Vika 36: Dagbók bæjarstjóra 2023

Nemendur Lýðskólans á Flateyri kíktu í heimsókn til bæjarstjóra.
Nemendur Lýðskólans á Flateyri kíktu í heimsókn til bæjarstjóra.

Dagbók bæjarstjóra dagana 4.-10 september.

Haustrútínan er komin á sinn stað. Bæjarráð og bæjarstjórn funduðu vikunni og fjárhagsáætlunarvinnan komin á fullt. Þessa daganna er verið að ræða forsendur áætlunarinnar t.a.m. hversu mikilli verðbólgu eigum við gera ráð fyrir, launahækkanir og svo er það stóra málið hversu stórt hlutfall af fasteignamatshækkuninni á að taka inn. Allt veltur þetta á rammanum sem við höfum og þar göngum við út frá að tekjurnar dugi rúmlega fyrir gjöldunum. Yfirleitt er nú skemmtilegast að ræða framkvæmdaáætlunina.

Bæjarráð ræddi ályktun Árneshrepps um vilja til að sameinast öðrum sveitarfélögum. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum þurfa sveitarfélög með undir 1.000 íbúa við kosningar 2026 að leitast við að ná íbúamarkinu innan árs frá kosningum. Það eru tvær leiðir til þess, önnur er að hefja formlegar sameiningarviðræður við annað eða önnur sveitarfélög eða, vinna álit um getu sveitarfélagsins til að sinna lögbundnum verkefnum. En lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga mun miðast við 250 íbúa. Það liggur beinast við Árneshrepp að sameinast aðliggjandi sveitarfélög á Ströndum en bæjarráð vildi opna faðminn fyrir Árneshrepp ef þau kjósa að hefja samræður við okkur.

Það var ýmislegt annað á dagskrá fundarins, meðal annar hugmyndir Matvælaráðuneytisins um breytingar á Fiskeldissjóði. Þær hugmyndir ganga út á að úthluta fjármagni beint til sjókvíaeldissveitarfélaga. Það eru ýmsar leiðir til að skipta fjármagninu milli sveitarfélaganna og snúið að finna réttláta leið fyrir alla. Ráðuneytið leggur til að fjármununum verði skipt eftir fjölda starfa í fiskeldi í sveitarfélögunum. Bókun bæjarráðs var á þá leið að, sú reikniregla sé of einföld fyrir flókna virðiskeðju fiskeldis og taka verði tillit til afleiddra starfa í greininni, enda er óhjákvæmilegt fyrir atvinnugreinina að hafa stuðning af tengdri starfsemi.

Rusl á víðavangi
Samansafn af rusli á Suðurtanga á Ísafirði.

Við Axel sviðsstjóri umhverfis- og eignasviðs áttum fund með heibrigðiseftirlitinu, meðal annars til að ræða hvernig við tökum á númerslausum bílum sem eru mjög víða um sveitarfélagið, flestum til mikils ama. Það er ekki bara númerslausir bílar sem við þurfum á taka á heldur er alls konar drasl á stöðum sem það á ekki heima á. Ástandið er sérstaklega slæmt á hafnarsvæðunum. Við verðum að taka okkur á og hugsa betur um umhverfið okkar. Við erum samfélag sem stærum okkur af umhverfisfsvænni matvælaframleiðslu og hreinni náttúru og þá verðum við að ganga betur um. Smá tuð.

Við Bryndís bæjarritari funduðum með Sædísi Ólöfu formanni hverfisráðsins á Suðureyri. Þar vorum við meðal annars að undirbúa aðalfund hverfisráðsins og íbúafund sem halda á í október. Við ræddum líka hvað á að gera við bátinn á sumarróló sem er orðinn afar illa farinn og hættulegur börnum. Það eru skiptar skoðanir meðal Súgfirðinga hvað er best að gera. Sumir telja að hægt sé að gera við hann, á meðan aðrir vilja fjarlægja hann og fá nýtt leiktæki í staðinn. Þetta er merkilegur bátur og er sá síðasti sem smíðaður var á Suðureyri. Það var Hólmberg Arason sem smíðaði hann eða Beggi Ara eins og hann er yfirleitt kallaður. Ég hef verið þeirra skoðunar að fjarlægja eigi bátinn af leikvellinum en setja mætti hann niður annars staðar, ef fólk vil reyna að endurgera hann.

Ísafjarðarbær er farinn að undirbúa sig undir að vera leiðandi sveitarfélag á Vestfjörðum í barnavernd og málefnum fatlaðra. Lokahnykkurinn er framundan. Bæjarstjórn samþykkti samning sveitarfélaganna í vikunni og eru hin sveitarfélögin ýmist búin að samþykkja hann eða gera það (vonandi) í næstu viku. Þetta ferli er búið að taka 11 mánuði allt frá því að tillaga þess efnis var samþykkt á síðasta Fjórðungsþingi. Ég er sannfærð um að samstarf sveitarfélaganna í þessum málaflokkum eigi eftir að reynast íbúum vel.

Nemendur Lýðskólans kíktu í heimsókn á bæjarskrifstofuna.
Nemendur Lýðskólans kíktu í heimsókn á bæjarskrifstofuna.

Nemendur Lýðskólans kíktu í heimsókn til mín og spurðu mig spjörunum úr um sveitarfélagið og starfið mitt. Það var virkilega gaman að taka á móti þessum flotta hópi. Nemendurnir eru á fullu að koma sér fyrir á Flateyri og á nýju nemendagörðunum. Spennandi vetur framundan hjá þeim.

Háafell bauð gestum að skoða nýjan pramma og þjónustubát.
Háafell bauð gestum að skoða nýjan pramma og þjónustubát.

Háafell tók á móti nýjum pramma og þjónustubát. Til hamingju Háafell! Það er alltaf svo gaman að taka á móti nýjum framleiðslutækjum og sjá uppbygginguna raungerast með þessum hætti. Í vikunni hefur verið mikil umræða um að eldislaxar séu að ganga upp í ár, sem er alveg ferlegt. Ef það á að nást sátt um fiskeldi þá verður að lágmarka slysasleppingar og leita allra leiða til þess að koma í veg fyrir að svona gerist. Bæjarráð á fund með framkvæmdastjóra Arctic Fish í fyrramálið til að ræða þessi mál.

Farsældarrútan var með fund á Ísafirði. Barna- og fjölskyldustofa hefur verið að heimsækja sveitarfélögin í svokallaðri farsældarrútu og nú var komið að okkur. Þarna voru komnir fjölmargir aðilar sem koma að farsæld barna en markmið fundarins var að kynna farsældarlögin og hlutverk Barna- og fjölskyldustofu.

Eljan frá Nesi.
Eljan frá Nesi.

Eljan frá Nesi hefur verið til sýnis á hafnarkantinum á Ísafirði eftir miklar endurbætur en hún er í varðveislu Byggðasafns Vestfjarða.