Minnisblað frá Verkís vegna trjákurls á Eyrarskjóli

Minnisblað Verkís vegna notkunar á trjákurli sem fallvörn á skólalóð leikskólans Eyrarskjóls á Ísafirði var lagt fram á 1210. fundi bæjarráðs sem fram fór þann 12. september. Hönnun lóðarinnar var í höndum Verkís en minnisblaðið var unnið að ósk sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs Ísafjarðarbæjar í kjölfar þess að trjákurl af fallvarnarsvæði á lóðinni stóð í barni. Var óskað eftir því að Verkís tæki saman saman upplýsingar um forsendur fyrir vali á trjákurli sem fallundirlagi við leiktæki á lóðinni.

Svæðið sem um ræðir er 35 m² fallvarnarsvæði undir hengirúmi á afgirtu svæði fyrir minnstu börnin, sem afmarkað er með timburkanti og fyllt með trjákurli. Aðalskoðun á lóðinni var framkvæmd af af BSI, sem hefur faggildingu fyrir árlegar skoðanir leiksvæða, þann 13. júlí 2021, samkvæmt reglugerð um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirliti með þeim nr. 942/2002. Ekki voru gerðar athugasemdir við fallvarnir á svæðinu í þeirri skoðun.

Í minnisblaði Verkís kemur fram að hönnun á lóðinni, val á leiktækjum, búnaði og yfirborðsefnum er í samræmi við gildandi reglur og staðla sem snúa að hönnun leikskólalóða. Hér að neðan er stiklað á stóru varðandi innihald minnisblaðsins en hægt er að lesa það í heild sinni hér.

Hönnun lóðar og aðstæður

Lóðin var fyrst og fremst hönnuð með tækifæri fyrir fjölbreyttan leik barna í huga. Henni er skipt upp í svæði fyrir yngri og eldri börn og mismunandi áherslur eru á svæðunum. Leiktækin eru vottuð og upplýsingar um fallhættu af tækjunum er meðal þess sem gefið er upp á leiðbeiningablöðum. Fallhæð fyrir hengirúmið er gefin upp sem 1,0 m en í miðju þess er fallhæðin mun lægri.

Við val á fallvarnarlagi var horft til staðsetningar norðarlega á landinu, notkunar á lóðinni, bæði notendahópsins og notkunar allt árið. Leiðandi þáttur var að sjálfsögðu öryggisþátturinn því stærsti hluti óhappa á leikskólalóðum, eða um 70%, verður við fall, svo alltaf er reynt að draga úr hættu sem skapast af falli. Annar þáttur sem ýtti undir val á trjákurli var að gefa börnum tækifæri til að öðlast hreyfifærni á ólíku yfirborði.

Fyrir valinu varð trjákurl úr náttúrulegum skógar- og/eða grisjunarviði án fúavarnar og annarra mengandi efna. Samkvæmt staðli er mælt með að stærð trjákurls sé á bilinu 5 – 30mm og á trjáberki 20 – 80mm. Stærð á kurlinu sem varð fyrir valinu er á þessu bili. Til að tryggja dempun var ákveðið að hafa þykkt á laginu meiri en þörf er á við þessa fallhæð eða 30cm sem er viðmið fyrir fall úr allt að þriggja metra hæð. Innflutt kurl var ekki skoðað því með erlendu kurli fylgja mögulega lífverur sem hafa ekki tekið sér bólfestu hér á landi, eru hugsanlega slæmar fyrir íslenskar aðstæður og gætu skaðað lífríkið hér.

Lagarammi og staðlar

Um hönnun leiksvæða gildir reglugerð um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim nr. 942/2002. Í reglugerðinni kemur fram að trjákurl er meðal þeirra yfirborðsefna sem hafa eiginleika til dempunar falls og er nefnt í kafla I. um markmið og gildissvið, undir 3. gr. um skilgreiningar. Greinin er svohljóðandi: „Yfirborðsefni eru þau efni sem notuð eru á yfirborði leiksvæða, svo sem gras, möl, sandur,hellur, malbik, timburpallar og samsvarandi. Einnig yfirborðsefni sem hafa eiginleika tildempunar falls eins og fín rúnuð möl, grófur sandur, trjákurl og öryggishellur, sbr. ÍST EN 1177.“

Staðallinn EN 1177 er einnig notaður í nágrannalöndunum, þar á meðal Noregi, Finnlandi, Svíþjóð og Danmörku. Þegar litið er til Noregs, þar sem vetrarkuldar og frost í jörðu eru síst minni en á Íslandi, kemur fram að sömu fallvarnarefni eru notuð og að trjákurl er meðal annars hægt að nota sem fallvörn fyrir allt að 3 metra fallhæð sem er langt umfram það sem gildir á umræddu svæði.

Sömu upplýsingar varðandi dempandi yfirborðsefni, þar á meðal trjákurl, er að finna í leiðarvísi sem Umhverfisstofnun gaf út og heitir Öryggisvísir leiksvæða. Leiðarvísirinn var gerður í kjölfar þess að reglugerð um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim nr. 942/2002 tók gildi. 

Í bókun bæjarráðs vegna málsins er Verkís færðar þakkir fyrir greinargóða skýrslu. Ráðið telur ánægjulegt að sjá að hönnun lóðar og val undirlags sé samkvæmt öllum öryggisstöðlum og lagareglum. Einnig bókar bæjarráð að fela bæjarstjóra að ræða við framkvæmdastjóra Hjallastefnunnar og leikskólastjóra Eyrjarskjóls til að fara yfir skýrsluna og næstu skref málsins.