Vika 37: Dagbók bæjarstjóra

Frá styrktarhlaupi Riddara Rósu.
Frá styrktarhlaupi Riddara Rósu.

Dagbók bæjarstjóra í viku 37, 12.-18. september 2022

Annasöm vika að baki. Tilraunin með dagbók bæjarstjóra gekk vel og ég hef ekki fundið annað en að fólki hafi fundist þetta áhugavert. Þannig hér kemur vika tvö í dagbókarfærslum. Þetta er auðvitað ekki tæmandi listi en gefur vonandi innsýn fjölbreytt starf bæjarstjóra.

Vikan hófst með fundi bæjarráðs þar farið var yfir hin ýmsu framkvæmdamál. Eitt af því sem var þar til umræðu var hugmynd frá Jónu Lind deildastjóra á Tanga um að koma upp skógarhúsi til að takast á við fyrirsjáanlegri fjölgun barna á Tanga sem er fimm ára deildin okkar. Hugmyndin gengur út á að við setjum upp skógarhús í návígi við Stóruurð og þar fái börnin viku í senn til að stunda útinám og læra á náttúruna. Þetta finnst mér vera frábær hugmynd og næsta skref er að skoða hentugar staðsetningar, og hvað svona kostar. Það er svo dýrmætt að hafa starfsfólk sem hugsar í lausnum.

Í bæjarráði ræddum við einnig uppbyggingu og framtíðarsýn á skíðasvæðinu en unnin var skýrsla fyrir bæinn af fyrirtæki sem heitir SE group sem sérhæfir sig í þróun skíðasvæða. Stóra markmiðið er að tengja alpasvæðið og göngusvæðið saman með sameiginlegum skála, og hækka alpasvæðið svo hægt sé að opna fyrr á veturna. Þetta er stórt verkefni sem þarf að hluta niður í aðgerðaáætlun og taka eitt skref í einu. Þetta er langtímaverkefni en mikilvægt að sjá hvert við erum að stefna.

Við fengum líka minnisblað frá Verkís sem fór yfir forsendur fyrir vali á trjákurli sem fallundirlagi við leiktæki á lóðinni á Eyrarskjóli. Þar kemur fram að hönnun á lóðinni, val á leiktækjum, búnaði og yfirborðsefnum er í samræmi við gildandi reglur og staðla sem snúa að hönnun leikskólalóða. Margir foreldrar á Eyrarskjóli og starfsmenn eru ósáttir við notkun á þessari fallvörn og vilja fá nýja. Við eigum fund með Hjallastefnunni sem rekur Eyrarskjól á morgun (mánudag) til að fara yfir næstu skref. Ég hef líka fengið heimsóknir frá foreldrum á skrifstofuna og hef átt góð samtöl vegna þessa.

Þær ánægjulegu fréttir bárust mér á mánudagskvöld (12. september) að búið væri að tengja nýja vatnslögn á Suðureyri og vonandi eru vatnsvandamálin þá úr sögunni. Íbúar Suðureyrar fá sérstakt hrós fyrir þolgæði þar sem þeir eru búnir að þola skerðingar á vatni frá því í sumar. Starfsmenn þjónustumiðstöðvar og verktakar eru búnir að vinna að baki brotnu við að koma á vatni og hafa lagt sig sérstaklega fram við að upplýsa fólk og fyrirtæki. Þetta hefur tekið verulega á alla, og nú er eins gott að ekkert klikki.

Styrktarhlaup Riddara Rósu var haldið á þriðjudaginn, en hlaupahópurinn ákvað í ár að styrkja unga fjölskyldu frá Ísafirði. Alberta Runný Aðalsteinsdóttir og Birkir Þór Jónsson eignuðust Ými Hrafn fyrir stuttu en hann greindist með hjartagalla á meðgöngu, og eru þau um þessar mundir í Svíþjóð með barnið í aðgerð og vonandi gengur allt að óskum. Margir hafa notið góðs af þessi styrktarhlaupi og margir sem leggja söfnuninni lið og taka þátt.

Bæjarfulltrúar kynna sér starfsemi Arctic fish

Bæjarfulltrúum var boðið að skoða starfsemi Arctic fish í Dýrafirði. Dýrafjörðurinn skartaði sínu fegursta á miðvikudaginn, sól, logn og blíða. Við byrjuðum á því að skoða fóðurstöðina sem er til húsa í Blábankanum. Okkur var í framhaldinu boðið út á sjó að skoða kvíarnar undan Eyrarhlíð. Það var virkilega fróðleg heimsókn og gaman að heyra hvað fyrirtækið er að fást við. Við fengum líka tækifæri á að skoða Nónhorn sem er nýr fóðurprammi Arctic fish sem er á leið í Arnarfjörðinn. Þetta er svokallaður hybrid prammi sem er búinn rafhlöðum sem ljósavélar hlaða og draga þannig úr notkun dísels. Það sem stendur upp úr þessari heimsókn er hvað það eru mörg tækifæri til nýsköpunar og þróunar í þessum geira.

Sviðsstjórar Ísafjarðarbæjar, fjármálastjóri ásamt mér áttu góðan vinnufund með KPMG, en bærinn gerði samning við fyrirtækið um heildræna árangursstjórnun í fjármálum. Þar er markmiðið að gera A-hluta Ísafjarðarbæjar sjálfbæran, sem er krefjandi verkefni, og við þurfum að velta við hverjum steini til að leita að fjármagni. Lykillinn er að setja okkur markmið og standa við þau. Best væri auðvitað að fá fleiri íbúa og fyrirtæki til að auka tekjurnar en við þurfum líka að skoða útgjaldahliðina rækilega.

Bæjarstjórn fundaði á fimmtudaginn og það voru þó nokkur áhugaverð mál á dagskrá, þar á meðal þrjú deiliskipulagsmál. Bæjarstjórn veitti heimild sína til að fara í breytingar á deiliskipulagi við hjúkrunarheimilið Eyri en það fyrir liggur að stækka um 10 herbergi eða eina álmu. Þar er verið að skoða tvær staðsetningar annars vegar með byggingu sem vísar að leikskólanum Sólborg og hins vegar að hringtorginu. Báðar staðsetningar hafa sína kosti og galla. Á þessu stigi málsins þarf ekki að taka afstöðu til staðsetningarinnar þar sem gert verður ráð fyrir báðum kostum í vinnunni.

Það var einnig samþykkt að fara í breytingar á deiliskipulagi á Sundabakka. Þar er fyrirsjáanlegt að verði nokkrar breytingar. Vélsmiðjan Þrymur hefur óskað eftir lóð fyrir bátaþjónustu og tengda starfsemi. Fyrirtækið Arctic fish var búið að fá úthlutað stórri lóð sem hefur verið skilað aftur til bæjarins en það gefur tækifæri til að endurskoða skipulagið í takt við nýjar þarfir. Inn í þá vinnu verður að skoða komur skemmtiferðaskipa og aðra starfsemi á hafnarsvæðinu. Þar er markmiðið að tryggja öryggi farþega og skapa svigrúm fyrir annan atvinnurekstur að sinna starfsemi sinni.


Deiliskipulag miðbæjarins á Ísafirði

Þriðja deiliskipulagið sem á að endurskoða er miðbær Ísafjarðar, en gildandi skipulag er frá árinu 1993. Það er eftirspurn eftir lóðum á svæðinu og þetta gamla skipulag heftir eðlilega framþróun bæjarins. Vek athygli á öllum bílastæðalóðunum á besta stað.

Frá kynningarfundi vegna fyrirhugaðrar landfyllingar

Ísafjarðarbær hélt fjölmennan kynningarfund um landfyllingu við Fjarðarstræti. Málið er statt á þeim stað að búið er að senda tillöguna til Skipulagsstofnunar og er nú beðið eftir heimild hennar til að auglýsa tillöguna. Þá tekur við 6 vikna auglýsingaferli og þar gefst öllum að gera athugasemdir sem verður svarað. Þannig að talsvert langt er enn til lands að niðurstaða komi í málið. Gunnar Páll og Erla frá Verkís fóru skilmerkilega yfir málið og svöruðum spurningum úr sal. Það er alveg ljóst að málið er mjög umdeilt og þá skiptir máli að vanda til verka.


Guðrún, Arna og Hafdís í heimsókn á Sólborg

Við Hafdís og Guðrún á skóla- og tómstundasviði skelltum okkur á gleðistund (sem er söngstund) á leikskólanum Sólborg. Þar færðum við leikskólanum bók að gjöf frá Karli og Grétari sem ferðuðust um Vestfirði í sumar á traktorum og vöktu athygli á verkefni Barnaheilla sem heitir Vinátta gegn einelti. Helga leikskólastjóri og Jenný aðstoðarleikstjóri þræddu alla kima leikskólans með okkur eftir að við fengum að syngja aðeins með krökkunum. Virkilega skemmtileg heimsókn þar sem við ræddum ýmsa möguleika á að takast á við fjölgun leikskólabarna og stækkun Sólborgar, auk þess að fara yfir skólalóðina en þar er að finna m.a. tæki frá Hlíðaskjóli sem er gamli leikskólinn minn. Á þeim tíma voru tæki greinilega smíðuð til að endast.

Ég átti fund með ráðgjafafyrirtækinu Boston Consulting Group í lok vikunnar sem er að vinna fyrir Matvælaráðuneytið að stefnumótun fyrir lagareldi, þ.m.t. fiskeldi. Þar lagði ég megináherslu á að fiskeldissveitarfélögin fengju að njóta auðlindagjaldanna af greininni. Það myndi breyta öllu fyrir reksturinn á Ísafjarðarbæ!

Nanný og Steinunn á toppi Þorfinns

Talandi um að leita að fjármunum… Við Nanný Arna og Steinunn bæjarfulltrúar fórum upp á Þorfinn í leit að gullinu í kistunni sem þjóðsagan segir að sé þar. Það er mikið á sig lagt til að bjarga fjárhag bæjarins. Ekki fannst gullið. Við fundum þó eitthvað af fé en misstum það frá okkur. Það er vonandi að okkur gangi betur að fara með fé bæjarins en féð úr Valþjófsdal sem hljóp bara undan okkur og lengst inn í dal. Leiðin upp á Þorfinn er vel stikuð upp - takk Hjörleifur.

Svo fengum við góða óopinbera fjölskylduheimsókn frá bæjarstjóranum í Vesturbyggð sem var að kynna sér uppbyggingu hjólaleiða og pumpubrautar, stutt og skemmtileg heimsókn. Takk fyrir heimsóknina og vonandi komum við vestur til ykkar sem fyrst.