COVID-19: Fréttir af skólum og tómstundastarfi eftir breytingar á skipulagi

Fréttir af skóladeginum þennan fyrsta dag í breyttu skólaumhverfi:

Veðrið kom aðeins við sögu í Grunnskóla Önundarfjarðar, en þar hefur verið lokað í dag vegna veðurs og snjóflóðahættu. Opið var í Grunnskólanum á Suðureyri en vegna veðurs voru ekki margir nemendur mættir. Vel gekk í Grunnskólanum á Þingeyri og mættu allir tilbúnir í þessar breyttu starfsaðstæður. Sömu sögu er að segja af Grunnskólanum á Ísafirði, sem er langstærsti skólinn í sveitarfélaginu, með um 380 nemendur. 

Við þökkum foreldrum fyrir að fylgjast vel með og kynna sér þær breytingar sem hvert og eitt barn þurfti að ganga í gegnum í dag í sínum skóla. Það hefur sannað sig að samstarf heimilis og skóla er mjög mikilvægt fyrir alla.

Leikskólinn Grænigarður á Flateyri var lokaður eins og grunnskólinn. Á Þingeyri og Suðureyri mættu mjög fáir nemendur og nýtti starfsfólk daginn í auka þrif á öllum lekföngum og snertiflötum nemenda. Þar reyndi ekki á nýtt skipulag en starfsfólki gafst tími til að fara betur yfir dagskipulagið til þess að vera viðbúið fleiri nemendum á næstu dögum.

Leikskólinn Sólborg er stærsti leikskóli sveitarfélagsins með rétt rúma 100 nemendur að meðtalinni fimm ára deildinni á Tanga. Þar þarf mögulega að endurskoða skipulagið eftir þennan fyrsta dag og þá í samráði við sóttvarnalækni svæðisins. Beðið er frekari leiðbeininga og álits á skipulaginu sem unnið er eftir í dag og munu upplýsingar birtast á heimasíðu skólans þegar þær liggja fyrir.

Dægradvöl gekk vel í dag og þökkum við foreldrum fyrir skjót viðbrögð þegar forstöðumaður kallaði eftir upplýsingum um mætingu á þessum breyttu tímum.

Sundlaugar Ísafjarðarbæjar eru áfram opnar en skíðasvæðin hafa verið lokuð vegna veðurs. Lágmarksstarfsemi er í íþróttahúsum sveitarfélagsins.

Akstur skólabíls gekk vel í dag en veðrið hafði þó einhver áhrif. Verið er að telja saman þá nemendur sem þurfa að nýta þjónustu skólabíls og vinna að uppsetningu uppfærðs kerfis.

Munum að við sem samfélag tökum einn dag í einu. Sýnum samstöðu og hugum hvert að öðru, þannig komumst við í gegnum þetta.

Stefanía Ásmundsdóttir
Sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs