Vika 42: Dagbók bæjarstjóra

Dagbók bæjarstjóra 17.-23. október 2022.

Vikurnar þjóta áfram enda nóg að gera. Í þessari viku var fundur í bæjarráði sem fundar alltaf á mánudagsmorgnum og bæjarstjórnarfundur á fimmtudaginn, sem fundar fyrsta og þriðja fimmtudag í mánuði (nema á sumrin). Eitt það helsta var við samþykktum umsögn um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2023, en þar tekur bæjarstjórn undir umsögn Vestfjarðarstofu en dró fram sérstaklega að styrkja þyrfti samkeppnisstöðu Vestfjarða og að fiskeldisgjaldið sem verður til vegna auðlindagjalda í fiskeldi renni til A-hluta reksturs fiskeldissveitarfélaga til að þau geti staðið undir þeirri miklu uppbyggingu innviða sem er framundan.

Arna Lára með Eddu B. Kristmundsdóttur og Guðfinnu Hreiðarsdóttur.
Arna Lára með Eddu B. Kristmundsdóttur og Guðfinnu Hreiðarsdóttur.

Ég fór í heimsókn í Safnahúsið, heilsaði upp á starfsmenn og kynnti mér starfsemina. Safnahúsið hýsir bókasafnið, skjalasafnið, ljósmyndasafnið og listasafnið. Töluverðar endurbætur hafa verið gerðar á Safnahúsinu á haustmánuðum, meðal annars verið að drena og setja brunna og fleira. Það vildi svo skemmtilega til að það voru verklok þegar ég kom. Þetta var afar þarft verk en við höfum verið að fást við mikil flóð í kjallaranum um leið og það gerir alvöru rigningu. Nú bíðum við spennt eftir næstu rigningu til að sjá hvort þetta haldi. Það eru talsvert miklar skemmdir innanhús eftir flóðabrasið síðustu árin. Það þarf að tryggja að húsið haldi vatni áður en farið verður í lagfæringar innanhús. Ég fékk góða leiðsögn um húsið í boði Eddu og Guðfinnu sem stýra Safnahúsinu, þó ég komi oft í Safnahúsið þá var félagsskapurinn af betri gerðinni í þetta skiptið. Rúsínan í pysluendanum voru ljúffengar vöfflur sem Guðfinna hristi fram úr erminni eftir túrinn um húsið.

Við Hjörleifur verkefnisstjóri á Flateyri áttum þrjá fundi í vikunni undir mismunandi formerkjum. Fyrst með verkefnisstjórn um nýsköpun og þróunarverkefni á Flateyri, svo með hverfisráðinu og að lokum á reglulegum mánaðarlegum fundi sem við Hjörleifur eigum með Bryndísi bæjarritara. Það vildi svo til að þetta hitti allt á sömu vikuna.

Axel, Muggur, Pálmi, Arna og Kristinn á fundi Ísafjarðarbæjar með Vegagerðinni
Axel, Muggur, Pálmi, Arna og Kristinn á fundi Ísafjarðarbæjar með Vegagerðinni.

Ég átti fund með Vegagerðinni ásamt Axel, sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs, og Muggi, sem er nýjasta starfsmaður sviðsins, en hann vann áður hjá Vegagerðinni (mjög klókt að hafa hann með okkur á fundinum). Við fórum með langan lista af sameiginlegum verkefnum sem við þurfum að fara í. Pálmi, sem er svæðisstjóri vestursvæðis með aðsetur í Borgarnesi, og Kristinn Lyngmó tóku á móti okkur. Við ræddum t.a.m. sjóvarnir við Pollgötu á Ísafirði, öryggisvarnir á Hvilftaströnd, vaxandi umferðarþunga í Vestfjarðagöngum og hvaða leiðir eru til úrbóta. Við tókum upp mikilvægi þess að tengja saman Tunguhverfi og Holtahverfi með undurgöngum, hjólaleiðir, þungaflutninga um miðbæinn á Ísafirði og umferðaröryggismál á Suðureyri svo eitthvað sé nefnt. Okkur var vel tekið og markmiðið er að koma þessum verkefnum í ferli.

Niðurrif skúralengju í Fjarðarstræti
Skúrarnir í Fjarðarstræti á Ísafirði eru horfnir og þar munu rísa íbúðir fyrir nemendur Háskólaseturs Vestfjarða.

Starfsmenn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) funduðu með okkur í vikunni en þeir voru að kynna fyrir okkur rammasamning ríkis og sveitarfélaga um uppbyggingu húsnæðis. Þar er markmiðið að byggja 20.000 íbúðir á fimm árum og 35.000 á næstu tíu árum. Þetta þýðir 200 íbúðir á næstu fimm árum í Ísafjarðarbæ og 350 á næstu 10 árum. Við ræddum líka frábæru verkefnin sem við erum að vinna með HMS, uppbygging á nemendagörðum á Flateyri og á Ísafirði. Þar hafa starfsmenn HMS reynst okkur vel og verið lausnamiðaðir.

Albert, Hafdís, Arna og Bergþór á kennarastofunni í Tónlistarskólanum á Ísafirði.
Góðar móttökur á fundi í Tónlistarskóla Ísafjarðar.

Einn af nokkrum hápunktum vikunnar var heimsókn okkar Hafdísar, sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs, í Tónlistarskóla Ísafjarðar. Bergþór skólastjóri og Albert aðstoðarskólastjóri tóku á móti okkur ásamt Judy, nýjum píanókennara í TÍ. Það var virkilega gaman að sjá breytinguna sem hefur orðið á skólanum síðustu ár. Heimsóknin var búin að vera á dagskrá í talsverðan tíma og við stilltum fundartímann inn á morgunkaffi. Eftir góðar umræður um starfsemi skólans og framtíðina þá bauð Albert upp á dýrindis volga ítalska eplaköku og rjóma, jeddúamía hvað hún var góð. Albert þekkja flestir matgæðingar af dýrindisuppskriftum og hann lofaði að setja uppskriftina inn á alberteldar.is.

Sigríður Júlía, Arna Lára og Anna Sigríður Guðnadóttir á svölum Stjórnsýsluhússins.
Sigríður Júlía, Arna Lára og Anna Sigríður Guðnadóttir, forseti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar. Mynd: Anna Sigríður.

Ég fékk góða óopinbera heimsókn frá Önnu Siggu sem er forseti bæjarstjórnar í Mosfellsbæ í vikulok. Þó að Mosfellsbær sé talsvert stærri en Ísafjarðarbær og staða þeirra talsvert ólík okkar þá er alltaf gagnlegt að bera saman bækur og efla tengslin. Þegar ég var að kveðja Önnu Siggu þá birtist Sigga Júlla forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar í gættinni og þá var auðvitað skellt í eina mynd með forsetunum.

Regus opnaði skrifstofuhótelið sitt formlega á föstudaginn í gamla Landsbankanum, en þar er bæði hægt að leigja skrifborð og skrifstofurými. Virkilega fín aðstaða og tilvalið fyrir fólk sem vill prófa að koma vestur með starfið sitt.

Nina Ivanova og Arna Lára á opnun myndlistarsýningar þeirrar fyrrnefndu í Safnahúsinu.Nina Ivanova og Arna Lára á opnun myndlistarsýningar þeirrar fyrrnefndu í Safnahúsinu.

Veturnætur fóru fram í vikunni og yfir helgina með fjölmörgum viðburðum. Það er greinilegt að bæjarbúar og gestir kunna að meta þessa hátíð því þar var fólk út um allan bæ. Það er við hæfi að útnefna bæjarlistamann á Veturnóttum og það var gert á opnu húsi í Tónlistarskólanum við hátíðlega athöfn.

Guðmundur Hjaltason, bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar 2022.
Guðmundur Hjaltason, bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar 2022.

Guðmundur Hjaltason er bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar 2022. „Gummi Hjalta hefur síðan elstu menn muna spilað á hljóðfæri og glatt samferðafólk sitt með m.a. uppfærslu á allskonar söngleikjum og tónlistarveislum“ segir í einni af fjölmörgum ábendingum sem bárust þegar leitað var eftir tilnefningum frá bæjarbúum. Gummi frumflutti lag við þetta tækifæri sem heitir Stefnumót og ef ég man rétt þá er fyrsta línan í textanum: Stefnumót við Ísafjörð, það þótti mér virkilega skemmtilegt, fyrir utan að lagið var mjög gott. Til hamingju Gummi!

Pökkuð vika að baki.