GÍ og GÖ fá hvatningarverðlaun fyrir framúrskarandi skólastarf

Útistærðfræði við Grunnskólann á Ísafirði. Mynd: GÍ.
Útistærðfræði við Grunnskólann á Ísafirði. Mynd: GÍ.

Hvatningarverðlaun fræðslunefndar Ísafjarðarbæjar fyrir framúrskarandi skólastarf voru afhent fimmtudaginn 27. október. Alls bárust 10 tilnefningar þegar óskað var eftir tilnefningum frá íbúum og ákvað nefndin að veita tvö verðlaun að þessu sinni. Grunnskóli Önundarfjarðar hlaut verðlaun fyrir verkefnið Samstarf leik og grunnskóla – brú milli skólastiga og Grunnskólinn á Ísafirði hlaut verðlaun fyrir verkefnið Útistærðfræði á unglingastigi.


Finney Rakel Árnadóttir, formaður fræðslunefndar, Jóna Lára Sveinbjörnsdóttir, umsjónarmaður verðlaunaverkefnis GÖ, og Arna Lára Jónsdóttir.

Brú milli skólastiga er samstarfsverkefni Grunnskólans í Önundarfirði og leikskólans Grænagarðs þar sem elstu nemendur leikskólans koma í grunnskólann tvisvar í viku til að vinna með yngstu nemendunum þar. Í lýsingu á verkefninu segir:

„Frá hausti fram á vor koma elstu nemendur leikskólans tvisvar í viku yfir í grunnskóla og vinna með yngstu nemendunum þar, tvær kennslustundir í senn. Kennslustundir fara fram bæði innan og utandyra og er samfella í náminu. Eitt af markmiðunum er að efla grunnfærni nemenda. Horft er til helstu þarfa hvers hóps hverju sinni. Verkefnið þetta skólaár reynir á þrautseigju og seiglu og er góð þjálfun í samvinnu og samskiptum þar sem nemendur læra að bíða, skiptast á og eflast í lausnaleit. Orðaforði er markvisst efldur. Í útikennslu læra nemendur á mörk útikennslustofunnar þó hún sé ekki afmörkuð með veggjum auk þess sem það lærist að hægt er að njóta útiveru í öllum veðrum ef klæðnaður er í samræmi við aðstæður.


Kristbjörg Sunna Reynisdóttir, skólastjóri Grunnskóla Önundarfjarðar, Jóna Lára Sveinbjörnsdóttir, kennari, og Sigríður Anna Emilsdóttir, leikskólastjóri Grænagarðs.

Kennsla fer ávallt fram í gegnum leik og byggir á áhugahvöt nemendanna. Í útikennslunni er umhverfið nýtt sem uppspretta náms og meðal annars sóttur efniviður í nágrenninu til að tálga og nýta sem eldivið, eitt af því fjölmarga sem börnin hafa lært að búa til á eldinum eru teiknikol sem þau síðan teiknuðu með.“

Jóna Lára Sveinbjörnsdóttir, kennari í Grunnskóla Önundarfjarðar, hefur umsjón með verkefninu.


Berglind Árnadóttir, Harpa Henrysdóttir og Katrín Sif Kristbjörnsdóttir ásamt Finney Rakel, formanni fræðslunefndar.

Útistærðfræði á unglingastigi við Grunnskólann á Ísafirði nýtir útikennslu til að nálgast stærðfræði í daglegu lífi. Í lýsingu á verkefninu segir m.a.:

„Í vetur hefur markvisst verið unnið að því að auka fjölbreytni í kennsluháttum í stærðfræði á unglingastigi með því að færa kennsluna út einu sinni í viku og nýta nærumhverfið sem best. Verkefni vetrarins hafa verið fjölbreytt en flest tengd því námsefni sem nemendur eru að fást við hverju sinni, samkvæmt markmiðum Aðalnámskrár. Sem dæmi má nefna verkefni þar sem þarf að nota reglu Pyþagorasar, líkindareikning, rúmfræðiverkefni, tímamælingar og margt fleira. Verkefnaskil eru ýmis skrifleg, myndir eða munnleg.“

Katrín Sif Kristbjörnsdóttir, Bryndís Bjarnason, Harpa Henrysdóttir, Berglind Árnadóttir og Jón Hálfdán Pétursson, kennarar á unglingastigi GÍ, hafa umsjón með verkefninu.