Verkefninu Öll vötn til Dýrafjarðar lokið

Byggðarþróunarverkefninu Öll vötn til Dýrafjarðar er nú lokið. Verkefnið var rekið undir merkjum Brothættra byggða og var meginmarkmið þess að stöðva viðvarandi fólksfækkun á Þingeyri. Verkefnið hófst árið 2018 og var upphaflega hugsað til þriggja ára en var síðar framlengt til loka árs 2022. Því fylgdi fjármagn sem nýtt hefur verið til úthlutunar styrkja til ýmissa samfélagsverkefna ásamt verkefna sem stuðla að atvinnuuppbyggingu.

Boðað var til íbúafundar á Þingeyri þriðjudaginn 16. maí til að ljúka verkefninu formlega, þar sem kynnt var samantekt og niðurstaða verkefnisins.

Markmið Allra vatna til Dýrafjarða var fjórþætt:

  • Fjölskylduvænt samfélag
  • Skapandi samfélag
  • Umhverfisvæn útivistarpardís
  • Framúrskarandi útvörður Ísafjarðarbæjar

Í máli verkefnisstjóra, Agnesar Arnardóttur, á fundinum kom fram að 88 verkefni sem fengu stuðning hafa skilað einhverju sem má tengja við þessi markmið

Í ársskýrslu verkefnisstjóra fyrir lokaár Öll vötn til Dýrafjarðar kemur fram að kynntar hafa verið ýmsar leiðir sem miða að atvinnuuppbyggingu og eflingu samfélagsins. Einnig að stuðningur hafi verið veittur til frumkvöðla til að koma hugmyndum í framkvæmd, nýtt fjármagn komið til svæðisins sem miðar að atvinnuuppbyggingu, eflingu menningar og samfélagsins í heild sinni. Þá hefur samvinna meðal íbúanna aukist á ýmsum sviðum ásamt því að bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur orðið betur áskynja um stöðu svæðisins.  

Stjórn verkefnisins Öll vötn til Dýrafjarðar.
Stjórn verkefnisins Öll vötn til Dýrafjarðar.

Á fundinum kynntu einnig nemendur Grunnskólans á Þingeyri framtíðarsýn sína, fulltrúar Ísafjarðarbæjar fóru yfir framkvæmd skipulagsmála og ýmis umhverfisverkefni, kynnt var stefnumótun og framtíðarsýn Blábankans og fulltrúi Arctic Fish fór yfir framtíðarsýn fyrirtækisins hvað varðar samfélagsábyrgð og þátttöku í samfélagsverkefnum.

Ísafjarðarbær þakkar Byggðastofnun, Vestfjarðastofu og ekki síst heimafólki kærlega fyrir samstarfið við Öll vötn til Dýrafjarðar. Agnesi verkefnisstjóra er einnig þakkað fyrir góð störf með ósk um velgengni á nýjum vettvangi.

Agnes Arnardóttir, verkefnisstjóri Öll vötn til Dýrafjarðar, og Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri.
Agnes Arnardóttir, verkefnisstjóri Öll vötn til Dýrafjarðar, og Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri.