Staðan á viðgerðum á sundlauginni á Þingeyri

Vinna við viðgerð á sundlauginni á Þingeyri heldur áfram og er búið að panta aðföng vegna dúkskipta á lauginni. Áætlað er að efnið verði komið til landsins mánaðarmótin janúar/febrúar og mun vinna hefjast um miðjan febrúar og taka um viku. Endurbæturnar eru í höndum fyrirtækisins Á. Óskarsson.

Viðgerðarvinnan felur í sér eftirfarandi:

  • Mat á ástandi steypts laugarbotns og gerðar tillögur að viðgerðum ef þörf krefur.
  • Skipt um botninnstreymi, þéttingar og flangsa á 8 stk. botninnstreymum.
  • Sundlaugarkarið sótthreinsað til þess að koma í veg fyrir sveppamyndun undir nýjum sundlaugardúk.
  • Skipt um þéttingar á botnniðurfalli.
  • Ástand sundlaugaljósa kannað og skipt um þéttingar ef mögulegt. Best væri að skipta út sundlaugaljósum fyrir ný LED ljós.
  • Nýr sundlaugadúkur lagður á laugarbotn, notaður er dúkur með anti-slip áferð í grynnri enda laugarinnar. Flísdúkur er notaður sem undirlag til þess að verja sundlaugardúkinn gegn hnjaski og skapa mýkra undirlag.
  • Nýr sundlaugardúkur settur yfir laugarveggi. Dúkur með sléttri áferð er notaður á veggina og er ýmist soðinn við eldri innbrenndan dúk eða límdur. Ekki er gert ráð fyrir að losa þurfi eldri innbrenndan dúk af laugarveggjum. Gert er ráð fyrir að dúkaleggja að yfirfallsrennum en að rennurnar sjálfar séu í lagi. Aukaverk væri að annað hvort dúkaleggja samskeyti í rennum eða heildúkaleggja rennur.
  • Nýjar svartar brautarlínur lagðar á laugarbotn og brautarlínumerkingar á laugarveggi.
  • Fljótandi PVC efni borið í samskeyti til vatnsþéttingar þar sem það á við.
  • Steyptur jöfnunartankur dúkalagður upp á nýtt. Nýr dúkur er festur kyrfilega niður svo ekki sé hætta á að hringrásardælur sogi hann til sín.