Sindragata: Fyrsta íbúðin seld.

Fasteignasala Vestfjarða hefur auglýst til sölu 13 íbúðir í nýju fjölbýlishúsi sem er að rísa við Sindragötu 4a á Ísafirði. Viðbrögð væntanlegra kaupenda eru framar vonum en gengið var frá fyrstu sölunni aðeins rúmum sólarhring eftir að auglýsingarnar fóru í loftið. Fjölmargir hafa jafnframt haft samband við fasteignasala og sýnt íbúðunum áhuga.

Húsið er þriggja hæða lyftuhús auk kjallara. Íbúðirnar eru allt frá 52 og upp í 140 fermetrar að stærð að meðtöldum bílskúr.

Á fyrstu hæð eru fimm íbúðir, fimm á annarri hæð og þrjár á þeirri efstu. Vestfirskir verktakar ehf. annast byggingu hússins fyrir Ísafjarðarbæ. 

Framkvæmdir eru í fullum gangi um þessar mundir eins og bæjarbúar hafa eflaust tekið eftir.

Áætlað er að afhenda íbúðirnar í lok árs.

Áhugasamir geta nálgast allar nánari upplýsingar á heimasíðu fasteignasölunnar: www.fsv.is