Dagbók bæjarstjóra 2025: Vika 42
Dagbók bæjarstjóra dagana 20. – 26. október 2025, í 42. viku í starfi.
Þetta var mjög fjölbreytt vika, eins og alltaf reyndar. Gleði og sorg.
Svæðisskipulagsnefnd Vestfjarða hittist á vinnufundi á mánudag þar sem farið var yfir ábendingar og umsagnir vegna vinnslutillögu svæðisskipulags. Við ræddum okkur niður á niðurstöðu sem verður svo löguð í texta, myndum og töflum. Við munum svo taka einn afgreiðslufund á Teams í byrjun nóvember og eftir það verður tillagan fullkláruð og send til sveitarstjórna til samþykktar. Eftir það fær Skipulagsstofun boltann og veitir í kjölfarið heimild til að auglýsa tillöguna. Þetta ferli mun taka allt upp í þrjá mánuði. Svo er tillagan auglýst í Stjórnartíðindum og öðlast gildi að afloknum ákveðnum auglýsingatíma og þá ættum við að vera komin í höfn með þetta verkefni í vor. Þannig að upphaflega planið sem við lögðum af stað með er að standast. Það er ánægjulegt.

Svæðisskipulagsnefnd á vinnufundi.
Það er mikil innanhúsvinna búin að vera í gangi í tengslum við fjárhagsáætlun og greinargerð með henni. Hún verður lögð fram til fyrri umræðu í komandi viku.
Það er líka mikið um að vera í uppbyggingu á svæðinu. Læt fylgja hér nokkrar myndir sem ég tók á hlaupa- og göngutúrum vikunnar.

Vestfirskir eru að byggja.

Það er verið að byggja iðnaðarbil á Suðureyri.

Nú eru frístundahús farin að rísa á Dagverðardal.

Niðurrifi lokið hjá Hollvinasamtökunum á Súganda, næst er það uppbygging.
Veturnætur sem er menningar- og listahátíð í Ísafjarðarbæ fór fram 22. – 25. október. Veturnætur eru tveir síðustu dagar sumars á undan fyrsta vetrardegi. Samkvæmt heimildum hafa veturnætur verið ein af meginblótum heiðinna og veisludagur lengi eftir kristnitöku sem náði hámarki á þriðja degi veturnótta sem er fyrsti vetrardagur. Það er skemmtileg hefð að brjóta upp þennan tíma þegar skammdegið hellist yfir. Menningar- og listahátíðin Veturnætur var fyrst haldin hér fyrir vestan árið 1997. Það var áhugafólk um menningu og listir sem tók sig saman og skipulögðu þessa hátíð. Nú síðari ár hefur hún verið undir hatti Ísafjarðarbæjar en fólk er hvatt til að koma með hugmyndir að viðburðum sem settir eru á dagskrá. Úr verður skemmtileg blanda.
Við fórum á útgáfuhóf Gylfa Ólafs vegna útkomu nótnabókar með lögum Villa Valla. Fyrirlestur um saumavélar hjá Arnheiði okkar var skemmtilegur og líflegar umræður sköpuðust í kjölfar fyrirlestursins og gaman að heyra hvað margir tengja við sögu saumavélarinnar á Íslandi og á Ísafirði. Á föstudaginn opnaði einkasýning Gunnars Jónssonar í Safnahúsi, sem ber heitið Sorgarhyrna, þar var fjölmenni. Við skelltum okkur á bíósýningu í Félagsheimilinu á Þingeyri þar sem sýnd var verðlaunamyndin Paradís Amatörsins eftir Janus Braga Jakobsson, sem hlaut dómnefndarverðlaun Skjaldborgar 2025. Svo kíktum við á opið hús í Netagerðinni en það er samvinnu-, lista- og sköpunarrými fjölmargra einstaklinga sem er ótrúlega frumlegt og frjótt fólk.

Rúnar Vilbergs og Gylfi á útgáfuhófi á nótnabók Villa Valla.

Við opnun sýningar Gunnars Jónssonar í Listasafninu.

Arnheiður að ræða um saumavélar.

Í bíó á Þingeyri.
Ein af hefðunum á Veturnóttum er að bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar er útnefndur, athöfnin fór fram í Netagerðinni í gær, laugardag.
Bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar 2025 er Hnífsdælingurinn Ingvar Friðbjörn Sveinsson, Ingi Bjössi, handverks- og listamaður. Til hamingju! Í rökstuðningi menningarmálanefndar fyrir útnefningunni segir:
„Með ótrúlegri nákvæmni, þolinmæði og listrænni sýn hefur Ingi Bjössi skapað líkön af skipum og togurum sem bera með sér sögu sjávarútvegs, menningar og mannlífs við strendur Vestfjarða. Líkönin eru brú milli fortíðar og nútíðar, þar sem hugsað er út í hvert smáatriði. Frumlegt og skapandi efnisval við smíðina vekur verkin til lífs og sýnir mikla færni og virðingu fyrir arfleifð okkar og sögu. Með verkum sínum sýnir Ingi Bjössi að listin býr fyrst og fremst í næmum höndum og hjarta listamannsins.” Ég hvet fólk að kíkja við í litlu skipasmíðastöðinni hans Inga Bjössa í Hnífsdal.

Ingi Bjössi bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar 2025.
Kvennafrídagurinn var 24. október 2025. Þá voru konur hvattar til að leggja niður störf. Ég gerði það hluta úr degi og tók þátt í samkomu sem hófst á Silfurtorgi kl. 14 með göngu niður í Edinborgarhús. Þar gafst mér tækifæri til að ávarpa samkomuna. Það var magnað að sjá þann fjölda sem mætti. Ég vona sannarlega að, að fimmtíu árum liðnum sjáum við jafnmiklar breytingar og orðið hafa á samfélaginu síðastliðin fimmtíu ár. Jafnrétti er ekki ógn – það er forsenda framfara!

Á Silfurtorgi.

Kaja og Bryndís Friðgeirs ræddu um kvennafrídaginn fyrir 50 árum fyrir troðfullum sal í Edinborgarhúsi.
Í dag, 26. október eru 30 ár liðin frá hörmungunum miklu sem dundu á Flateyri þegar snjóflóð féll á byggðina. Það var falleg minningarstund í kirkjunni í dag, þar sem flutt voru ávörp, tónlistaratriði og fyrir utan kirkjuna var kveikt á blysum til minningar um fórnalömb flóðsins. Eftir athöfnina kom fólk saman í samkomuhúsinu og gæddi sér á fallega framreiddum veitingum kvenfélagsins Brynju. Ég hélt stutt ávarp í kirkjunni sem ég læt fylgja hér með í lokin:
„Ágæta samkoma,
Með auðmýkt, virðingu og þakklæti ávarpa ég þessa stund hér í dag.
Það er ekki einfalt að standa hér og koma með öll réttu orðin. Manneskja sem bjó ekki hér, var ekki á staðnum, átti engar tengingar hingað og upplifði þetta ekki á eigin skinni.
Ég, líkt og öll þjóðin, var með íbúum á Flateyri í anda þennan morgun, þennan dag, daga, vikur, mánuði og ár á eftir.
Þetta er einn af þessum atburðum þar sem fólk man hvar það var þegar það fékk fréttirnar.
Í minningunni var gott veður í Skagafirði þennan morgun. Það hafði snjóað en það hafði gengið yfir mikið ísingarveður þar sem tugir rafmagnsstaura brotnuðu. Ég hafði verið á næturvakt á sambýli á Sauðárkróki. Ég hreinlega man ekki eftir rafmagnsleysi, það hefði líka verið svo léttvægt og það var ekkert óvenjulegt ef ísingarveður gengu yfir á þessum árum. Ég aðstoðaði íbúana á fætur, fjórar ungar stúlkur með fötlun sem bjuggu þar saman. Við fengum okkur morgunmat og svo héldu þær útí daginn í sitt prógram. Sjálf lagði ég af stað keyrandi heim. Þá fyrst kveikti ég á útvarpinu og heyrði þá í fréttum að það hafi fallið flóð fyrir vestan. Ég man að það var allt frekar óljóst, mér fannst þetta með ólíkindum því það var svo stutt síðan Súðavíkurflóðið féll, hugsaði til ömmu en hún var frá Súðavík en hafði verið í fóstri á Flateyri framyfir fermingu. Það var eina tenging mín þarna vestur.
Ég hafði skipulagt það að koma við í einu húsi á leiðinni heim þennan morgun, húsi í Varmahlíð. Planið var að sækja Avon snyrtivörur sem ég hafði pantað á heimakynningu nokkru áður hjá fyrrum samstarfskonu minni og þá var alveg eins víst að mér yrði boðið inn í kaffi. Ég renndi að snyrtilegu húsi við Birkimel 9. Ég beið í smá stund eftir að hurðin luktist upp. Það sem blasti við mér mun ég aldrei gleyma. Þarna stóð Þorbjörg Freyja Pétursdóttir og aðeins aftan við hana stóð Gísli Sæm maðurinn hennar. Þau voru óttaslegin, sorgmædd, hrædd, niðurbrotin. Búin að fá fréttir í útvarpi og vissu ekki meir. Flateyri var þorpið hennar. Ég hef verið að reyna að finna orð sem ná yfir þá tilfinningu sem heltók mig, það var blanda af samkennd, sorg og einhverju öðru sem erfitt er að setja í orð.
Þyngsli.
Við vitum öll hvernig dagurinn þróaðist, þið vitið það best.
Ég, líkt og öll þjóðin, fylgdist lömuð með fréttum. Þetta var allt svo óraunverulegt. Og er það enn.
Það sem oft er hvað erfiðast við áföll, þegar ástvinir manns eru teknir frá manni er að fá ekki tækifæri til að kveðja. Þess vegna er minningarstund svo mikilvæg. Það er gott og nauðsynlegt að syrgja og eðlilega hugsum við hvað ef…. En við verðum öll að horfa fram á veginn, við gerum það fyrir þau sem lifðu þennan harmleik af, afkomendur þeirra og fyrir samfélagið.
Við þurfum líka að horfast í augu við að áföll og afleiðingar þeirra geta erfst niður til næstu kynslóða. Ef við hlúum ekki að okkur sjálfum eftir áfall, þá er hætt við að börnin okkar fái eitthvað í vöggugjöf sem þau áttu ekki skilið.
Landið okkar og náttúran er ólíkindatól sem kynslóðirnar hafa lært að lifa með í gegnum aldir. Við þekkjum það en við eigum erfiðara með að sætta okkur við eða lifa með áföllunum sem fylgja.
Það að koma hér saman, minnast fólksins og þessara hamfara, minnir okkur á hve lífið er hverfult, minnir okkur á hversu dýrmætt lífið er. Það er ekki sjálfgefið.
Öll verðum við fyrir áföllum. Þau geta verið ólík en áföllin koma, þannig er lífið. Það er líka gott að hafa í huga að tilfinningarnar sorg og gleði eru systur.
Hlúum að lífinu okkar. Hlúum að náunganum. Hlúum að fólkinu okkar og okkur sjálfum. Horfum brosandi fram á veginn með það veganesti sem okkur hefur verið úthlutað – hvort sem það kom frá gleðinni eða sorginni.“

Eitt ljós fyrir hvert líf sem fór í hamförunum á Flateyri 1995.

Eftir minningarstundina á Flateyri.

Ég og Benóný fluttum bæði ávörp á minningarstundinni. Benóný lenti þyrlunni á Flateyri 26. október 1995. Hetja.