn var á Hlíf.

Ég fór á fund á Hlíf með starfsmönnum velferðarsviðs. Harpa Stefánsdóttir sem var að taka við stöðu deildarstjóra félagsþjónustu kynnti þjónustu Ísafjarðarbæjar fyrir eldri borgara og Svanlaug Másdóttir öldrunarfulltrúi sagði frá félagsmiðstöð eldri borgara. Troðfullt var út úr dyrum. Hljómsveitin Maraþonmennirnir sem er skipuð þeim Fjölni Ásbjörnssyni og Árna Heiðarssyni tróðu upp og boðið var upp á brauðtertu. Getur ekki klikkað.

 

Með Hrönn, verkefnisstjóra á Flateyri, á Oddanum.

Ég tók vinnustund í Skúrinni á Flateyri. Við Hrönn verkefnisstjóri fórum yfir ýmis verkefni sem eru á hennar borði auk þess sem við tókum smá göngu til að taka út rusl á Oddanum. Eitt fyrirtæki var á fullu að hreinsa upp í kringum sig og mættu önnur fyrirtæki/einstaklingar sem eiga muni/drasl á Oddanum gera slíkt hið sama.

 

 

Það var sameiginlegur fundur Vestfjarðastofu með bæjar- og sveitastjórum á Vestfjörðum. Mesti tíminn fór í að ræða áherslur á fjórðungsþingi sem haldið verður í byrjun október.

 

 

Krakkaveldið, viðburður á barnamenningarhátíðinni Púkanum, á Hrafnseyri.
Krakkaveldið, viðburður á barnamenningarhátíðinni Púkanum, á Hrafnseyri.

Ég tók rúnt á Hrafneyri til að fylgjast með afrakstri vinnusmiðju Krakkaveldisins. Nemendur á miðstigi í grunnskólunum á Þingeyri, Flateyri og Suðureyri höfðu unnið að sýningum um hvernig samfélagið væri ef krakkar réðu. Það væri margt öðruvísi ef þau fengu að ráða, til að mynda væri KFC á Vestfjörðum, það væri ekki boðið upp á soðinn fisk í skólanum, það væru vatnsrennibrautir í sundlaugunum okkar, hærri laun á skíðasvæðinu og það allra besta að það væri ekkert einelti. Svo fátt eitt sé nefnt.

Endurbætur á blokkinni við Sætún 10 á Suðureyri ganga vel.
Endurbætur á blokkinni við Sætún 10 á Suðureyri ganga vel.

Við Axel sviðsstjóri umhverfis- og eignasviðs fórum á smá flakk til að skoða framkvæmdir. Við kíktum á Grunnskólann á Ísafirði og Grunnskólann á Suðureyri, en þar hafa verið umfangsmiklar framkvæmdir síðustu ár vegna myglu. Á Suðureyri hittum við Gabríel sem er að endurnýja og laga blokkina i Sætúni 10. Það er orðið allt annað sjá húsið og það sér fyrir endann á framkvæmdum. Þá komast 12 nýjar íbúðir í gagnið á Suðureyri. Við tókum líka stöðuna á Pollgötublokkinni á Ísafirði en þar er verið að laga þrjár íbúðir vegna raka.

Bæjarstjóri hitti árgang 1959 á Ísafirði þegar þau afhentu bænum bekk til minningar um látin bekkjarsystkini.
Bæjarstjóri hitti árgang 1959 á Ísafirði þegar þau afhentu bænum bekk til minningar um látin bekkjarsystkini.

 

 

Það var árgangsmót hjá 1959 árganginum um helgina. Þau færðu sveitarfélaginu flottan bekk til minningar um látin bekkjarsystkini. Virkilegra falleg gjöf. Bekkurinn verður staðsettur við nýjan göngustíginn við Sundstræti og verður komin eftir nokkrar vikur. Bestu þakkir.

Lýðskólinn á Flateyri var settur um helgina.
Lýðskólinn á Flateyri var settur um helgina.

 

 

Einn skemmtilegast skóli landsins, Lýðskólinn á Flateyri, var settur á laugardaginn með pompi og prakt. Fluttar voru fallegar ræður og Sindri Sveinbjörnsson nemandi í Lýðskólanum tók nokkur lög. Við sama tækifæri voru nemendagarðarnir formlega opnaðir, þeir eru ótrúlega vel heppnaðir og allt svo fínt og flott.