Bæjarráð mótmælir fyrirhugaðri gjaldtöku í jarðgöngum

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar mótmælti fyrirhugaðri gjaldtöku í jarðgöngum í bókun um málið á fyrsta fundi ráðsins eftir sumarfrí, sem fram fór í dag, mánudaginn 15. ágúst.

Þann 19. júlí 2022 voru áform um frumvarp til laga um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu og rekstur samgönguinnviða kynnt í samráðsgátt fyrir hönd Innviðaráðuneytisins og var umsagnarfrestur tvær vikur.

„Umsagnarfresturinn sem gefinn var í þessu máli var mjög stuttur og féll akkúrat á sumarleyfi bæjarráðs og því gafst ráðinu ekki færi á að skila inn umsögn fyrir hönd Ísafjarðarbæjar innan tímamarka,“ segir Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar. „Engu að síður þótti bæjarráði mikilvægt að bóka um málið þar sem fyrirhuguð gjaldtaka myndi hafa neikvæð áhrif á daglegt líf íbúa sveitarfélagsins, sem og atvinnulíf svæðisins.“

Bókun bæjarráðs í heild sinni:

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar mótmælir gjaldtöku í jarðgöngum sem boðaðar eru. Ísafjarðarbær varð til í samhengi við gröft Vestfjarðaganga. Göngin eru í miðju sveitarfélagsins og ekki hægt að komast milli fjarða nema í gegnum þau. Enn önnur göng, til Bolungarvíkur, eru innan atvinnusóknarsvæðisins. Mikið og vaxandi samstarf er milli sveitarfélaganna og íbúanna sem þau byggja. Þriðju göngin, Dýrafjarðargöng, liggja svo innan sveitarfélagsins og gera Vestfirði loksins að þeirri samstæðu heild sem svo lengi hefur verið stefnt að. Atvinnulíf, vinnusókn, samstarf íþróttafélaga og margir aðrir þættir daglegs lífs verða fyrir neikvæðum áhrifum af fyrirhugaðri gjaldtöku. Engin haldbær rök eru lögð fyrir því að jarðgöng eigi sérstaklega að vera gjaldskyld umfram önnur samgöngumannvirki.

Ekki er gerð athugasemd við stofnun opinbers hlutafélags um uppbyggingu og rekstur samgönguinnviða, né þá forsendu að gjaldtaka verði að taka breytingum með orkuskiptum í samgöngum.

Að öðru leyti er vísað í aðrar umsagnir sem borist hafa í samráðsgáttina, m.a. um byggðasjónarmið, jafnræði, þörfina fyrir öfluga fjárfestingu í samgönguinnviðum og ófullburða mat á áhrifum lagasetningarinnar.