Dagbók bæjarstjóra: Vika 47 og 48 2023

Fulltrúar Vestfjarða sem mættu á fund umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis.
Fulltrúar Vestfjarða sem mættu á fund umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis.

Dagbók bæjarstjóra dagana 20. nóvember-3. desember 2023.

Síðustu tvær vikurnar hefur verið nóg að gera. Ég var boðuð á fund umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis til að fylgja eftir umsögn Ísafjarðarbæjar um samgönguáætlun, ásamt Vestfjarðastofu og fleiri sveitarfélögum á Vestfjörðum. Meginstefið var óánægja með forgangsröðun jarðgangaáætlunar. Það verður fróðlegt að sjá hvort að nefndin þori að gera tillögu að breytingum á áætluninni.

Ég fór með Lánsjóði sveitarfélaga til Kaupmannahafnar. Þar funduðum við með Kommune Kredit sem er systurstofnun Lánasjóðsins í Danmörku. Mjög áhugavert að heyra hvernig sú stofnun gerir hlutina og bera saman við okkur. 

Sorpbrennslustöðin Amager bakke í Kaupmannahöfn.
Sorpbrennslustöðin Amager bakke í Kaupmannahöfn.

Segja má að einn af hápunktum ferðarinnar hafi verið að skoða Amager bakke sem er risastór sorporkustöð. Fyrir utan hvað hún er tæknileg og magnað mannvirki, þá er skíðabrekkan á toppnum eitthvað annað. Það vakti líka eftirtekt mína að þessi stöð hreinsar allan reyk, eitthvað sem við náðum ekki að gera þegar bærinn rak Funa. Það hafa nú líka verið miklar tækniframfarir síðan þá.

Arna Lára situr við skrifborð í Jónshúsi.
Við skrifborð Jóns Sigurðssonar í Jónshúsi.

Við kíktum líka í Jónshús og hittum þar fyrir Höllu Ben sem sagði okkur allt um veru Jóns og Ingibjargar í Kaupmannahöfn.

Það var gestkvæmt í bæjarráði. Starfsmenn Vestfjarðastofu komu til fundar og ræddu svæðisáætlun um úrgang, framhald á Earth Check og Vestfjarðaleiðina. Það er mikil gerjun í úrgangsmálunum, sérstaklega eftir lagabreytingun sem kveður á um samræmda flokkun sveitarfélaga og að málaflokkurinn verði að standa undir sér.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd fékk kynningu á lítilli sorporkustöð og vill nefndin kanna hvort það sé hagkvæmt að reka slíka stöð við Djúp. Við buðum nágrannasveitarfélögunum, Bolungarvík og Súðavík að vera með í slíkri könnun.

Bæjarráð ræddi niðurstöður uppgjörs fyrir þriðja ársfjórðung og það kemur líka svona glimrandi vel út. Þriðji ársfjórðungur sýnir nú rekstrarafgang A- og B-hluta upp á 524 m.kr. frá janúar til september 2023. Fjárhagsáætlun fyrir sama tímabil gerir ráð fyrir rekstrarafgangi upp á 497 m.kr. Rekstrarafgangur er því 27 m.kr. hærri en áætlað var. Rekstrartekjur A- og B-hluta eru hærri en áætlun gerði ráð fyrir sem nemur 59 m.kr. og rekstrargjöld eru lægri en áætlun gerði ráð fyrir sem nemur 31,7 m.kr. Fjármunatekjur og fjármagnsgjöld eru 64,4 m.kr. hærri í kostnaði en áætlun gerði ráð fyrir. Allt í rétta átt!

Stóri skjaladagurinn var haldinn hátíðlegur hjá Ísafjarðarbæ undir styrkri verkstjórn Hjördísar skjalastjóra. Flokka, prenta og loka málum lykilhugtökin á þessum degi með góðri hvatningu.

Við Hilmar hafnarstjóri funduðum með Crusie Iceland og samtökum ferðaþjónustunnar (SAF), og snerist umræðan að mestu um móttöku skemmtiferðaskipa. Það er auðvitað þannig að Ísafjarðarbær er einn stærsti gerandinn í ferðaþjónustu á Vestfjörðum, og í sumar komu um 180 skip til okkar með 183.000 farþega, og verðum við að bera ábyrgð á því og byggja upp innviði. Það verður heldur ekki horft framhjá því að þetta hefur verulega fjárhagslega þýðingu en á sama tíma þarf að huga að þolmörkum íbúa, og það ætlum við að gera með nýrri stefnumörkun.

Starfsmenn og gestir Hvestu á jólamarkaði.
Boðið var upp á veitingar fyrir gesti á jólamarkaði Hvestu.
Hjalti Einarsson, Árni Ívarsson og Steingrímur Guðmundsson tóku lagið fyrir gesti.
Hjalti Einarsson, Árni Ívarsson og Steingrímur Guðmundsson tóku lagið.

Hvesta, sem er vinnustaður á Ísafirði fyrir fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir var með jólamarkað í vikunni. Mjög huggulegt þar sem hægt var að kaupa jólavörur. Það var boðið upp á tónlist, smákökur og kakó.

1. desember var einkar hátíðlegur í ár. Prúðbúin skólabörn buðu foreldrum í heimsókn og boðið var upp á samsöng á Silfurtorgi.

Kristinn Mar Einarsson, hjá Vélsmiðjunni Þristi, og Jóhann Bæring Gunnarsson, framkvæmdastjóri Ístækni.
Kristinn Mar Einarsson, hjá Vélsmiðjunni Þristi, og Jóhann Bæring Gunnarsson, framkvæmdastjóri Ístækni.

Ístækni hóf starfsemi sína, en fyrirtækið hefur gert samkomulag um kaup á tækjum og öðrum framleiðslubúnaði Skagans 3X á Ísafirði. Þar að auki mun Vélsmiðjan Þristur sameinast Ístækni um áramótin. Þetta eru einstaklega góðar fréttir, og segja má að tekist hafi að varðveita tækniþekkingu á svæðinu sem hefur byggst upp í áratugi.

Loftmynd af nýjum stúdentagörðum við Fjarðarstræti á Ísafirði.

Stúdentagarðar Háskólaseturs Vestfjarða voru líka opnaðir formlega 1. desember. Í október í fyrra var hafist handa við að rífa ljótu skúraröðina við Fjarðarstræti og nú rúmu ári síðar eru risin tvö falleg hús með 40 íbúðum fyrir stúdenta. Hver hefði trúað að þetta gæti tekið svona stuttan tíma?? Ég held að það megi með sanni segja að Ísafjörður sé orðinn háskólabær. Þetta er okkur til mikils sóma og það er gaman að hugsa til baka hve mikið hefur gerst frá því að Háskólasetur Vestfjarða var sett á laggirnar árið 2006. Það er búið að framleiða heil ósköp af þekkingu. Nemendurnir eru virkir þátttakendur í samfélaginu, og eru t.a.m. mikilvæg undirstaða vestfiskrar ferðaþjónustu á sumrin. Svo má ekki gleyma öllum þeim sem hafa orðið eftir að námi loknu og eru búsettir hér.