Dagbók bæjarstjóra 2025: Vika 13

Dagbók bæjarstjóra dagana 31. mars – 6. apríl 2025, í 13. viku í starfi.
Við sendum inn umsögn vegna draga að frumvarpi um breytingar á lögum um veiðigjald í byrjun vikunnar. Það vakti nokkra athygli og undir lok vikunnar fór Gylfi, formaður bæjarráðs í viðtal í Spursmálum hjá Morgunblaðinu.
Það voru allskonar fundir í vikunni til dæmis í svæðisskipulagsnefnd. Þá fór ég yfir ýmis hafnartengd mál með Hilmari hafnarstjóra.
Hópur bæjarstjóra og landshlutasamtaka átti fund um innanlandsflug, sá fundur var haldinn til að ræða möguleika varðandi flugsamgöngur innanlands í kjölfar á tilkynningu Icelandair um breytingar á áætlanaflugi til Ísafjarðar haustið 2026. Við höfum lagt til við umhverfis- og samgöngunefnd og þingmenn norðvesturkjördæmis að horft verði til þess að skoða flugsamgöngur í heild, sérstaklega til staða sem reiða sig mikið á flugið. Á þessum fundi var ákveðið að vinna einskonar þarfagreiningu og „teikna“ upp hvernig hægt sé að leysa í sameiningu að þjónustan sé á þann veg að við séum sátt. Horft er til flugs til Ísafjarðar, Hafnar í Hornafirði, Húsavíkur og Vestmannaeyja í þessu samhengi en á fundinum voru aðilar frá þessum svæðum.
Ég átti einnig góðan fund með Pálma Sævars hjá Vegagerðinni þar sem við ræddum áherslur Vegagerðarinnar í þessu umdæmi. Vegabætur sem snúa að öryggi á Hvilftarströnd og viðhald vega var þá rætt sem og möguleiki á uppbyggingu göngu/hjólastíga.
Þá átti ég nokkra fundi með íbúum sveitarfélagsins sem ég tek fagnandi ef óskað er eftir áheyrn.
Á Fjórðungsþingi.
Í vikunni var Fjórðungsþing að vori haldið. Það fór tími í að undirbúa það á vettvangi svæðisskipulagsnefndar. Á Fjórðungsþinginu var samþykkt ályktun sem hægt er að lesa hér:
Þrenna sértækra Vestfjarðaskatta
Í þjónusutmiðstöðinni er fín aðstaða til viðgerða.
Í kaffi í þjónustumiðstöðinni.
Ég heimsótti þjónustumiðstöðina (áhaldahúsið) í vikunni, þar beið mín veislukaffi, klikka ekki á því strákarnir. Forstöðumaðurinn, Kristján Andri er reyndar að skipta um starfsvettvang en innan sveitarfélagsins þó, fljótlega verður auglýst eftir eftirmanni hans en sá hinn sami tekur við góðu búi.
Þessir hlutu sæmdarheitið Bjartasta vonin, Gaddur ísgerð.
Dómarar að kynna sér ísinn frá Gaddi.
Blöð framtíðar hlaut viðurkenningu Bláma sem grænasta hugmyndin á vörumessu MÍ, bæklingar úr endurunnum pappír úr bókum frá Vesturafli.
Áhugaverðasti bàsinn á vörumessu MÍ var Gyðja, þetta eru handlóð.
Ég fékk þá ánægju að vera í dómarateymi á Vörumessu Menntaskólans á Ísafirði. Margar skemmtilegar hugmyndir þar á ferð og því var dómnefndinni vandi á höndum að velja en kynnt voru ellefu verkefni. Verðlaun voru veitt í þremur flokkum: Áhugaverðasti básinn, bjartasta vonin og grænasta hugmyndin.
Fulltrúar B og D lista í bæjarstjórn (tveir varafulltrúar á þessari mynd).
Í-listafólkið í bæjarstjórn.
Bæjarstjórn fundaði á fimmtudaginn, góður fundur að venju. Það var þó óvenjulegt að þar voru tveir varamenn mættir sem eru ekki vanir að mæta, Anton sem er tíundi maður á lista Framsóknar og svo Dúi sem er áttundi maður á lista Sjálfstæðisflokksins og er maðurinn minn. Það eru mjög margir sem eru ekki að skilja að við „vinstrið“ og „hægrið“ getum verið gift. Það er einfalt, við erum sammála um að vera ósammála með sumt en alls ekki allt.
Við Dúi með indversku sendiherrahjónunum.
Í kaffiboði í Faktorshúsi.
Í lok vikunnar var okkur hjónum boðið í kvöldverð með indversku sendiherrahjónunum á Íslandi. Það var mjög fróðlegt kvöld en sendiherrann hefur mikinn áhuga á að koma á hátíð þar sem indverskri menningu verði gerð skil og þá var hann að velta fyrir sér kvikmyndum og tónlist. Daginn eftir hittumst við svo aftur hjá Jónu Símoníu í Faktorshúsinu og auk okkar komu Indverjar sem eru búsettir á svæðinu og þeirra makar.
Ferskar eftir gusu.
Nokkrar vinkonur mínar drógu mig svo í Vestfjarðagusuna í Hnífsdal en það er gufubað í hjólhýsi, staðsett í fjöruborðinu í Skeljavík í Hnífsdal. Ég hafði ekki látið verða af því að fara þannig að það var komið að því. Þetta var mjög hressandi en við fórum í sund á eftir og enduðum svo heima hjá mér í pizzuveislu sem Dúi græjaði af sinni alkunnu snilld.
Sunnudagurinn fór í kjallara- og geymslutiltekt, blómaumpottun, bakstur og kaffidrykkju en það var smá gestagangur sem var ósköp ljúft.
Fersk eftir góðan hlaupatúr á Ísafirði.
Hljóp um 17 km í vikunni, mun betri árangur en undanfarnar vikur. Við hjónin skráðum okkur í hálfmaraþon, sem verður í lok apríl. Jamm stanslaust stuð!