Bæjarráð hvetur ráðherra til að draga til baka breytingar á byggðakerfi fiskveiðistjórnunarkerfisins
Bæjarráð Ísafjarðarbæjar lýsir alvarlegum áhyggjum af breytingum á byggðakerfi fiskveiðistjórnunarkerfisins sem kom fram í reglugerð frá 28. nóvember 2025 og hvetur ráðherra til að draga breytingarnar til baka. Þetta kemur fram í bókun bæjarráðs af 1351. fundi sem haldinn var mánudaginn 8. desember 2025.
Í reglugerðinni er tilgreint hvernig ráðstafa skuli afla sem dreginn er frá heildarafla, það er afla sem tilheyrir almennum byggðakvóta, línuívilnun, skel- og rækjubótum og frístundaveiðum.
Bókun bæjarráðs í heild:
Bæjarráð Ísafjarðarbæjar lýsir alvarlegum áhyggjum af breytingum á byggðakerfi fiskveiðistjórnunarkerfisins sem kom fram í reglugerð frá 28. nóvember 2025. Fyrirséð er að mikil röskun verði á mörgum útgerðum og vinnslum vegna flutnings aflaheimilda og samdráttar afla yfir í strandveiðikerfið. Þar er heilsársstörfum fórnað fyrir störf hluta úr ári. Mótvægisaðgerðir, þar sem þorskur er bættur upp með öðrum tegundum, munu hafa lítil áhrif. Breytingarnar koma seint fram, og í ljósi þess að þær eru settar fram sem hluti af stærri breytingum, er afar skaðlegt að heildarmynd þeirra skuli ekki koma fram strax enda er fyrirsjáanleiki forsenda fyrir skynsamlegum rekstri. Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hvetur ráðherra til að draga breytingarnar til baka. Til vara að hann komi strax fram með heildarmynd breytinganna á byggðakerfinu og kynni í framhaldinu til hvaða aðgerða hann hyggst grípa til að ekki komi til þeirra uppsagna og byggðaröskunar sem nýjar reglur munu að óbreyttu valda.
Tengt efni:
Innviðaráðuneytið: Reglugerð um ráðstöfun afla í byggðakerfi