Ísafjarðarbær tekur þátt í hraðli vegna breytinga á lögum um meðhöndlun úrgangs

Ísafjarðarbær er þátttakandi í hraðli sem komið var á vegna breytinga á lögum um meðhöndlun úrgangs. Hraðallinn hefur það að markmiði að aðstoða sveitarfélög að innleiða nýjar lagakröfur um breytingar á innheimtu gjalda fyrir meðhöndlun úrgangs, svokallaðra sorphirðugjalda. Í hraðlinum eru einnig Grímsnes- og Grafningshreppur ásamt Húsnæðis og mannvirkjastofnun og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. 

Breytingarnar á lögum um meðhöndlun úrgangs taka gildi 1. janúar 2023 og samkvæmt þeim skal tekið upp nýtt kerfi við innheimtu gjalda fyrir meðhöndlun úrgangs. Kerfið skal miða að því að hver og einn borgi fyrir það magn sem hent er og að rukka megi minna fyrir úrgang sem er flokkaður. Með þessari breytingu er ætlunin að beita mengunarbótareglunni í meira mæli við úrgangsstjórnun en verið hefur, það er að segja að því meira sem fólk flokkar og því minna sem það hendir, því minna borgar það.

Lagabreytingin skyldar einnig heimili og fyrirtæki til flokkunar á heimilisúrgangi og sveitarfélögin til sérstakrar söfnunar á fleiri úrgangstegundum en verið hefur víða um land, svo sem lífrænum úrgangi, textíl og spilliefnum. Ísafjarðarbær er reyndar kominn langt hvað flokkun varðar, enda hefur lífrænn úrgangur verið flokkaður hér sérstaklega síðan 2018. Í lögunum er einnig kveðið á um samræmdar flokkunarmerkingar á landsvísu sem gerir fólki auðveldara að flokka með sama hætti, sama hvar það er statt á landinu.

Hraðallinn sem Ísafjarðarbær er þátttakandi í gengur undir nafninu „Borgað þegar hent er - hraðall“ en sem fyrr segir munu sveitarfélög þurfa að tryggja að greitt sé í samræmi við magn og tegund úrgangs sem til fellur. Innleiðing borgað þegar hent er kerfis eru í raun útfærsla á mengunarbótareglunni sem snýst um að sá borgi sem mengar. Það er mikilvægur liður í innleiðingu hringrásarhagkerfis hér á landi. Fast gjald, sem flest sveitarfélög innheimta í dag, skal takmarkast við 50% til ársins 2025 og 25% eftir það.

Til eru margar mismunandi útfærslur af borgað þegar hent er kerfum, en í grófum dráttum er hægt að skipta þeim upp tvö kerfi; kerfi sem nota annars vegar rúmmál sem viðmið og hins vegar þyngd. Fyrrnefndu hraðalsverkefni miðar vel áfram og bæði Ísafjarðarbær og Grímsnes- og Grafningshreppur hafa ákveðið að fara hina svokölluðu rúmmálsleið, en í greiningu verkfræðistofunnar Eflu á útfærslum borgað þegar hent er er mælt með henni. 

Innleiðing nýs kerfis mun standa yfir allt næsta ár og mega íbúar því gera ráð fyrir að geta haft val um mismunandi tunnustærðir og -fjölda með það að markmiði að lækka sorpgjöld heimilisins þegar innleiðingu verður að fullu lokið. Á næstu vikum munu fyrirhugaðar breytingar verða kynntar nánar fyrir fasteignaeigendum í sveitarfélaginu.

Nánari upplýsingar um verkefnið eru á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga:

Borgað þegar hent er – hraðall
Borgað þegar hent er hraðall – Tvö sveitarfélög að verða tilbúin