Dagbók bæjarstjóra 2025: Vika 47
Dagbók bæjarstjóra dagana 24.-30. nóvember 2025, í 47. viku í starfi.
Stjórnarfundur Byggðasafns Vestfjarða fór fram á þriðjudag. Við kíktum í leiðinni á starfsfólk safnsins og kíktum einnig á Krambúðina en þar er verið að undirbúa uppsetningu á jólasýningu. Einnig er ýmislegt spennandi að koma í safnbúðina, allskonar jólavarningur. Mæli með innliti á Byggðasafnið á aðventunni en þar verður opið helgina 13.-14. desember, fimmtudaginn 18. desember og helgina 20.-21. desember.
Jólasýning og jólabúðin opin í Krambúðinni

„Ný“ græja á Byggðasafninu - hvað haldið þið að þetta sé?
Við Bryndís áttum fund með björgunarsveitinni í Hnífsdal en í undirbúningi er endurnýjun á samningi við þau vegna umsjónar á félagsheimilinu í Hnífsdal.
Bakland Í-listans fundaði eitt kvöldið í vikunni, fínasta mæting þar.

Frá baklandsfundi Í-listans.
Úthlutunarhóf Uppbyggingarsjóðs Vestfjarða fór fram á miðvikudag, fjölmörg spennandi verkefni fengu styrki og er gaman að sjá hve gróskan er mikil og sömuleiðis fjölbreytnin.
Úthlutað úr Uppbyggingarsjóði Vestfjarða fyrir árið 2026

Frá úthlutunarhófi uppbyggingarsjóðs Vestfjarða.
Annska og Tinna á úthlutunarhófi uppbyggingarsjóðs Vestfjarða.
Nú standa yfir heilmiklar viðgerðir í Stjórnsýsluhúsinu. Við förum ekki varhluta af því hjá bænum og einkennast vikurnar svolítið af því. Starfsfólk 4. hæðar (skóla-og tómstundasvið og umhverfis- og eignasvið) flutti út í byrjun október upp á 4. hæð á Hlíf á meðan viðgerðir standa yfir í því rými en þar er verið að skipta út loftaklæðningu, breyta aðeins innra skipulagi, mála og gera fínt.
Við á stjórnsýslu- og fjármálasviði (á 2. hæð) tæmdum okkar húsakynni í vikunni þar sem framkvæmdir eru að hefjast þar. Við fluttum okkur niður í Vestrahús, hluti verður í rými hjá Vestfjarðastofu og annar hluti inni hjá Vinnumálastofnun. Við áformum að vera komin aftur á okkar stað í febrúarbyrjun. Þá hefjast samskonar framkvæmdir á velferðarsviði. Við verðum vonandi öll sameinuð hér í húsi aftur fyrir páska. Mikið sem ég hlakka til þess. Fólk talar um að þetta allt saman minni á Covid-tímabilið, sem fæstum langar til að endurupplifa!

Við pökkuðum einu sviði saman í vikunni.
Við Dúi skelltum okkur norður, í heimahaga mína, í hinn fagra Skagafjörð. Það var kominn tími á að hitta fjölskylduna en við erum vön að hittast í aðdraganda jólanna og gera laufabrauð saman. Við keyrðum norður árla morguns á fimmtudag til að eiga aðeins meira en helgina þarna fyrir norðan. Það er alveg glatað að við höfum varla farið norður á árinu, ekki unnist tími til þess sem er fáránlegt, foreldrar mínir búa þar nefnilega. Við áttum góðan tíma með þeim, fórum í sund á Hofsós, skruppum til Akureyrar, tókum skógarrúnt, skreyttum jólagreinar og ýmislegt fleira.

Þegar maður kemur á Krókinn fer maður alltaf að minnsta kosti í Skaffó eða út á Eyri. Eyrin var það í þetta sinn.

Laufabrauð með kúmeni.

Heima, eins og sjá má er bambavæðingin komin norður í Skagafjörð.
Að endingu fórum við snemma af stað úr Skagafirðinum til að ná á jólatréstendringu á Suðureyri og til að syngja á aðventukvöldi í Suðureyrarkirkju. Það var góð mæting á tendringuna en það var einmitt jólamarkaður í félagsheimilinu í dag og fullt af fólki á ferðinni. Aðventukvöldið var sömuleiðis ljúft. Atli Ómarsson hélt jólahugvekju og sagði frá eplaferðinni frægu sem allir Súgfirðingar kannast við að hafa heyrt af (efni í sér pistil). Á eftir bauð hann og fjölskylda í kaffi og köku sem var góður endir á þessari fallegu samkomu. Jólin og jólaundirbúningur var semsagt meginþema þessarar helgar.

Sungið við jólatendringu á Suðureyri.

Við Tinna við tendringuna á Suðureyri.

Hurðaskellir og Stúfur mættu á Suðureyri.
Fyrsti í aðventu í dag og framundan skemmtilegur tími, heitt kakó, smörrebröd og skata… Já og ætli það fari ekki að detta í smá skíðasnjó?

Gleymdi alveg að taka mynd frá aðventukvöldinu en þessi mynd sýnir 1/3 kirkjukórsins á æfingu.