Dagbók bæjarstjóra 2025: Vika 2

Dagbók bæjarstjóra dagana 13.-19. janúar 2025, í annarri viku í starfi.
Það var ansi mikil hálka í byrjun vikunnar en ég hóf vikuna á athugun á færð á götum Suðureyrar með því að fara í hlaupatúr. Það er nú betra að vera vel útbúin og mæli ég sérstaklega með broddum eða negldum skóm við slíkar aðstæður. Síðan rigndi mikið, var autt um tíma en í vikulok er snjór yfir öllu. Þá var leiðindarveður í gær (laugardag) sem var nýtt til að vinna á þvottafjallinu og taka til heima fyrir.
Af starfinu er það að frétta að vikan hófst með bæjarráðsfundi. Þá kíkti ég ásamt Hafdísi og Guðrúnu, starfsmönnum skólasviðs, í heimsókn á leikskólann Tanga en það er leikskóli fyrir fimm ára börn. Á Tanga er aðaláhersla á útinám og umhverfismennt, þar læra börnin á umhverfi sitt með eigin upplifunum og rannsóknum. Unnið er með alla námsþætti í útinámi, lært að lesa í umhverfið og veðrið. Þannig að gönguferðir, skíði og útieldun er daglegt brauð þar á bæ. Jóna Lind og Inga tóku á móti okkur og fræddu um starfsemina.
Ingibjörg Svavarsdóttir, Jóna Lind Kristjánsdóttir og Sigga bæjarstjóri.
Á leið á Tanga litum við inn í Grunnskólann en þar voru allir nemendur að vinna að uppsetningu á dominói úr morgunkornskössum.
Þvílík gleði var með þetta í nemendahópnum sem leyndi sér ekki og sennilega ekki farið framhjá fólki í þó nokkuð stórum radius við grunnskólann, slík voru lætin.
Með Helgu, leikskólastjóra á leikskólanum Sólborg.
Helga er við öllu búin.
Ég kíkti einnig með Hafdísi og Guðrúnu á leikskólann Sólborg í vikunni en þegar okkur bar að garði voru börnin að koma inn eftir skemmtilegt pollasull enda var mikil rigning og pollar víða á lóðinni. Eins og ávallt þá var gaman að skoða aðstöðuna á Sólborg en þar eru börn frá eins árs aldri en á Ísafirði er það þannig að börn af báðum leikskólum sameinast á Tanga síðasta leikskólaárið. Þá er alltaf gaman að hitta Helgu leikskólastjóra, starfsfólk og börn, takk fyrir móttökurnar.
Ég átti nokkra fundi í vikunni, til að mynda með Hörpu og Magna á snjóflóðasetrinu þar sem við ræddum ýmis mál, til dæmis endurmati á hættumati vegna ofanflóða. Þá átti ég fund með stjórn Edinborgarhúss en fyrir áramót var gerður samningur Edinborgarhússins við menningarmálaráðuneytið um rekstrarframlag til tveggja ára, en löngum hefur verið horft til þríhliða samnings þessara aðila og Ísafjarðarbæjar, meðal annars í ljósi Menningarstefnu Ísafjarðarbæjar 2022-2032.
Ég sat ársfund Brákar en Brák íbúðafélag hses. er húsnæðissjálfseignarstofnun sem stofnuð var árið 2022 af 31 sveitarfélagi í þeim tilgangi að ná fram stærðarhagkvæmni sem næst ekki með litlum húsnæðissjálfseignastofnunum með fáar íbúðir í rekstri. Í deigluni er að á þessu ári muni Brák kaupa tvær blokkir í eigu bæjarins á Suðureyri og Þingeyri en umsókn Ísafjarðarbæjar fyrir hönd Brákar um stofnframlag var samþykkt hjá HMS fyrir áramót.
Bæjar- og sveitarstjórar áttu sinn mánaðarlega fund með starfsfólki Vestfjarðastofu en þar var nýútkomin skýrsla um kolefnisjöfnun á Vestfjörðum kynnt. Skýrslan er liður í gerð loftslagsstefnu fyrir sveitarfélögin á Vestfjörðum þar sem meðal annars er kveðið á um áætlun um kolefnisjöfnun. Sveitarfélög á Vestfjörðum munu geta nýtt sér efni þessarar skýrslu til að setja sér markmið um kolefnisjöfnun í loftslagsstefnu, auk aðgerða til að ná þeim markmiðum.
Þá var bæjarstjórnarfundur í vikunni, sá fyrsti á árinu og sá eini í janúar. Á bæjarstjórnarfundi var meðal annars samþykkt að heimila vinnu við gerð deiliskipulags vegna áforma um byggingu gagnavers í Önundarfirði. Það skal tekið fram að þetta tiltekna verkefni á eftir að ná augum okkar og eyrum enn meira í framtíðinni, þá er mikilvægt að íbúar séu meðvitaðir um þetta, eins og annað.
Í gönguferð út í Staðardal í Súgandafirði.
Skíðatúr með Nanný og Örnu Láru.
Með barnabörnunum í þrjúbíó.
Ég sá mér ekki fært að njóta mikillar útivistar í vikunni en bætti það upp á helginni, með göngu og skíðaiðkun. Þá voru nokkrar sundferðir í vikunni. Við Dúi fórum með barnabörnunum í þrjúbíó í dag, í flottasta og virðulegasta bíói landsins, sáum Paddington í Perú, krökkunum fannst hún frábær, okkur líka.
Framundan er vika þrjú í starfi bæjarstjóra og mér sýnist á dagskránni hún ekki verða síðri en þessi nýliðna vika. Gaman!