Varmadælur settar upp við sundlaugina á Þingeyri

Fjórar varmadælur hafa verið settar upp við sundlaugina á Þingeyri. Markmiðið er að draga verulega úr raforkukostnaði sundlaugarinnar, sem hingað til hefur eingöngu verið hituð með beinni rafhitun.

Rafmagnsnotkun sundlaugarinnar hefur að jafnaði verið um 80.000 kWh á mánuði, með árlegan orkukostnað upp á rúmar 13 milljónir króna.

Nýju varmadælurnar nýta varma úr andrúmsloftinu og eru mun hagkvæmari í rekstri, en gert er ráð fyrir að þær skili samanlagt 120 kW af afli. Áætlað er að dælurnar geti dregið úr raforkunotkun um allt að 55% og þannig sparast um fimm milljónir króna árlega. 

Áætlaður heildarkostnaður við uppsetningu varmadælanna, með vinnu, eru tæplega 18,8 milljónir króna. Líftími búnaðarins er áætlaður 15–20 ár.

Gert er ráð fyrir að dælurnar verði tilbúnar til notkunar í júlí.