Stefnt á uppbyggingu á skíðasvæðinu í Tungudal: „Ísafjarðarbær er skíðabær“

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar tekur jákvætt í metnaðarfullar tillögur forstöðumanns skíðasvæða Ísafjarðarbæjar um umfangsmikla uppbyggingu á skíðasvæðinu í Tungudal á árunum 2026 til 2031.
Í bókun ráðsins segir að Ísafjarðarbær sé skíðabær og Tungudalur eina svigskíðasvæðið á Vestfjörðum og því mikilvægt að horft sé til framtíðar.
Í minnisblaði Ragnars Högna Guðmundssonar, forstöðumanns skíðasvæðisins, eru lagðar fram fjölþættar aðgerðir til að auka rekstraröryggi og lengja skíðatímabilið. Áætlaður heildarkostnaður framkvæmda nemur 265 milljónum króna.
Minnisblað – Uppbygging á skíðasvæði Ísafjarðarbæjar 2026-2031
Í tillögunum felst meðal annars:
- Uppsetning snjóframleiðslukerfis sem nær frá byrjendasvæði og upp að Miðfellslyftu. Kerfið myndi tryggja snjólög á snjólitlum árum og lengja tímabilið.
- Ný diskalyfta milli Byrjendalyftu og Miðfellslyftu sem eykur aðgengi og sveigjanleika í rekstri svæðisins.
- Landmótun, dren, snjógirðingar og ný lýsing, þar sem kastarar verða uppfærðir í LED til að mæta komandi breytingum og spara orku.
- Endurnýjun stýribúnaðar og viðhald á öllum lyftum, sem eru orðnar 30 ára gamlar og langt yfir líftíma sínum.
Í minnisblaðinu kemur fram að veturinn 2024–2025 hafi verið afar krefjandi, með tíðum bilunum, rigningum og snjóleysi. Í Tungudal voru 54 opnunardagar en 112 á Seljalandsdal. Skýr aukning hefur þó orðið í skíðaiðkun síðustu ár, sem endurspeglast í sölu vetrarkorta.
Bæjarráð tekur undir mikilvægi þess að efri hluti Tungudals verði uppfærður fyrir svigskíði og leggur jafnframt áherslu á að neðri hluti Tungudals nýtist betur fyrir skíðagöngu. Bæjarráð telur mikilvægt að vinna málið frekar og útbúinn verði viðauki til samþykktar vegna nauðsynlegra viðhaldsverkefna ársins. Næsta skref verði að áfangaskipta verkinu til framtíðar í framkvæmdaáætlun, enda hefur bæjarráð fullan hug á að Ísafjarðarbær verði áfram skíðabær til framtíðar í heilsueflandi samfélagi.