Dagbók bæjarstjóra 2025: Vika 28

Komið upp að fyrstu vörðu ofan við Steig í Veiðileysufirði.
Komið upp að fyrstu vörðu ofan við Steig í Veiðileysufirði.

Dagbók bæjarstjóra dagana 14.-20. júlí 2025, í 28. viku í starfi.

Vikan hófst sem endra nær á bæjarráðsfundi, þetta var sá síðasti þar til í ágúst. Þannig að nú verður ekki fundað í bæjarráði næstu þrjá mánudaga, ekki fyrr en 11.ágúst n.k. Ég fundaði með Arnari og Sigríði Elínu frá Byggðastofnun. Þar fórum við yfir ýmislegt sem við getum leiðbeint íbúum Þingeyrar með varðandi möguleika sem snúa að atvinnuuppbyggingu eða réttara sagt hvaða stuðning styrki og lán hægt er að sækja til Byggðastofnunar. Möguleikarnir eru ýmsir eins og t.d. styrkur til reksturs verslunar í dreifbýli og sérstök lán til verkefna í viðkvæmum byggðarlögum svo eitthvað sé nefnt. Við munum fara yfir þetta allt á fyrirhuguðum íbúafundi á Þingeyri sem verður í lok ágúst.

Ég notaði vikuna til að klára ýmis mál sem eru á mínu borði og undirbúa mig fyrir að vera ekki á skrifstofunni næstu tvær vikur.

Á föstudaginn var ég við opnun á afmælissýningu Slunkaríkis en á þessu ári eru liðin 40 ár frá því að Myndlistarfélag Ísafjarðar stofnaði galleríið. Á sýningunni eru fjölbreytt verk eftir þau Loga Leó Gunnarsson og Unu Björg Magnúsdóttur, meðal annars fundin pappírsverk, málmskúlptúra, staðnaða skugga og endurtekin umhverfishljóð. Lengi vel var Slunkaríki til húsa að Aðalstræti 22 sem nú hýsir Gallerí Úthverfu en fluttist í Edinborgarhúsið árið 2007. Í tilefni af þessari 40 ára sögu efndu Slunkaríki og Úthverfa til fölbreyttrar dagskrár á afmælisárinu. Samhliða opnuninni í Edinborgarhúsinu sl föstudag opnaði einnig í Úthverfu sýning með verkum Roni Horn.

Elísabet Gunnarsdóttir ávarpar gesti við opnun fyrir utan Gallerí Úthverfu.
Elísabet Gunnars ávarpar gesti við opnun sýningar á verkum Roni Horn í Gallerý Úthverfu.

Um helgina bættist við skemmtilegur viðkomustaður á Ísafirði, svo kallað blómasæti. Forsagan er sú að í vor sótti Sara Björgvins um í styrktarsjóði Hafna Ísafjarðarbæjar til þess að gera blómasæti fyrir bæjarbúa og ferðamenn. Hún fékk Ístækni til að hanna og smíða grindina. Síðan skreytti Sara en markmiðið er að skreyta blómasætið í takt við hverja árstíð eða hátíðir. Þetta er gert til þess að gleðja augað og vekja athygli á fallega bænum okkar. Frábær hugmynd Sara! Ég vil hvetja fólk til að „tagga“ Blómahornið (fyrirtæki Söru) og Ísafjarðarbæ ef það póstar myndum á Instagram #blomahornid #isafjardarbaer

Sara og Bessa, móðir hennar, skreyta blómasætið við Pollgötuna á Ísafirði.
Sara og Bessa að skreyta blómasætið.

Sara í blómasætinu.
Sara í blómasætinu. Glæsilegt!!

Ég prófaði að hlaupa/ganga heim úr vinnunni í vikunni. Dúi kom með mér en okkur var skutlað út í Hnífsdal, hlupum inn dalinn, upp og yfir Heiðarskarð, yfir í Syðridal í Bolungarvík, þaðan inneftir upp Gilsbrekkuheiði, eftir slóða sem þarna liggur yfir í Súganda fyrir neðan Kistufell og Gyltuskarð, niður með Búrfelli og inn á Botnsheiðarveg. Hlupum þar niður að gangnamuna og niður að Botni þar sem Þórður pikkaði okkur upp. Þetta urðu 21 km. Hefði auðvitað getað farið frá Ísafirði og alla leið til Suðureyrar en þá hefðu bæst við ca 13 km, en við höfðum ekki alveg tíma í það, í þetta sinn. Þessi leið er mjög skemmtileg, veðrið var líka með okkur í liði.

Sigríður að ganga eftir línuvegi á fjöllum.
Ég að ganga heim úr vinnunni.

Sigga innst í Hnífsdal.
Í Hnífsdal.

Horft niður Súgandafjörð frá Botnsheiði.
Súgandafjörður.

Það er margt um að vera, mikið af ferðafólki á svæðinu en um helgina fór fram Hlaupahátíð á Vestfjörðum.

Sjálfboðaliðar við marksvæði í Óshlíðarhlaupinu, á flötinni Pollmegin við Hótel Ísafjörð.
Frá Hlaupahátíðinni, þarna er marksvæðið fyrir Óshlíðarhlaup og utanvegahlaupið á föstudagskvöldið.

Hjalti og Hafdís að bíða í markinu eftir þátttakendum í Óshlíðarhlaupinu.
Hjalti og Hafdís, tilbúin að taka á móti keppendum í Óshlíðarhlaupi.

Við Dúi höfðum skráð okkur í 10 km Vesturgötu en síðan var okkur boðið í afmæli norður í Kvíum í Lónafirði (Jökulfjörðum), sem við gátum ekki sleppt. Við mátum það svo að hlaupahátíðin er haldin árlega, við höfum oft tekið þátt en þetta tiltekna afmæli er bara haldið einu sinni. Við sigldum frá Ísafirði, tókum land á Steig í Veiðileysufirði og gengum þar í góðum félagsskap yfir að Kvíum í Lónafirði þar sem afmælið var haldið. Við gæddum okkur á góðum veitingum, spjölluðum og skemmtum okkur fram á kvöld, veðrið var uppá sitt besta og við vorum södd og sæl á sál og líkama þegar við heldum heim á leið.

Gestir í fjörunni í Kvíum. Úti á firðinum eru nokkrar skútur og í fjörunni eru gúmmíbátar og kajak.
Í fjörunni á Kvíum.

Sigga og Dúi við veislutjald á Kvíum. Á milli þeirra er diskókúla og Gerður gægist upp þar fyrir aftan.
Í afmæli á Kvíum, við Dúi og Gerður.

Kvíar, séð úr gúmmíbát sem er að sigla frá landi.
Lagt af stað heim frá Kvíum, eftir skemmtilegt afmælispartý.

Í dag fórum við í enn aðra gönguferð. Við tókum nefnilega að okkur að leiðsegja gönguhóp sem heitir Stína og Gerpin út í Mosdal. Fín ganga og skemmtilegur hópur, margir gamlir vinnufélagar og einnig Vg félagar og það var því nóg um að tala. Er nú þegar þetta er skrifað á leið í kvöldmat með þeim og þar verður nú ekki töluð vitleysan.
Að ganga út í Mosdal er létt og þægileg ganga sem hentar flestum, mæli með.

Gönguhópurinn á leið út í Mosdal.
Ég, Dúi, Stína og Gerpin á leið út í Mosdal.

Hópmynd af gönguhópnum í fjörunni.
Ég, Dúi, Stína og Gerpin.

Ábúendur á Kirkjubóli í Valþjófsdal ásamt Guðmundi Inga Guðbrandssyni.
Sigga og Steini í Dal sögðu hópnum (Stínu og Gerpunum) söguna af Sæunni og Mummi heilsaði uppá frænda sinn.

Nú er stefnan að ná smá sumarfíi næstu tvær vikur, verð í það minnsta ekki á skrifstofunni en síminn verður innan seilingar og svo kíki ég í tölvuna af og til. Mun að sjálfsögðu láta heyra í mér, dagbókin verður á sínum stað.