Skipulagslýsing vegna landfyllingar norðan Skutulsfjarðareyrar

Ísafjarðarbær óskar eftir athugasemdum vegna skipulagslýsingar endurskoðunar á Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti þann 14. október síðastliðinn að heimila að skipulagslýsing vegna fyrirhugaðrar landfyllingar og tilfærslu á sjóvörn í Skutulsfirði verði kynnt opinberlega skv. skipulagslögum 123/2010 og að matslýsingin verði tekin til meðferðar í samræmi við VII. og VIII. kafla skipulagslaga nr. 123/2010. 

Markmið aðalskipulagsbreytingarinnar er að auka byggingarland á Ísafirði. Fyrirhuguð landfylling verður utan við Fjarðarstræti, nánar tiltekið frá Norðurtanga að Eyrargötu 2-4 sem er kennt við Íshúsfélagið. Gert er ráð fyrir að meginlandnotkun á fyllingunni verði íbúðarbyggð en einnig verði þar rými fyrir minni þjónustu. Lögð verður áhersla á góða aðstöðu til útivistar, útsýni til sjávar og að fyrirhuguð byggð falli vel að þeirri byggð sem fyrir er. Í aðalskipulagsbreytingunni verður einnig einnig gerð grein fyrir fyrirkomulagi innviða.

Nánari upplýsingar um opna kynningu og samráð verkefnisins verða birtar síðar en gert er ráð fyrir ítarlegu samtali við íbúa bæjarins um landfyllinguna. Hægt er að kynna sér ferli kynningar og samráðs á síðu 10 í skipulagslýsingu.

Skoða skipulagslýsingu

Umsagnir óskast sendar á netfangið skipulag@isafjordur.is eða bréfleiðis á Ísafjarðarbæ, Hafnarstræti 1, 400 Ísafirði, fyrir 12. nóvember 2021.

Hvað er skipulagslýsing?

Í upphafi vinnu að skipulagi tekur skipulagsnefnd sveitarfélagsins saman lýsingu fyrir skipulagsverkefnið þar sem gerð er grein fyrir tildrögum skipulagsvinnunnar og hvernig fyrirhugað er að standa að skipulagsgerðinni. Lýsingin er þannig eins konar verkáætlun fyrir skipulagsgerðina.

Lýsingin er kynnt opinberlega og almenningur fær rödd í skipulagsvinnunni. Samtímis er leitað umsagnar Skipulagsstofnunar og annarra umsagnaraðila.

Helsta markmið skipulagslýsingar er að íbúar og aðrir hagsmunaaðilar, þ.á.m. stjórnvöld, stofnanir og fagaðilar með sérþekkingu á hinum ýmsu sviðum, fái tækifæri til að kynna sér áformin strax í upphafi og geti þannig komið á framfæri athugasemdum og ábendingum um nálgun við áætlunargerðina, viðfangsefni hennar og helstu forsendur.