Dagbók bæjarstjóra 2025: Vika 27

Frá afhendingu bekks við Skíðaveg.
Frá afhendingu bekks við Skíðaveg.

Dagbók bæjarstjóra dagana 7.-13. júlí 2025 í 27. viku í starfi.

Jæja þá er ég búin að vera í hálft ár í starfi bæjarstjóra. Þetta er búið að vera býsna lærdómsríkt, annasamt og ekki síst skemmtilegt starf. Sem sagt ríflega þriðjungur af ráðningartímanum lokið.

Vikan var heldur rólegri en undanfarnar vikur og mánuðir. Fólk er mikið komið í sumarfrí, bæði hér í Ísafjarðarbæ og í stjórnsýslunni almennt. Ég hef því nýtt tímann í að lesa mér til gagns í ýmsum málum sem ég hef lítið getað sinnt en nauðsynlegt að vera inni í. Það er hins vegar mikið um að vera í verklegum framkvæmdum hér og þar í Ísafjarðarbæ. Sem dæmi (ekki tæmandi listi):

Í Grunnskóla Ísafjarðar er unnið að þakendurbótum og er verkið um það bil hálfnað.

Grunnskólinn á Ísafirði, gula byggingin, mynd tekin frá skólalóð sem snýr að Blómagarðinum.
Nú í sumar er unnið að endurbótum á þaki Grunnskólans á Ísafirði.

Þá eru að hefjast á næstu dögum þakendurbætur á Grunnskóla Önundarfjarðar. Það er allt á áætlun með gerð nýrrar götu á Hrafnatanga og hluta Skarfatanga með fráveitu, niðurföllum og fleira.

Á Suðureyri eru framkvæmdir að hefjast við gerð gangstéttar meðfram tjörninni. 

Framkvæmdi við gangstétt með fram tjörninni á Suðureyri.
Svo er verið að fara að byrja á gangstétt við tjörnina á Suðureyri.

Þá eru gangstéttaframkvæmdir á áætlun í Tunguhverfi.

Það hefur verið mikið líf á höfninni þessa viku eins og aðrar, fjölmörg skemmtiferðaskip hafa komið og mikið að gera hjá starfsmönnum hafnarinnar. Ég heilsaði uppá þau í morgunkaffi á föstudag og að sjálfsögðu var Jóna Símonía þar með þjóðlegt með kaffinu. Þá rakst ég á Fjölni prest og Árna íþróttakennara á Silfurtorgi í vikunni þar sem þeir voru að spila fyrir ferðafólk, með dyggri aðstoð Hjalta sem er ísfirðingum að góðu kunnur.

Hljómsveitin Maraþonmenn ásamt Hjalta á Silfurtorgi.
Fjölnir, Hjalti og Árni spiluðu á Silfurtorgi í vikunni.

Nokkrir bæjar- og sveitarstjórar á landsbyggðinni stungu niður penna og birtu grein í vikunni. Þar komum við með okkar sjónarhorn á frumvarp um Jöfnunarsjóð sem við teljum mikilvægt að afgreiða á yfirstandandi þingi. Greinin var fyrst birti í Mogganum en svo tóku nokkrir héraðsfréttamiðlar greinina og birtu hjá sér: Greinin á BB

Föstudagurinn var Þingeyrardagur, þá var ég til viðtals í Blábankanum eftir hádegið, auk þess var Erla skipulagsfulltrúi með mér. Það komu fjölmargir að máli við okkur, bæði með fyrirspurnir og ábendingar. Ætli það hafi ekki hátt í fimmtán manns rekið inn nefið.

Viðtalstími í fundarsal á jarðhæð Blábankans.
Blábankaspjall.

Spjallað fyrir utan Blábankann.
Spjallað á Þingeyri.

Dýrafjarðardagar hófust á föstudag og stóðu alla helgina með tilheyrandi fjöri. Sundlaugardiskó, rabbabbaragrautur, yoga, kvikmyndasýning, grill, sagnasýning, candyfloss, markaðstjald, barnaskemmtun og svo margt fleira. Óhætt að segja að það hafi verið hugsað fyrir því að allir aldurshópar fengju eitthvað fyrir sinn snúð. Eins og með aðrar bæjarhátíðir þá gerir enginn neitt einn og því dýrmætt fyrir hvert samfélag að til sé fólk sem er til í að ganga í verkin. Við Dúi fórum á sunnudagstónleika í Þingeryrarkirkju með Bríeti Vögnu sem er frábær tónlistarmaður (frá Þingeyri) en henni til aðstoðar voru Jóngunnar Biering gítarleikari og Óliver Rähni píanóleikari. Efnisskránin var fjölbreytt og flott.

Bríet Vagna á tónleikum í Þingeyrarkirkju.
Frá tónleikum Bríetar Vögnu í Þingeyrarkirkju.

Sigga í ljósmyndaspjaldi Kómedíuleikhússins, sem er máluð mynd af manneskju sem situr á tunnu með stóran kaðalvöndul fyrir framan sig. Á spjaldinu stendur textinn "Ertu búin að spotta Kómedíuleikhúsið?"
Ég hef fyrir löngu síðan spottað Kómedíuleikhúsið, en það var kominn tími á mynd.

Dúi í Skrúð í Dýrafirði.
Við Dúi komum við í Skrúð á helginni.

Á laugardag hófst „Listavestrið“ á Flateyri og kíktum við á verkið „SÚLA III“ eftir myndlistarkonuna Ragnheiði Gestsdóttur í galleríinu Undir brúnni. Undir brúnni er gallerí sem er staðsett undir brú sem er við hlið Tannksins. Brúin var reist 1930 og um hana var eina aksturleiðin til Flateyrar þar til 1983 þegar hún var aflögð.

Gestir við opnun sýningar á Undir brúnni.
Galleríið Undir brúnni.

Í Tankinum var svo flutt hljóðverkið JÖKULL eftir Eirík Stephensen tónskáld og Rún Árnadóttur. Þá voru einnig tvö ljósmyndaverk eftir Hrafnkel Sigurðsson til sýnis, sem eru úr verki hans undir brúnni 2023. Svo var Gabríela Friðriksdóttir listakona með sýninguna STRÖNDINNI í Gömlu Slökkvistöðinni. Það var margt um manninn á þessum stöðum en auk þess voru fleiri sýningar hér og þar á Flateyri.

Sigga Júlla og Ásthildur, bæjarstjóri Akureyrar, á Flateyri.
Það er alltaf gaman að hitta kollega, hér erum við Ásthildur bæjarstjóri Akureyrarbæjar við sýningaropnun á Flateyri.

Í dag tók ég, fyrir hönd Ísafjarðarbæjar, við gjöf í minningu Ásgerðar Hinrikku Annasdóttur sem lést í ágúst á síðasta ári. Hún gekk Skíðaveginn oft í viku í 35 ár eða þar til hún flutti suður 2015, þess vegna ákvað fjölskylda Ásgerðar að gefa bænum bekk að gjöf sem hefur nú verið komið fyrir á bílastæðinu fyrir neðan göngin á Skíðaveginum. Það er frábært að geta tyllt sér á þessum stað og horft yfir Skutulsfjörðinn, útsýnið er ekki slæmt. Ég þakka fjölskyldu Ásgerðar kærlega fyrir þessa höfðinglegu gjöf en ég er þess fullviss að þessi bekkur verði mikið notaður.

Börn og eiginmaður Ásgerðar á nýja bekknum.
Börn Ásgerðar og eiginmaður hennar, Ómar, tylltu sér á bekkinn og ég náði þessari fínu mynd af þeim.

Að lokum þá litum við við á Meðaldalsvelli hjá Golfklúbbnum Glámu í Dýrafirði. Þar fór fram Klofningsmótið í golfi í dag en yfir 60 manns tók þátt. Ég verð að segja að þetta er nú sennilega einn af fallegri golfvöllum landsins en holan á sjöundu braut er sögð ein sú fallegasta á landinu. Ég kann reyndar ekki golf, hef ekkert vit á því en mér finnst gott og gaman að vera úti og þar skil ég golfara vel. Ætla að hæla sjálfboðaliðum í Glámu fyrir fórnfúst starf við að byggja upp þessa glæsilegu aðstöðu, aldeilis ekki sjálfgefið. Vel gert!

Meðaldalsvöllur í Dýrafirði
Meðaldalsvöllur í Dýrafirði.

Verðlaunagripir á golfmóti á Meðaldalsvelli.
Verðlaunagripir á Klofningsmótinu í golfi.