Skutulsfjörður: Lýsing í kynningu vegna deiliskipulags í Dagverðardal

Úr deiliskipulagsuppdrætti.
Úr deiliskipulagsuppdrætti.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti þann 2. nóvember 2023 að skipulagslýsing á nýju deiliskipulagi í Dagverðardal í Skutulsfirði, greinargerð frá 23. október 2023, unnin af M11 arkitektum, yrði auglýst í samræmi við 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Landið sem deiliskipulagið tekur til er 8,2 ha. og er í eigu Ísafjarðarbæjar. Svæðið liggur við rætur Hnífafjalls í mynni Tungudals og Dagverðardals í Skutulsfirði. Að norðanverðu er gróin hlíð og þar liggur Vestfjarðavegur nr. 60 um Tungudal. Að sunnanverðu afmarkast svæðið um veg sem liggur upp á Breiðadalsheiði. Sá vegur hefur verið aflagður sem þjóðvegur en þó er nokkur umferð um veginn, m.a. vegna grjótnámu, skotsvæðis og ferðamanna. Sunnan svæðisins, neðan vegar, er grjótnáma og neðan við svæðið er Vegagerðin með aðsetur.

Megintilgangur deiliskipulagsvinnunnar er að skipuleggja svæðið undir frístundabyggð með sérákvæði um þjónustuhús, veitingar og gististaði og er í samræmi við vinnslu breytinga á Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020 þar sem svæðið verður tekið úr landnotkun ætlað undir íbúðarbyggð.

Deiliskipulag þetta fyrir frístundabyggð í Dagverðardal er unnið samhliða breytingu á aðalskipulagi fyrir sama svæði, mál 631/2023.

Greinargerð

Deiliskipulagsuppdráttur

Ábendingar varðandi tillögugerðina skulu vera skriflegar og berast í gegnum Skipulagsgátt Skipulagstofnunar eða á skipulagsfulltrúa á skipulag@isafjordur.is fyrir 8. desember 2023.

Hægt er að óska eftir nánari leiðbeiningum varðandi skipulagsgáttina gegnum netfangið skipulag@isafjordur.is.

f.h. skipulagsfulltrúa

_______________________________

Helga Þuríður Magnúsdóttir

verkefnastjóri á umhverfis- og eignasviði