Bæjarstjórn: Reykjavíkurflugvöllur mikilvægur hlekkur í tryggum samgöngum

Tekið var inn með afbrigðum mál um Reykjavíkurflugvöll á 514. fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar sem haldinn var fimmtudaginn 4. maí. Ástæða þess að málið var tekið upp er að innviðaráðuneytið og Reykjavíkurborg hafa tekið ákvörðun um að hefjast skuli handa við jarðvegsframkvæmdir og undirbúning uppbyggingar í Nýja-Skerjafirði, á grundvelli niðurstaðna starfshóps sem ráðherra skipaði til að meta áhrif byggðarinnar á flug- og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar.

Í bókun bæjarstjórnar kemur fram að það er bæði öryggis- og hagsmunamál að Reykjavíkurflugvöllur geti áfram þjónað því fjölbreytta hlutverki sem honum eru ætluð með tilliti til sjúkraflugs, aðgengi almennings að innviðum, atvinnulífs og uppbyggingu ferðaþjónustu á landsbyggðinni.

„Okkur fannst eðlilegt að bæjarstjórn segði skoðun sína á þessu máli,“ segir Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri. „Málið er ekki einfalt þar sem skipulagsvaldið yfir Vatnsmýri er hjá Reykjavíkurborg og ég er sammála því að sveitarfélög skuli hafa það vald yfir sínu landi. Hins vegar finnst flestum sjálfsagt að höfuðborgin eigi að þjóna öllu landinu. Málið væri ef til vill einfaldara ef það væru til lög sem segja hvað höfuðborg á að gera, eins og t.d. að gera ráð fyrir innanlandsflugvelli innan borgarmarkanna.“ 

Bókun bæjarstjórnar í heild sinni:

Reykjavíkurflugvöllur er mikilvægur hlekkur í tryggum samgöngum fyrir landsbyggðina og mikilvæg tenging við höfuðborgarsvæðið. Það er bæði öryggis- og hagsmunamál að völlurinn geti áfram þjónað því fjölbreytta hlutverki sem honum eru ætluð með tilliti til sjúkraflugs, aðgengi almennings að innviðum, atvinnulífs og uppbyggingu ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Reykjavík er höfuðborg okkar allra en skipulagsvaldið yfir Skerjafirðinum er hennar. Þess vegna er mjög mikilvægt að tryggt verði að rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri verði ekki stofnað í hættu. Samkomulag ríkis og borgar frá árinu 2019 um að tryggja rekstraröryggi á Reykjavíkurflugvelli a.m.k. næstu 20-25 árin helst óbreytt.