Dagbók bæjarstjóra 2025: Vika 33

Ég talaði til liðsins og þakkaði þeim fyrir dugnað og seiglu og fyrir að koma með bikarinn heim.
Ég talaði til liðsins og þakkaði þeim fyrir dugnað og seiglu og fyrir að koma með bikarinn heim.

Dagbók bæjarstjóra dagana 18.-24.ágúst 2025, í 33. viku í starfi.

„Basic“ vika framan af……

Innviðaráðherra hélt opinn fund í vikunni, fundurinn var vel sóttur af fólki frá öllum Vestfjörðum. Þar fór ráðherra yfir þau verkefni sem eru á hans borði. Hann ræddi aðeins samgönguáætlun sem verður lögð fyrir á haustþingi, en sagðist jafnframt ekki gefa upp þá forgangsröðun sem hann leggi til í jarðgangnaframkvæmdum fyrr en í ræðustól Alþingis. Þannig að nú stilla allir á Alþingisrásina þegar þingið tekur til starfa.

Hann sagði það mjög afdráttarlaust að hann myndi rjúfa kyrrstöðu í jarðgangnagerð. Hann talaði um aukningu á fjárframlögum til viðhalds vega, að það væri vinnuhópur að störfum um „Hringveg 2“. Þá sagðist hann ætla að beita sér fyrir eflingu strandsiglinga, styrkingu fjarskiptainnviða og þá ítrekaði hann það að innanlandsflug til Ísafjarðar yrði áfram.

Fundarfólki gafst kostur á að spyrja spurninga og koma með áherslupunkta fyrir hann. Gylfi Ólafsson fór yfir áherslur sveitarfélaga á Vestfjörðum í heild sinni og benti til að mynda á að vetrarþjónustu á vegum sé ábótavant og þar þyrfti að koma til reglugerðarbreyting sem ráðherra gæti beitt sér fyrir. Þá ítrekaði hann það að vegabætur væru forsenda atvinnuuppbyggingar og nefndi Hvalárvirkjun og vegagerð norður í Árneshrepp í því sambandi. Semsagt, fjörugur fundur.

Fundur innviðaráðherra í Bryggjusal Edinborgarhússins. Ráðherra er í pontu.
Á fundi með innviðaráðherra.

Ég nýtti vikuna til að semja nokkur erindi sem ég mun flytja á næstu vikum, kom sér vel að vera ekki of mikið bókuð á fundum.

Hnífsdælingar halda áfram að láta hendur standa fram úr ermum, en í sumar tóku tveir aðilar sig til og löguðu tröppurnar uppí Kapellu (gamla barnaskólann). Frábært framtak!

Tveir menn gera við tröppurnar við gamla barnaskólann í Hnífsdal.
Gert við tröppur í Hnífsdal.

Ég fékk skemmtilega heimsókn á skrifstofuna í vikunni. Það var auka-foreldrið mitt, Olla frænka. Hún passaði mig þegar ég var lítil þegar hún bjó í Smiðjunni og við í ömmu og afa húsi í Lækjargötunni á Akureyri. Olla kemur árlega vestur og dvelur þá í Bolungarvík, þar sem hún fæddist og sleit barnsskónum.

Selfie af Siggu og Ólafíu Jónatansdóttur
Ég og Olla frænka (Ólafía Jónatansdóttir).

Reykjavíkurmaraþon og menningarnótt fóru fram í gær. Við Dúi hlupum hálfmaraþon. Þetta var, eins og alltaf, skemmtilegt. Mikið af fólki og mikil gleði. Okkur Dúa var boðið í hressingu í Fógetagarðinum, hjá Valur skokk. Þar var skálað fyrir góðu gengi í hlaupi og fyrir Vestra. Skemmtilegt. Það var líka gaman að hitta synina en við skelltum okkur á árlega tónleika í bakgarðinum á Dillon. Fengum okkur að borða og urðum vitni að magnaðri stund á Arnahóli þegar fólk sameinaðist í mínútuþögn í minningu Bryndísar Klöru.

Sigga, Dúi og Silla systir Siggu við styttu í miðborg Reykjavíkur.
Klár í hlaupið!

Dúi og Pétur Markan, bæjarstjóri Hveragerðis, við upphaf hlaupsins.
Tilbúnir í startið, Dúi og Pétur Markan.

Skokkhópur Vals í Fógetagarðinum í Reykjavík.
Við Dúi og félagar í skokkhóp Vals, Valur skokk.

Fræbblarnir á sviði í garðinum við Dillon.
Á Dillon, Fræbbblarnir á sviði.

Stærsta mál vikunnar var glæsilegur sigur Vestra, en bikarúrslitaleikur í Mjólkurbikarnum fór fram á föstudag á Laugardalsvelli. Þar mættust Vestri og Valur. Mikið húllumhæ var vegna þess, en stuðningsfólk Vestra hittist fyrir leik til að keyra upp stemminguna. Það voru margir Vestfirðingar staddir í Reykjavík af þessu tilefni og að því sem mér skilst hafi verið seldir tæplega fjögur þúsund miðar á leikinn.

Arna Lára Jónsdóttir og Sigga Júlla í stúkunni á Laugardalsvelli.
Við Arna Lára fyrir leikinn.

Sigga Júlla ásamt Vestfirðingum í stúkunni.
Spennan var ólýsanleg á vellinum.

Leikurinn var æsispennandi og endaði, eins og alþjóð veit, með sigri okkar manna í Vestra. Þessi sigur byggir á grunni mikillar vinnu síðustu ára og áratuga af hendi liðsmanna, sjálfboðaliða, þjálfara og samfélagsins alls. Í kvöld fögnuðum við svo á Silfurtorgi þegar bikarmeistararnir mættu með bikarinn og við fögnuðum þeim með frábærri stund. Þar mátti sjá margar kynslóðir samankomnar, fólk sem hefur í áratugi sýnt íþróttastarfi hér vesta stuðning í verki, unga krakka sem eiga alltaf eftir muna þessa stund og iðkendur gamla, nýja og væntanlega. Kæru bikarmeistarar, þið eruð fyrirmyndir þessara krakka. Takk strákar! Þið eruð snillingar.

Gamla góða hjátrúin gerði það að verkum að það var ekki farið í að skipuleggja sigurhátíðina á Silfurtorgi fyrir fram. Skipulagning hófst formlega í gærmorgun (laugardag) en þetta hafðist, allt klárt og allir komnir vestur kl. 19 í kvöld (sunnudag). Það samstarf sem við Sammi formaður áttum við skipulagningu á þessari sigurhátíð gefur mér innsýn í það að þessi maður á sinn þátt í þeim árangri sem Vestri er að ná. Takk Sammi og takk öll sem lögðuð hönd á plóg!

Starfsmenn áhaldahússins setja upp svið á Silfurtorgi.
Strákarnir í áhaldahúsinu setja upp svið fyrir sigurhátíð.

Nýtt svið Ísafjarðarbæjar á Silfurtorgi.
Nýja sviðið er algjör snilld.

Lið bikarmeistara Vestra komið á sviðið á Silfurtorgi.
Bikarmeistarar Vestra á Silfurtorgi.

Sigríður Júlía með bikarinn á Silfurtorgi.
Ég fékk að halda á bikarnum.

Kveikt á rauðum blysum á Silfurtorgi.
Sigurhátíð á Silfurtorgi.

Leikmaður Vestra gefur börnum eiginhandaráritanir.
Liðsmenn gáfu sér tíma til að gefa eiginhandaáritanir.

Sjálfboðaliði gengur frá fánum og öðru dóti á torginu að hátíð lokinni.
Tekið til eftir sigurhátíðina.

Starfsmenn áhaldahússins sópa upp rusli og ganga frá á Silfurtorgi að hátíð lokinni.
Tekið til eftir sigurhátíðina.