Ísafjarðarbær tekur þátt í verkefni um aukið samstarf í velferðarþjónustu á Vestfjörðum

Bæjarstjórn samþykkti á 502. fundi sínum þann 17. nóvember sl. að ganga til samninga við KPMG um þjónustu fyrirtækisins vegna ráðgjafar um velferðarþjónustu á Vestfjörðum, í samstarfi við Vestfjarðastofu og önnur sveitarfélög á Vestfjörðum. 

Á 67. Fjórðungsþingi Vestfirðinga var skipaður starsfhópur um aukið samstarf í velferðarþjónustu í fjórðungnum en ljóst er að ný lög um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna og veigamiklar breytingar á barnaverndarlögum og lögum um lágmarksíbúafjölda á þjónustusvæðum í málefnum fatlaðs fólks skapa nýjar áskoranir, tækifæri og forsendur fyrir sveitarfélögin á svæðinu.

Markmið verkefnisins er að kanna hvort og þá hver grundvöllur er fyrir því að setja á fót Velferðarþjónustu Vestfirðinga sem sinni þjónustu við fatlað fólk, barnaverndarþjónustu og móttöku flóttafólks.

Hlutverk KPMG er að rýna núverandi stöðu, áherslur, áskoranir og tækifæri í samstarfi um velferðarþjónustu, sem og að greina valkosti sveitarfélaganna til skemmri og lengri tíma. Þá mun fyrirtækið móta aðgerðaráætlun og forgangsröðun og aðstoða við innleiðingu.

Kostnaður við vinnu KPMG fellur á sveitarfélögin eftir íbúafjölda. Hlutur Ísafjarðarbæjar er 53,3% af kostnaði verkefnisins eða 3-4 m.kr. Gera þurfti viðauka vegna verkefnisins og var hann samþykktur undir sama fundarlið.