Dagbók bæjarstjóra 2025: Vika 34

Bæjarfulltrúar og starfsfólk frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Bæjarfulltrúar og starfsfólk frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Dagbók bæjarstjóra dagana 25.-31. ágúst, í 34. viku í starfi.

Það var ýmislegt á dagskrá bæjarráðs í upphafi vikunnar. Eitt af því var að leggja til við bæjarstjórn að tengja laun kjörinna fulltrúa við þingfararkaup en það hefur ekki verið þannig í Ísafjarðarbæ en flest sveitarfélög hafa það þannig. Þess í stað hefur reglan verið að reikna upp launatölu sem var ákveðin árið 2017. Að tengja launatöluna við þingfararkaup gerir þetta gagnsærra og samanburðarhæft við önnur sveitarfélög. Og, þannig að það sé alveg skýrt, það var ekki verið að hækka launin.

Nokkrir starfsmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga komu í heimsókn til okkar. Þau hittu bæjarfulltrúa, auk Bryndísar bæjarritara. Á fundinum voru rædd málefni Ísafjarðarbæjar og sveitarstjórnarstigsins almennt. Samband íslenskra sveitarfélaga vinnur að eflingu íslenskra sveitarfélaga og að hvers konar hagsmunamálum þeirra. Verulegur hluti starfseminnar felst í hagsmunagæslu fyrir sveitarfélögin gagnvart ríkisvaldinu og öðrum innlendum og erlendum aðilum. Þá er það dýrmætt að starfsfólk sveitarfélaga getur leitað til Sambandsins um hin ýmsu mál sem upp koma, í öllum málaflokkum sem snúa að sveitarfélögum.

Við efndum til íbúafundar á Þingeyri. Þar var rætt hvaða leiðir eða úrræði fólk hefði til eflingar atvinnulífs í byggðarlaginu, undir yfirskriftinni Framþróun á Þingeyri – Hvað getur samfélagið gert til eflingar atvinnulífs? Fundurinn var vel sóttur og umræður góðar. Hátt í 30 manns mættu og voru ýmsar lausnir og möguleikar í verkfærakistu Byggðastofnunar og Hvetjanda kynnt. Þá var Vestfjarðastofa einnig með kynningu á sinni starfssemi og þjónustu sem þau geta veitt fólki sem er með hugmyndir í maganum.

Íbúafundur í félagsheimilinu á Þingeyri.
Frá íbúafundinum á Þingeyri.

Í vikunni kíkti ég í heimsókn í íþróttahúsið á Torfnesi og í sundhöllina á Ísafirði. Þar fór ég yfir málin með umsjónamanni íþróttamannvirkja honum Grétari Helgasyni.

Sigga, Dagný Finnbjörnsdóttir og Grétar Helgason í íþróttasalnum á Austurvegi.
Í íþróttasalnum á Austurvegi. Ótrúlega fallegur salur.

Grétar Helgason og Sigga í anddyri íþróttahússins á Torfnesi, við afgreiðsluna.
Við Grétar í íþróttahúsinu í Torfnesi.

Innviðaþing var í vikunni. Þar mættu þrír ráðherrar ríkisstjórnarinnar og fóru yfir mikilvægi fjárfestinga í innviðum. Ég, eins og fleiri, bíð spennt eftir að vita hvernig samgönguáætlun kemur til með að líta út þegar hún verður birt í haust. Á innviðaþinginu var rætt um verðmætaskapandi fjárfestingar, fjármögnun innviða og öryggi innviða.

Pallborð á Innviðaþingi.
Ráðherrar í pallborði á innviðaþingi.

Stjórn Byggðasafnins fundaði niðrí Neðsta, þetta var fínn fundur en aðalfundur verður að öllum líkindum núna í september. Aðalfundur Hvetjanda var einnig í vikunni. Þær breytingar urðu á stjórn að Arna Lára hætti en í hennar stað kom Nanný Arna.

Stjórn Byggðasafns Vestfjarða á fundi á heimili forstöðumannsins, Jónu Símoníu.
Á fundi í stjórn Byggðasafnsins.

Hollvinasamtök Ágústu á Suðureyri hittust í málningarvinnu í vikunni, ég fór nú bara og dáðist að dugnaðnum, tók mynd og svona. Gaman að sjá bátinn fá svona yfirhalningu.

Sjálfboðaliðar að mála bátinn Ágústu á Sumarróló á Suðureyri.
Öflugir sjálfboðaliðar mála Ágústu á Suðureyri.

Sæunnarsundið fór fram á laugardag. Þetta er í sjöunda sinn sem það er haldið en í ár eru 37 ár síðan að kýrin Sæunn, sem var á leið í slátrun, stökk á haf út og synti yfir fjörðinn og tók land í Valþjófsdal. Til að gera langa sögu stutta þá var henni gefið líf á Kirkjubóli en fljótlega kom í ljós að Sæunn var með kálfi sem fæddist á sjómannadaginn árið eftir, sú var látið heita Hafdís. Sæunnarsundið er semsagt haldið til að minnast þessa atburðar. Í ár tóku 39 manns þátt, veðrið var gott þegar sundgarparnir hófu sundið en svo fór að gola og mikill straumur varð til þess að mörg hver syntu góðan boga út fjörðinn áður en þau tóku land á Flateyri. Það var virkilega gaman að taka á móti þessum görpum þar sem þau komu í land, þvílíkir naglar! Ég fékk þann heiður að ávarpa lokahóf Sæunnarsunds um kvöldið, þá nefndi ég hefði alveg farið í sjósund en aðallega til að ná góðum myndum fyrir Instagramið mitt en af því að ég var svo peppuð þarna í þessum félagsskap þarna þá sagði ég að ég yrði með að ári, obojoboj! Það stefndi í mikla gleði þarna um kvöldið en við Dúi létum okkur hverfa því við þurftum að skjótast bæjarleið suður á bóginn.

Jónína Eyja að koma í land eftir Sæunnarsund.
Það var ekki að sjá á Jónínu Eyju að hún væri búin að synda yfir einn fjörð!

Edda María Hagalín að koma í land í fjörunni á Flateyri.
Edda fjármálastjóri Ísafjarðarbæjar, rúllaði upp Sæunnarsundinu.

Harpa fær aðstoð sjálfboðaliða við að hlýja sér í fjörunni á Flateyri.
Harpa snillingur fór létt með þetta!

Sjálfboðaliðar aðstoða þátttakendur sem eru að koma í land.
Að standa að Sæunnarsundi er mikið og óegingjarnt starf fjölmargra aðila.

Í dag átti ég svo góðan fund í Borgarnesi, á flokksráðsfundi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs. Mikið var nú gott að hitta fólkið sitt, ég segi nú ekki annað. Við áttum uppbyggilegar umræður um alþjóðamál og sveitarstjórnarmál, þar sem unnið var í hópum. Efniviðurinn mun nýtast í vinnu næstu mánuði. Það voru um 90 manns skráð til fundar og breiddin mikil. Ótrúlega gaman að hitta þau öll og ég er strax farin að hlakka til næsta hittings.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson ávarpar flokksráðsfund Vinstri grænna.
Mummi að ávarpa flokksráðsfund VG.

Annars var veðrið dásamlegt þessa viku og nýttum við nokkur tækifæri, bæði fyrir eða eftir vinnu, til að fara út að ganga eða hlaupa, það er ekkert lát á blíðunni virðist vera.

Sigga og Dúi í fjallgöngu ofan Önundarfjarðar.
Gengum á fjöll eftir vinnu einn daginn. Sjáum þarna niður í Önundarfjörð.

Sigga og Dúi á morgunskokki í Súgandafirði.
Morgunsjálfa af okkur Dúa með Geltinum.

Sigga, Steinunn Guðný og Dúi á skokki í Önundarfirði. Þorfinnur í baksýn.
Hlupum langleiðina út að Kálfeyri, þangað sem vegurinn endar.

Núna erum við á keyrslu heim á leið, framundan er skemmtileg vika sem endra nær.