Dagbók bæjarstjóra 2025: Vika 36

Dagbók bæjarstjóra dagana 8.-14. september 2025, í 36. viku í starfi.

Bæjarráðsfundurinn var í styttra lagi þessa vikuna, aðeins fimm dagskrárliðir, það gerist stundum.

Fundur í svæðisskipulagsnefnd snerist um að yfirfara umsagnir og athugasemdir við vinnslutillögu svæðisskipulags. Svæðisskipulagið verður svo til umræðu á Fjórðungsþingi í komandi vinnuviku.

Mennta- og barnamálaráðherra kom til fundar við mig á mánudag, með honum í för var aðstoðarkona og tveir embættismenn úr ráðuneytinu. Við ræddum mestmegnis stöðuna á undirbúningi á byggingu verknámshúss við MÍ. Eins og áður hefur komið fram þá skrifaði Ísafjarðarbær, ásamt fleiri sveitarfélögum á Vestfjörðum, undir viljayfirlýsingu um aðkomu að þeirri byggingu. Í viljayfirlýsingunni kemur fram að sveitarfélögin muni greiða 40% af kostnaði. Það er því augljóst að við verðum að vera VEL upplýst því við (sveitarfélögin) þurfum að gera ráð fyrir útgjöldum í okkar framkvæmdaáætlunum til næstu ára. Í samtalinu kom fram að nú sé verið að undirbúa útboð á ástandsmati þeirra bygginga sem fyrir eru, þá muni vinna við þarfagreiningu og hönnun fara í gang á næsta ári.

Þá ræddum við um áhrif snjalltækja- og samfélagsmiðla á líf og líðan barna og ungmenna. Það er umræða sem ég held að muni fara á mikið flug næstu misserin en þetta er einmitt eitt af því sem Halla forseti hefur lagt áherslu á undanfarið.

Sigga með Guðmundi Inga, mennta- og barnamálaráðherra. Þau standa fyrir framan málverk af Flateyri sem er inni á skrifstofu bæjarstjóra.

Við Guðmundur Ingi, mennta- og barnamálaráðherra áttum góðan fund.

Undirbúningshópur farsældar og inngildingar á Vestfjörðum átti sinn fyrsta fund í vikunni, í honum sitja fulltrúar allra sveitarfélaga á Vestfjörðum. Hópnum er ætlað að undirbúa stofnun farsældarráðs Vestfjarða en farsældarráði er ætlað að efla og samræma þjónustu við börn og fjölskyldur. Það væri þá gert meðal annars með því að styrkja samstarf og tryggja jöfn tækifæri barna til þátttöku, náms og félagslegrar virkni þvert á kerfi. Við þurfum að undirbúa þetta vel svo það nýtist og er undirbúningshópnum ætlað að vinna þetta núna á haustmánuðum svo hægt verði að skipa í ráðið fyrir jól.

Vinnufundur bæjarstjóra, sviðsstjóra og slökkviliðsstjóra vegna fjárhagsáætlunargerðar 2026, með megináherslu á framkvæmda- og viðhaldsáætlanir sveitarfélagsins, fór fram á þriðjudag. Góð yfirferð þar sem verður svo unnið áfram inni í fastanefndum núna í september. Eftir það verður unnið með þessar áætlanir inn í fjárhagsáætlunargerð 2026 en fyrri umræða mun fara fram í bæjarstórn 30. október næstkomandi.

Þessi vika var mjög stutt vinnulega séð því við Dúi fórum í frí með foreldrum mínum til Rómar, flugum út á miðvikudag og komum til baka nú í kvöld (sunnudagskvöld). Alveg passlegt að eiga þrjá heila daga í borginni plús ferðadagana. Dvölin í Róm var ljómandi, þar sem við skoðuðum okkur um, borðuðum góðan mat og hittum vini. Við fórum á nokkra af mörgum túristastöðum borgarinnar eins og Coloseum, Pantheon, Borghese garðinn, Vatíkanið, Veneziatorgið, Blómatorgið og svo var hótelið okkar rétt við spánska torgið.

Sjálfa af Siggu og Dúa við lítið vatn í Borghese-garðinum í Róm. Þau eru í hlaupafötum.
Morgunskokk í Boghese garðinum, geggjaður garður.

Við fórum á tónleika með þremur tenórum sem sungu nokkrar vel valdar ítalskar perlur. Þá urðum við óvænt vitni að upphitun fyrir stóra tónleika sem voru í bígerð á Péturstorgi eitt kvöldið, þar sem örugglega nokkur hundruð manna góspelkór söng, það var alveg magnað. Við áttum góða samveru með vinkonu minni til margra ára Þórunni Péturs og Mumma manninum hennar en þau búa í Róm þar sem hún gegnir embætti hjá FAO (Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna). Hennar verkefni þar snúa meðal annars að jarðvegsvernd og endurheimt vistkerfa sem spilar stórt hlutverk þegar kemur að fæðuöryggi heimsins.

Tónleikar þriggja tenóra í kirkju í Róm, mynd tekin úr sal. Tenórarnir standa við altarið.
Á tenóratónleikum í lítilli kirkju.

Sigga með Þórunni vinkonu sinni undir sólhlíf á Pantheon-torginu í Róm.
Við Þórunn á góðri stundu við Pantheon torgið.

Það sem mér fannst merkilegt og eiginlega mjög til umhugsunar fyrir okkur íslendinga það er hvað Rómverjar hafa verið framsýnir á sínum tíma þegar þeir lögðu vatnslagnir um borgina. Bókstaflega undir hótelinu okkar liggur til dæmis vatnslögn frá því fyrir tíma Krists. Um alla borg eru svo gosbrunnar og vatnsbrunnar með drykkjarhæfu vatni sem fólk nýtir sér óspart. Þarna gengur fólk um með sínar vatnsflöskur og fyllir á eftir þörfum. Maður þarf allavega ekki að óttast að þorna upp þarna því þessir vatnsbrunnar eru úti um alla borg.

2000 ára vatnshleðsla neðanjarðar skoðuð.
Þessi hleðsla er hluti af yfir tvöþúsund ára vatnslögn sem liggur undir borginni. Hún virkar enn.

Fólk sækir sér vatn úr skrautlegum vatnsbrunni við Péturstorgið í Róm.
Einn af mörgum vatnsbrunnum Rómar. Þessi er við Péturstorgið.

Dúi og foreldrar Siggu sækja sér vatn í lítinn brunn að kvöldi til.
Einn af mörgum vatnsbrunnum Rómar, þessi kom sér vel á leið heim á hótel.

Nú erum við á keyrslu heim á leið. Framundan er annasöm vika sem mun einkennast af Fjórðungsþingi Vestfirðinga, nánar um það í næstu dagbók.