Guðlaug Jónsdóttir hlýtur hvatningarverðlaun fyrir framúrskarandi skólastarf 2023

Finney Rakel, formaður fræðslunefndar, Guðrún Birgisdóttir, skóla- og sérkennslufulltrúi Ísafjarðarb…
Finney Rakel, formaður fræðslunefndar, Guðrún Birgisdóttir, skóla- og sérkennslufulltrúi Ísafjarðarbæjar, Guðlaug Jónsdóttir, heimilisfræðikennari og Hafdís Gunnarsdóttir, sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs.

Hvatningarverðlaun fræðslunefndar Ísafjarðarbæjar fyrir framúrskarandi skólastarf voru afhent þann 23. nóvember síðastliðinn.

Að þessu sinni féllu verðlaunin í skaut Guðlaugar Jónsdóttur, Diddu, fyrir heimilisfræðival við Grunnskólann á Ísafirði. Í umsögn nefndarinnar kemur meðal annars fram að Didda hafi einstakt lag á að vekja áhuga nemenda á íslensku hráefni og matargerð, enda er íslensk og vestfirsk matarmenning í hávegum höfð hjá henni. Þá hefur Didda farið óhefðbundnar leiðir í kennslu, meðal annars hefur hún haldið súpusamkeppnir á unglingastigi þar sem nemendur þróa sínar eigin súpur og lærðir kokkar eru fengnir til að sitja í dómnefnd.

Heimilisfræðival Diddu er dæmi um einstaklega vel heppnaða valgrein, sem náð hefur að vaxa og dafna með einstakri nálgun kennara á námsefni og jákvæðu viðhorfi til nemenda. Allt frá því að Guðlaug hóf störf við GÍ hafa valgreinar hennar í heimilisfræði verið mjög vinsælar, bæði á mið- og unglingastigi, og komast færri að en vilja. 

Didda er hlý í framkomu, metnaðarfull og kröfuhörð en með hlýrri nálgun og finnur ýmsar leiðir til að mæta nemendum á þeim stað sem þeir eru staddir.

Þetta er í þriðja sinn sem fræðslunefnd veitir hvatningarverðlaun fyrir framúrskarandi skólastarf í Ísafjarðarbæ. Árið 2022 hlaut Grunnskóli Önundarfjarðar verðlaun fyrir verkefnið Samstarf leik og grunnskóla – brú milli skólastiga og Grunnskólinn á Ísafirði fyrir verkefnið Útistærðfræði á unglingastigi. Árið 2021 féllu verðlaunin í skaut Tanga vegna öflugs útináms sem þar er boðið upp á.