Dagbók bæjarstjóra 2025: Vika 40

Í húsi Samtaka sveitarfélaga í Osló.
Í húsi Samtaka sveitarfélaga í Osló.

Dagbók bæjarjstóra dagana 6.-12. október 2025, í 40. viku í starfi.

Mánudagurinn var annasamur, þeir eru það gjarnan mánudagarnir.

Í bæjarráði sátum við kynningu á frumvarpi til laga um breytingar á sveitarstjórnarlögum. Umsagnarfrestur rennur út núna 13. október og erum við að undirbúa umsögn. Inni á samráðsgáttinni má sjá öll mál sem liggja frammi til umsagnar. Sum mál skipta okkur meira en önnur en það er verkefni okkar að vakta og láta okkar rödd heyrast. Þá átti ég nokkra vinnufundi, þar á meðal vegna framkvæmdaáætlunar sem lögð verður fram í bæjarráði á morgun (13. okt) ásamt fyrstu drögum að fjárhagsáætlun næsta árs.

Á þriðjudag flaug ég út til Noregs, ásamt nokkrum bæjar-/sveitastjórum í Samtökum sjávarútvegssveitarfélaga. Þennan fyrsta dag fórum við til Osló og hittum fulltrúa frá norskum sjávarútvegssveitarfélögum (NFKK). Þá fengum við kynningu á Kommunesektorens organisasjon sem eru samtök allra sveitarfélaga og sýslna/fylkja (kommuner og fylkeskommuner). Einnig fengum við kynningu á sjávarútvegi í Noregi (Sjomat Norge). Eftir allar þessar kynningar fórum við með innanlandsflugi til Ålesund.

Miðvikudeginum var varið í kynningu á landeldi. Við fórum í heimsókn á skrifstofu Salmon Evolution þar sem við fengum kynningu á uppbyggingu fyrirtækisins og eftir þá kynningu örkuðum við niður á bryggju þar sem við stukkum um borð í bát sem flutti okkur út í eyjuna þar sem fyrirtækið er með eldiskvíarnar. Siglingin tók rúmlega einn og hálfan klukkutíma, í roki og mikilli ókyrrð. Það voru ekki sæti fyrir alla um borð í þessum bát þannig að við sem stóðum fengum alveg ágætis hreyfingu út úr þessu. Það var fróðlegt að skoða landeldið en ég hafði í rauninni ekki gert mér grein fyrir stærðunum á þessum kvíum og öllum þeim tæknibúnaði sem þarf til að dæla sjó inní þær og út. Þá er heilmikil þróunarvinna í gangi um nýtingu úrgangs frá kvíunum sem unnið er í samstarfi við bændasamfélagið. Við stoppuðum þarna góða stund en þegar við fórum til baka var veðrið orðið mun verra og við því að búast að ferð á bátnum yrði mun erfiðari en fyrr um daginn. Þannig að það endaði með að við fórum til baka með rútu en þó þetta sé á eyju þá hefur verið brúað, sem betur fer. Ferðin til baka tók um tvo tíma og var bara ánægjuleg viðbót, fengum ýmsan fróðleik frá bílstjóranum um allt milli himins og jarðar. Til dæmis sagði hann okkur að frá Molde (sem við keyrðum í gegnum) sést til 222 fjallstoppa.

Maður stendur við upplýsingaspjald um landeldi.
Þarna erum við komin í landeldið, mæli með að fólk gúggli Salmon Evolution, þá sést vel hvernig þessu er komið fyrir a eyjunni.

Hópurinn í bláum hlífðarfatnaði inni í eldiskví.
Inní eldiskví hjá Salmon Evolution.

Á fimmtudeginum hittum við bæjarstjóra Ålesund, formann bæjarráðs og fulltrúa frá viðskiptaráði á svæðinu. Þá fengum við kynningu á verkefni sem þau eru í og snýst um mengun, mengunarvarnir, vöktun og úrbætur við strendur Ålesund. Í Åleseund búa um 59 þúsund íbúar í fjölmörgum byggðakjörnum. Þarna er stór skemmtiskipahöfn en á ári hverju koma um 700 þúsund skemmtiskipafarþegar til Ålesund. Það er sérstaklega snyrtilegt þarna en það kom bæjarstjóranum á óvart þegar við hældum honum fyrir það en hann vildi meina að hann fengi meira að heyra hvað miður færi í sambandi við umhirðu, rusl og annað í bænum. Könnumst öll við það, oftar sem við fáum að heyra hvað er að frekar en það sem vel er gert.


Íslenski hópurinn með formanni bæjarráðs, bæjarstjóra Álasunds og fulltrúa viðskiptaráðs.

Eftir hádegi örkuðum við aftur niður á höfn og þá var meiningin að taka bát til Hareid sem er eyja sunnan við Ålesund og heimsækja þar fyrirtækið Trident Aqua. Hjá þeim ætluðum við að skoða fóðurpramma og báta. Þegar við mættum á bryggjuna var bið eftir bátnum og svo kom í ljós að hann var veðurtepptur á Hareid. Það var vægast sagt komið snarbrjálað veður með þrumum, eldingum og úrhelli. Bátaferðir lágu niðri fram til kvölds. Þar með var öllum plönuðum fundum og skoðunarferðum lokið. Við nýttum hins vegar tímann og náðum að ræða ýmis mál okkar á milli sem oft er gott að „spegla“ sig í við fólk sem gegnir sömu stöðu og maður sjálfur. Það má nefnilega ekki gera lítið úr því hvað það skiptir máli að efla tengsl milli fólks sem hefur sömu hagsmuni að verja.

Hópurinn við fundarborð í ráðhúsinu.
Á fundi í ráðhúsi Ålesunds.

Bæjarstjórarnir Sigga, Gerður frá Vesturbyggð, Eyrún frá Dalvíkurbyggð og Íris frá Vestmannaeyjum í fjallgöngu.
Það var oft hressandi veðrið þarna í Ålesund. Við létum það þó ekki aftra okkur (ég, Gerður frá Vesturbyggð, Eyrún frá Dalvíkurbyggð og Íris frá Vestmannaeyjum).

Gerður og Sigga við tvær tröllastyttur.
Við Gerður heilsuðum upp á tröllin en þau eru mjög áberandi í Ålesund.


Svona var veðrið í Ålesund þegar öllum ferðum var aflýst.

Á föstudagsmorgni var svo flogið frá Ålesund til Osló og þaðan flugu þau öll heim.

Ég ákvað hins vegar að dvelja tvær aukanætur í Osló, Dúi kom og hitti mig þar. Ég fór í mastersnám til Noregs á sínum tíma, bjó þar í tvö ár og á því sterkar taugar til lands og þjóðar. Það var því ekki annað hægt, úr því ég var komin en að taka smá frí í Osló. Það var mikið um að vera í borginni þessa helgina. Á laugardaginn var þingsetning og fullt af fólki í miðborginni, sparibúið til að heiðra þingmenn og svo auðvitað konungsfjölskylduna.

Norska þingið
Þingsetning í norska þinginu.

Sigga og Dúi á tröppum í Vigelundsparken í Osló.
Tókum góðan hlaupatúr, kíktum við í Vigelandparken.

Sigga á þakbar Grand Hotel, útsýni yfir húsþökin í miðborg Osló.
Á rooftop bar á Grand hotel, við hlið þinghússins í Osló.

Svo var bara flugið tekið í morgun og núna erum við að bruna vestur, með smá nestisstoppi í Bónus. Ég hugsa að ég verði smá tíma að melta þessa ferð, hlakka til að rúlla í gegnum glærurnar og spá og spegúlera.

Sigga með frændfólki á bílaplaninu við Bónus í Borgarnesi.
Á heimleið, við Bónus í Borgarnesi hitti ég þessa kæru ættingja að norðan.